ÓLÖF NORDAL MEÐ LISTAMANNASPJALL Í HARBINGER NÆSTKOMANDI LAUGARDAG

0

NORDAL 4

Laugardaginn næstkomandi, 30.4. kl 15:00, verður haldið listamannaspjall í sýningarýminu Harbinger. Þar segir Ólöf Nordal frá sýningu sinni Viaggio Sentimentale og eru allir velkomnir!

Sýningin er m.a. haldin í tilefni af 90 ára afmæli föður hennar, tónskáldsins Jóns Nordal, en á þessum tímamótum lítur hún 60 ár tilbaka, til annarra tímamóta í ævi föður hennar, brúðkaupsferðalags hans og móður hennar og kynnist þeirri listrænu deiglu sem hann var í á þessu tímabili. Á sýningunni er að finna ljósmyndaverk, hljóðverk og bókverk.

Um Ólöfu Nordal:

Ólöf Nordal stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk síðan mastersprófi frá Cranbrook Academy of Art, Michigan og MFA frá höggmyndadeild Yale Háskólans í New Haven, BNA.
Ólöf hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hérlendis sem erlendis.

Af einkasýningum og má nefna sýningarnar Corpus dulcis (1998) og Íslenskt dýrasafn (2005) í Gallerí i8, Ropi (2001) í Nýlistasafninu, Hanaegg (2005) og Fyrirmyndir (2010) í Listasafni ASÍ og nú síðast Musée Islandique í Listasafni Íslands. Á meðal verka í almannarými má nefna Geirfugl (1997), sem stendur í Skerjafirðinum, Vituð ér enn – eða hvað? (2002) í Alþingishúsinu og Bollasteinn (2005) á Seltjarnarnesi. Árið 2007 var vígt verkið Fuglar himinsins, altarisverk í Ísafjarðarkirkju og minnisvarði um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur í Þingholtsstræti. Árið 2013 var reist umhverfisverkið Þúfa við höfnina í Reykjavík.

Verk Ólafar er m.a. að finna í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Listasafni SPRON og Safni, auk einkasafna í ýmsum löndum. Ólöf hefur hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar fyrir list sína, svo sem úthlutun úr Listasjóði Dungal, Erró- styrkinn og viðurkenningu úr höggmyndasjóði Richard Serra.

Um sýninguna: 

Minningar annarra

Þegar Ólöf Nordal hélt af stað til Rómar í upphafi þessa árs hafði hún með í farangrinum nokkrar sextíu ára gamlar svarthvítar ljósmyndir sem teknar voru í brúðkaupsferð foreldra hennar. Myndirnar sýna minnismerki og merkar byggingar í borginni, þar sem  foreldrum Ólafar bregður einnig fyrir. Þótt það hafi ekki verið megintilgangur ferðar hennar til Rómar að feta í fótspor foreldranna í brúðkaupsferðinni er það sá hluti hennar sem nú er orðinn að sýningu. Gamlar ljósmyndir mynda grunn að tilfinningalegu ferðalagi dóttur á slóðir sem foreldrarnir heimsóttu  nokkrum árum áður en hún fæddist. Minningar úr brúðkaupsferðinni tilheyra ekki henni sjálfri, en hún getur nálgast þær fyrir milligöngu ljósmynda og dagbóka föður síns sem leiða hana á sömu staði. Með vitneskju úr dagbókunum og ljósmyndirnar í farteskinu fór Ólöf á staðina þar sem myndirnar voru teknar og leitaði að sama sjónarhorni og er að finna á eldri  myndunum.

ÓLÖF NORDAL 1

Sú athöfn að fara á staðina sem foreldrar hennar heimsóttu saman eftir brúðkaupið er í sjálfur sér tilfinningalegs eðlis. Hún er knúin áfram af þörf fyrir tengingu við fortíð sem tilheyrir foreldrunum. Um leið felur hún í sér leit að eigin uppruna í endurtekinni upplifun sem þó getur aldrei orðið eins. Tilgangurinn með endurtekningunni var heldur ekki aðeins sá að sjá sömu staði og foreldrarnir í brúðkaupsferðinni. Að baki bjó einnig löngun til að kanna hvort það geti verið rétt sem vísindamenn halda fram, að minningar foreldra, tilfinningar þeirra og reynsla, séu skráð í genamengi afkomenda þeirra. Getur verið að hún sjálf hafi á einhvern hátt mótast af þessu ferðalagi þótt það hafi verið farið nokkrum árum áður en hún kom í þennan heim? Og ef svo er, er þá mögulega hægt að endurupplifa borgina eins og foreldrarnir gerðu á sínum tíma í minningum geymdum í genunum? Er þannig hægt að finna tilfinningar tengdar stöðum sem þau heimsóttu og ekki er skrifað um í dagbókum eða hægt að taka af myndir? Svör við þessum tilteknu spurningum liggja ekki á lausu, en ljósmyndirnar sem Ólöf tók í sínu ferðalagi á sömu stöðum og ljósmyndir foreldranna voru teknar sýna okkur að lítið hefur breyst í Róm. Borgin er söm við sig. Þau sextíu ár sem líða frá fyrri myndatökunni til hinnar seinni mást út þegar ljósmyndirnar hafa verið skeyttar saman. Nýja samsetta myndin rennur saman við eldri myndina þar sem jafnvel atburðir endurtaka sig. Svo litlar breytingar hafa orðið á umhverfinu að samsetta ljósmyndin getur ekki annað en minnt á hvað ein mannsævi er stutt í samanburði við aldur bygginga sem verið hafa hluti af atburðarás er mótað hefur sögu mannkynsins. Mörghundruð ára gömul hús og götumyndir hafa staðið af sér gegnumstreymi kynslóðanna og minna á hve ævi mannsins er stutt í samanburði. Dóttirin verður samtíða foreldrunum og foreldrarnir henni.

