„piparmyntu og lakkrís te er minn helsti innblástur”

0

Tónlistarmaðurinn Julian Civilian var að senda frá sér plötuna Mána Til Mána en platan var alls ekki lengi í vinnslu. Skúli Jónsson eins og hann heitir réttu nafni er afar iðinn við tónlistarsköpun sína en hann segir að piparmyntu og lakkrísteið sé hans mesti innblásturinn. Fyrir skömmu kom út myndband við lagið „Der” en það var tekið upp á Ítalíu og fangar það mega næs stemningu!

Albumm.is náði tali af kappanum og svaraði hann nokkrum léttum spurningum.


Fyrir skömmu sendir þú frá þér plötuna Frá Mána Til Mána. Er hún búin að vera lengi í vinnslu og hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Nei, Máninn var ekki lengi í vinnslu. Ég fékk smá framkvæmdaorku í mig í byrjun mars, sem var líklega sprottin af örvæntingu yfir yfirvofandi þrítugsafmæli í lok apríl. Ég gerði svo bara það sem þurfti til að platan yrði tilbúin á afmælinu. Valdi nokkrar hálf kláraðar hugmyndir og mótaði nokkra grunna, hóaði svo í Helga Pétur (Morðingjarnir, Argument, Knife Fights) vin minn sem þyrlaði öllu inn á teip á einu kvöldi um miðjan mars. Mig minnir að það hafi verið á nýju tungli, sem er gott. Svo gerði ég texta og tók upp slatta af hljóðfærum. Annar vinur minn, Siggi hnífur (Knife Fights, Inland Shrines), mixaði svo og masteraði, og stráði líka gervluðu hljóði yfir. Þetta var mjög kaótískt og fókúserað ferli. En á þessum tveim mánuðum var ég líklega besta útgáfan af sjálfum mér. Svo varð ég þrítugur, sumarið kom og ég hef verið ónytjungur síðan.

Ég hugsa að piparmyntu og lakkrísteið sem ég drekk sé mesti innblásturinn í minni tónlistarsköpun. Eða kannski ekki beint innblástur, frekar svona áhrifavaldur. Ég er nefnilega frekar kvíðinn gaur og finnst gott að setja ketilinn á til að búa til einhverskonar framvindu á deginum. Á meðan ég bíð eftir að vatnið hitni í katlinum eða þegar ég bíð eftir að heita vatnið í bollanum verði að tei, þá glamra ég gjarnan á gítarinn. Og ég hugsa að á þeim stundum verði flestar hugmyndir að lögum til hjá mér. Svo má ekki vanmeta mátt timburmannanna í að búa eitthvað skrýtið og skemmtilegt til. Það eru þessir tveir ólíku þættir, timburmenn og te, og samruni þeirra sem eru að einhverju leyti galdurinn – ef galdur skyldi kalla – á bak við Civilian-seiðinn. Síðan slæðast að sjálfsögðu inn áhrif, ómeðvitað og meðvitað, frá þeirri tónlist sem maður hlustar á og fílar hverju sinni. Og síðasta vetur var American Analog Set, Paul Simon og Woods mikið á fóninum hjá mér, svo eitthvað sé nefnt.  Þetta er allt of langt svar hjá mér. Restin verður hnitmiðaðri!

Hver er að þínu mati besta plata allra tíma og hvað er það við þá plötu sem heillar þig?

Blue Album með Weezer. Kynntist Bláa albúminu snemma á unglingsárum – geisladiskahulstrið brotnaði eftir aðeins eina viku – og mér finnst hún jafngóð í dag og þá. Bæði er hún bara svo ærandi góð í gegn, og svo tengist ég henni líka á þennan nostalgíska máta. Ef það er samt einhver plata sem ég hef orðið gagntekinn af í seinni tíð þá er það Carrie & Lowell með Sufjan Stevens. Einlægni og fegurð, bæði í texta og tónlist, sem höfðaði óvenju sterkt til mín.

Nú var að koma út myndband við lagið „Der” hvar er það tekið upp og var það ekki bara mega næs?

Myndbandið var skotið á Ítalíu í sumar. Ég var í fríi með fjölskyldu konu minnar. Leigðum sumarhús í hæðum Toscana sem var jú – alveg eins og þú segir – mega næs. Þrjú orð á þremur tungumálum lýsa þessu best: Peroni, pítsa og pool. Í aðdraganda ferðarinnar hvatti Helgi Pétur mig í að taka upp myndband úti. Og það var bara það sem ég gerði. Snæja mágkona tók megnið upp því hún var með betri síma en ég, fyrir utan að vera flinkur ljósmyndari. Villi svili bakaði pítsu og Sigyn, konan mín, var sósuð á kantinum. Lagið Der er frekar íslenskt, kalt og þunglyndislegt svo það meikaði einhvernveginn mestan sens að máta það við ítalskt sumar.

Á að fylgja plötunni eftir með tilheyrandi tónleikahaldi?

Já, loksins. Ég mun koma fram á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni í byrjun nóvember. Þar spila fyrrnefndir Helgi Pétur og Siggi með mér auk twittergrínarans Gunnars Péturs sem mun plokka þykku spítuna. En fyrst eru tónleikar á Gauknum 24. október ásamt Skoffín og vonandi fleirum. Mögulega Inland Shrines.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Nokkrir hausttónleikar. Svo ætla ég að gefa út 7-tommu með lögum við ljóð eftir Jón Egil Bergþórsson, vonandi fyrir jól. Að lokum langar mig að senda knús til litla bróður míns, Egils, sem flutti til Stokkhólms í ágúst í nám. Egill, ég sakna þín.

Hér fyrir neðan má hlýða á plötuna í heild sinni:

Skrifaðu ummæli