Óreiða af ýmsum toga og allt út um allt

0

„Drasl“ er nýtt lag frá Sveini Guðmundssyni sem er hægt og rólega að taka upp nýja plötu. Búið er að taka upp fimm lög og áætlað er að taka upp fimm í viðbót. Fyrr á árinu gaf Sveinn út lagið „Húð og hár“ en upptökur fara fram í Aldingarðinum undir stjórn Magnúsar Leifs Sveinssonar.

„Drasl“ fjallar um óreiðu af ýmsum toga, þegar allt er út um allt, í höfði jafnt sem vistarverum og það þarf að taka til, vaska upp, lofta út, ryksuga og raða öllu saman upp á nýtt. Lagið varð til fyrir nokkrum árum er Sveinn áttaði sig á því að ástand eigna og hugarástand hans var það sama, allt í drasli.

Sveinn hefur einbeitt sér að upptökum það sem af er árinu en mun koma fram á Melodica Festival sem fer fram á Kex Hostel 24-26. ágúst. Á hátíðinni koma fram innlent og erlent tónlistarfólk en hátíðin er haldin árlega víða um heim.

Lagið má finna á Spotify og Youtube en kemur út á föstu formi er platan verður klár.

Skrifaðu ummæli