NORDAL 2

Tilraun Ólafar til að setja sig í spor foreldranna sinna þegar þau voru að hefja líf sitt saman rúmlega tvítug, minnir á verk listamanna sem hafa endurskapað sögulega atburði sem þeir hafa ekki getað upplifað sjálfir. Í umfjöllun Inke Arns um slíkar sviðsetningar þar sem reynt er að ná utan um atburðinn með endurtekningu, segir að tilgangurinn sé að fjalla um atburði úr fortíðinni sem skipta máli fyrir samtímann. Slíkar endurtekningar eiga það sameiginlegt með endurgerð Ólafar á ljósmyndum úr brúðkaupsferð foreldra sinna að byggja á atburðum sem hefur verið miðlað. Miðillinn, í þessu tilfelli ljósmyndin, leikur lykilhlutverk í að tengja saman kynslóðir. Er þá gengið út frá þeirri hugmynd að aðeins sé hægt að kynnast þeim hluta fortíðarinnar sem hefur verið miðlað. En til að upplifa atburðinn aftur er nauðsynlegt að endurtaka hann og miðla honum aftur. Slíkar endurtekningar miðast oftar en ekki við reynslu sem haft hefur áhrif á heil samfélög eða hópa, öfugt við reynslu sem er persónuleg – eða erfist. Slík reynsla byggir á arfleið fjölskyldu og foreldra. Hún er einkamál eins og brúðkaupsferðin sem markar upphafið af nýjum ættlegg, en einnig eiginlegt upphafið að ferli Jóns Nordal, föður Ólafar, sem tónskálds. Í þessari ferð tók hann þá ákvörðun að hann yrði að skapa sér sinn eigin heim sem tónskáld, sitt eigið tónmál. Ferðalagið til Rómar var núllpunktur, upphafið af tónverkum framtíðarinnar og þeim tónheimi sem átti eftir að verða undirleikurinn í uppvexti Ólafar. Sá tónheimur var ekki tónlistin sjálf, heldur hljóðrás tónverka í mótun. Leit tónskáldsins og tilraunir. Sjálft sköpunarferlið sem listamaðurinn fer í gegnum þegar hann byrjar að þreifa fyrir sér og móta það sem síðar á eftir að verða heilstætt verk.

NORDAL 3

Þess vegna er annar hluti sýningarinnar Viaggio sentimentale ekki síður mikilvægur en sá hluti er snýr að ljósmyndunum úr brúðkaupsferðinni. Hann vísar til verðandi listamanns og þeirrar ákvörðunar hins unga tónskálds, að semja sig frá því sem hann hafði lært í þeim tilgangi að finna sitt höfundareinkenni. Það eru þessar tilraunir, fengnar að láni úr skissubók tónskáldsins sem skrifuð var í Rómarferðinni, sem móta hljóðheim sýningarinnar Viaggio sentimentale. Hljómar leiknir hrátt eins og þeir voru skrifaðir. Brot úr tónverkum sem aldrei urðu til. Sjálfstæðir tónar sem hafa enga sérstaka merkingu eða skírskotun í önnur verk. Nótnabókin sjálf ásamt athugasemdum tónskáldsins  þar sem hann lýsir árangurslausri leit sinni er einnig hluti sýningarinnar. Þessar athugasemdir segja einnig sögu af sjálfsaga. Tónskáldið veit að hann mun aldrei komast að niðurstöðu nema með því beita sig aga og sýna úthald. Úthaldið og ögunin kallast á við listamannsferil Ólafar sjálfrar og þeirrar kúvendingar sem hún tók í upphafi síns eigin listferils. Skissubók tónskáldsins vísar þannig óvænt til hennar eigin staðfestu og þess aga sem hún hefur sýnt sem listamaður í leit að persónulegu viðfangsefni og myndmáli. Um leið er sýningin saga allra þeirra listamanna sem þurft hafa að takast á við sömu glímu.

Ferðlög til Rómar voru lengi talin ómissandi hluti af mótun hvers listamanns. Ferðlag á vit mörg hundruð ára gamalla bygginga og meistaraverka, sem ekki var aðeins hægt að læra af til að endurtaka heldur til að öðlast skilning á hlutverki listarinnar og samhengi hlutanna. Skilning á því að list sem skiptir máli muni skilja eftir sig dýpri spor í framtíðinni en fótspor einstaklings. List sem lifir löngu eftir að höfundurinn er horfinn.

Sýningin opnaði 9. apríl og stendur til 8. maí.

Harbinger er til húsa að Freyjugötu 1 og er opið fimmtudaga, föstudaga og laugardaga á milli 14 og 17.

Comments are closed.