PINK STREET BOYS

0

psb3

Pink Street Boys er ein framsæknasta rokkhljómsveit Íslands þó víðar væri leitað. Þeir spila hátt og hratt rokk og ról!  Jónbjörn gítar og bassaleikari sveitarinnar hitti á Albumm og sagði okkur meðal annars frá nafninu á bandinu, þriggja fermetra æfingarhúsnæðinu og slagsmálum eftir tónleika. Hljómsveitina skipa:  Jónbjörn: gítar og bassi, víðir: gítar og bassi, Axel: gítar og söngur, Einar: trommur, Alfreð söngur og hristur.


Hvenær er hljómsveitin Pink Street Boys stofnuð?

Við ákváðum nafnið í maí árið 2013 en við erum allir búnir að spila saman síðan í grunnskóla, alveg átta ár. Við erum allir úr Foldaskóla í Grafarvogi en við vorum í tveim mismunandi hljómsveitum. Tveir voru í Mania Locus og hinir í Kill Joy. Við vorum alltaf að rífast um hvor hljómsveitin væri betri en enduðum á að sameinast.

Hvaðan kemur nafnið Pink Street Boys?

Við erum að æfa í götu sem heitir Bleik Gata það er nú ekki flóknara en það.

Hvernig mundirðu skilgreina tónlistina ykkar?

Þetta er bara rokk og ról en fyrir suma hljómar þetta kannski eins og punk. Við spilum hátt og hart rokk og ról!

Þið voruð að gefa út plötu ekki satt?

Jú, hún kom út 18. apríl síðastliðinn, á sjálfan Record Store Day. Þetta er stór plata en er samt bara tuttugu mínútur. Þetta byrjaði eiginlega allt þegar Lady Boy Records gáfu út kassettu með okkur þá byrjaði síminn að hringja og fólk að biðja okkur um að spila.

Er sviti, blóð og vodka á hljómsveitaræfingu hjá Pink Street Boys?

Já, það má segja það en það er bjór en ekki vodka. Einar trommari svitnar langmest en herbergið sem við æfum  í er svona 3 til 4 fermetrar þannig við getum haft alveg ógeðslega hátt. Við gleymum okkur  frekar mikið á æfingum ég held það hjálpi okkur að vera í svona litlu herbergi.

psb1

Hafið þið farið eitthvað erlendis að spila eða er það á dagskrá?

Nei, ekkert farið enþá en okkur langar það rosalega mikið og erum að reyna það núna. Okkur langar geðveikt mikið að fara í September en við erum bara svo óskipulagðir og okkur er ekki treystandi til að sjá um þetta. Ég er að reyna á fullu en þetta gengur ekki neitt. Við erum reyndar að spá í að fara til Portúgal og Spánar, það er mikið rokk og ról í Portúgal.

Er Pink Street Boys með eitthvað framtíðar plan?

Nei, ég get nú ekki sagt það þetta er allt frekar óskipulagt hjá okkur. Við erum alltaf í æfingarhúsnæðinu að semja, æfa eða bara hanga, enginn af okkur á kærustu þannig það er hægt. Við erum bara guttar sem langar ekki að þroskast alveg strax.

Hverjir eru áhrifavaldar ykkar?

Það er Early Seventies Punk en við erum líka mjög mikið fyrir kántrí og góða popp músík. Við tókum tímabil þar sem við hlustuðum rosalega mikið á All Saints og Sugababes mennirnir sem semja þessa tónlist eru snillingar!

psb2

Er aldrei ágreiningur innan bandsins?

Jújú tveir af okkur lentu í slag um daginn og það strax eftir tónleika en urðu bestu vinir þegar það var búið. Við erum allir bestu vinir!

Þannig þetta er alvöru rokk og ról hljómsveit?

Ég veit ekki en það var mjög gaman að sjá þá slást.

Hver var ástæðan fyrir slagsmálunum?

Bara áfengi og stelpur.

Hvað er á döfinni?

Við erum byrjaðir á plötu númer tvö og okkur langar að gefa hana út á þessu ári, gefa út tvær plötur á sama ári það væri geggjað!

Eitthvað að lokum?

Tékkið á Pink Street Boys, krúttið er dautt!

 

Útgáfutónleikar Pink Street Boys verða 22. Maí á Litlu Kaffistofunni.

Ásamt Þeim koma fram: Seint – Godchilla – Russian.Girls og Singapore Sling

Aðgangseyrir: 1000 kr

 

 

 

Comments are closed.