ÓSVÍFIN, KJARKMIKIL OG GLETTIN FJÖLLISTAHÁTÍÐ Í REYKJAVÍK

0

Aðstandendur Reykjavík Fringe Festival.

Reykjavik Fringe Festival er glæný fjögurra daga fjöllistahátíð en hún fer fram í Reykjavík dagana 21. til 24. September 2017. Listasýningar af öllum toga munu spretta upp á hinum og þessum sviðum bæjarins, galleríum og hinum ótrúlegustu stöðum. Óhætt er að segja að stemmingin er mikil fyrir þessarri flotti fjöllistahátíð.

Albumm.is náði tali af aðstandendum hátíðarinnar og svöruðu þau nokkrum laufléttum spurningum.

Hvað er Reykjavík Fringe Festival?

Reykjavik Fringe Festival er ósvífin og kjarkmikil, ný fjöllistahátið. Jafnvel glettin. Hún er haldin í samstarfi við hið nýstofnaða Nordic Fringe Network, sem samanstendur af Stockholm Fringe Festival, Norway Fringe Festival og Gothenburg Fringe Festival. Hátíðirnar verða haldnar hver á fætur annarri, helgi eftir helgi í september og munu ótal listafólk flakka þeirra á milli. Bæði munum við fá inn erlent listafólk og mun íslensku listafólki einnig bjóðast að fara á samnorrænan Fringe-túr eða kombó af einhverjum hátíðanna.

Hvernig kom til að þið ákváðuð að halda Reykjavík Fringe Festival?

Á kaldri kvöldstund í desembermánuði 2016, sátu Jón Magnús og Gísli Jóhann inná hlýjum veitingastað og snæddu rifið svín á laufabrauði þakið barbíkjú sósu og höfðu orð á því hvað það væri nú æðislegt að geta notið svona dýrindis máltíðar á glæstri fjöllistahátíð. Í þeim töluðu orðum gekk hún Hildur María hjá, og tók samstundis undir þá tillögu með þeim. Frá og með því augnabliki var hugmyndin slegin, og ekki aftur snúið. Stuttu síðar voru þau komin í samband við Nordic Fringe Network og fyrr en varði var búið að safna saman ótrúlegu teymi af fjölfæru fólki sem var þeim hæfileikum búið að geta saman sett á laggirnar eitthvað eins grúví og Reykjavik Fringe Festival.

Hvenær er þetta haldið og við hverju má fólk búast?

Hátíðin verður haldin næstkomandi september, nánar tiltekið helgina 21. – 24. september. Fólk má búast við því að miðbærinn verði vel Fringe’aður á því. Listasýningar af öllum toga spretta upp á hinum og þessum sviðum bæjarins, galleríum og hinum ótrúlegustu stöðum.
Þetta er listafestival, hvernig list er verið að leggja áherslur á?
Þetta er jú fjöllistafestival. Fringe er í dag notað sem regnhlífarhugtak yfir jaðarlistir. Reykjavík Fringe Festival hefur sviðslistir, burlesque, drag, ljóðlistir, spuna og uppistand í brennidepli, en allt fjöllistafólk sem langar að koma sinni list á framfæri er algjörlega hvatt til þess að senda inn umsóknir!

Eitthvað að lokum?

Umsóknarfresturinn fyrir hinn samnorræna Fringe-túr er núna til 5. mars, en umsóknarfrestur fyrir íslendinga til þess að taka þátt í Reykjavik Fringe Festival mun þó verða nokkuð lengri. Sama þó að þú sért með hálfkláruð verk í vinnslu, sama þó að þér kunni að þykja þitt listaverk of framandi fyrir hinn almenna borgara, sama þó að þitt listaverk sé bara þú, þá hvetjum við þig til þess að sækja um sem fyrst. Okkar markmið er að skapa nýjan vettvang og tækifæri fyrir list til að blómstra hér á landi, og mynda tengingu við hið alþjóðlega listasamfélag.

https://www.rvkfringe.is

 

Skrifaðu ummæli