ÓLAFUR PÁLL GUNNARSSON

0

olipalli-9

Ólafur Páll Gunnarsson er einn ástsælasti útvarpsmaður þjóðarinnar og hefur hann verið það svo árum skiptir. Óli Palli eins og hann er oftast kallaður hefur komið víða við á viðburðarríkum ferli en hann hefur t.d. verið þáttarstjórnandi í sjónvarpi, skrifað handrit og pistla og haldið úti útvarpsþættinum Rokkland en þúsundasti þátturinn fór í loftið á dögunum. Óli Palli er viðmælandi vikunnar á Albumm.is og sagði hann okkur frá hvernig hanns tónlistaráhugi byrjaði, hvenær og hvernig hann byrjaði í útvarpi og að sjálfsögðu um þátt númer eitt þúsund.


Hvenær og hvernig byrjaði þinn tónlistaráhugi og hvaða hljómsveitir/tónlistarfólk kveiktu neistann?

Ég hef alltaf haft áhuga á tónlist – alveg frá því ég var pínulítill. Það fyrsta sem ég sat og hlustaði á af athygli var stór og mikill þýskur söngvari af rússneskum ættum sem hét Ivan Rebroff – ég var tveggja ára. Amma mín átti plöturnar hans og einhverra hluta vegna hafði ég gaman af honum. Ég hitti hann nokkrum árum síðar í boði heima hjá ömmu einmitt, eftir tónleika á Akranesi. Fyrsta hljómsveitarplakatið sem ég man eftir uppi á vegg í herberginu mínu á Akranesi var af Village People. Það var Village People, John Travolta, Superman… þá var ég 8 ára. Svo kynntist ég Kiss. Það voru svo Bubbi Morthens og Utangarðsmenn sem breyttu öllu hjá mér, Sex Pistols, Clash, Þeyr, Purrkur Pillnikk, Fræbbblarnir og Rokk í Reykjavík. Ég var lítill pönkari.

olipalli-5

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Varstu eða ertu eitthvað að stússast í hljómsveitum og spilar þú á hljóðfæri?

Já ég var í hljómsveitum þegar ég var yngri á Akranesi, 14-15 ára og fram yfir tvítugt. Ég spilaði á gítar og söng smá. Ég lærði á klarinet þegar ég var strákur og svo á gítar.

Þú ert einn helsti tónlistarspekúlant landsins, hvernig finnst þér tónlistarlíf á Íslandi í dag og átt þú þér uppáhalds tímabil í Íslenskri tónlistarsögu?

Tónlistarlífið er blómlegt og skemmtilegt – hefur í raun verið það eins lengi og ég hef fylgst með. En mitt uppáhalds tímabil er tímabilið sem ég fylgdist í raun bara með úr fjarlægð að mestu frá 1980 og næstu árin á eftir. Ég upplifði það aldrei að sjá Utangarðsmenn á sviði þegar þeir störfuðu 1980-1981 en þegar þeir komu saman aftur 20 árum seinna fór ég með þeim hringferðina um landið. Það var áhugavert.

olipalliu

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Hvaða hljómsveitir eða tónlistarfólk hafa fylgt þér sem lengst og hvað er það við þeirra tónlist sem heillar þig?

Ég held mikið upp á gamlar hetjur eins og Neil Young og Bob Dylan, David Bowie, Nick Cave, Tom Waits, Bítlana, Rolling Stones, Wilco, Bruce Springsteen, Ramones, Bob Marley, R.E.M. Johnny Cash, Clash, AC/DC, Led Zeppelin, U2 og marga fleiri, og það sem heillar mig mest er þegar tónlistarfólk notar tónlistina til að gera heiminn aðeins betri. Og svo er það öll íslenska tónlistin sem við getum verið stolt af og þar eru Sigur Rós og Utangarðsmenn alltaf í sérstöku uppáhaldi, en ég hef gaman af allri tónlist sem hreyfir við mér á einhvern hátt og það skiptir ekki máli hvort það er gamalt eða nýtt, kántrí, pönk, rapp eða annað. Sumt er betra en annað og þó svo það megi segja að ég sé meiri rokk-maður en eitthvað annað er fátt sem mér finnst leiðinlegra en leiðinlegt rokk.

Hvernig kviknaði áhuginn á útvarpsmennsku, hvenær byrjaðir þú að vinna í útvarpi og hvernig kom það til?

Ég hlustaði mikið á útvarp þegar ég var strákur og þá var bara ein útvarpsstöð á Íslandi. Ég hafði ekki beint áhuga á útvarpi heldur var það svona vinur eða félagi. Ég lærði rafeindavirkjum og fékk vinnu sem hljóðmaður strax eftir útskrift þegar ég var 21 árs árið 1991. Andrea Jóns tók mig fljótlega undir sinn verndarvæng og við urðum góðir vinir. Ég hafði gríðarlegan áhuga á tónlist og fékk í hendurnar þátt sem hét Vinsældalisti götunnar og ég sá um hann í líklega 5 ár eða þar um bil þar til mér var treyst fyrir nýjum tónlistarþætti sem ég kom með hugmynd að og fékk nafnið Rokkland – það var haustið 1995. Það var hálfgerð tilviljun sem réði því en ég ákvað að nýta tækifærið vel og Rokkland er enn í gangi 20 árum síðar.

olipalliu-2

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Hvað var það við útvarpsmennskuna sem heillaði þig og heillar þetta þig jafn mikið í dag?

Já þetta er alltaf jafn skemmtilegt. Ég hef alla tíð verið umvafinn tónlist og þegar ég var yngri, löngu fyrir internet og allt það bankaði ég uppá hjá fólki og spurði hvort ég mætti kíkja á plötusafn heimilisins og kannski fá eitthvað lánað til að taka upp á kassetur. Ég var svo alltaf með alla vasa fulla af kassettum með nýjustu uppgötvununum – sem var ekkert alltaf nú músík, heldur bara eitthvað sem ég var nýbúinn að uppgötva. Ég man þegar ég uppgötvaði Black Sabbath, Led Zeppelin, David Bowie, Bob Dylan, Neil Young – gamla músík sem var splunkuný í mínum eyrum. Og ég varð að leyfa öllum að heyra.

Þú hefur einnig stýrt þáttum í sjónvarpi eins og t.d. Stúdíó A, hvort finnst þér skemmtilegra útvarp eða sjónvarp og er mikill munur þar á milli?

Þetta er allt skemmtilegt. Sjónvarp eins og það sem ég hef fengið að taka þátt í er meira eins og að standa á sviði en útvarpsvinnan er meira föndur. Reyndar er ég bæði LIVE í útvarpinu og ekki. Popplandið sem er þátturinn sem við sjáum um alla virka daga eftir hádegi, ég, Matti og Salka Sól er í beinni úr Útvarpshúsinu við Efstaleiti en Rokklandið sem er á sunnudögum eftir 4 fréttir vinn ég t.d. og set saman í stúdíói heima hjá mér og þar fer mesta vinnan fram. Þar hlusta ég og skrifa handrit, finn músík og eitthvað til að segja frá, klippi viðtöl og raða síðan saman í vonandi – skemmtilegt útvarp.

olipalli-8

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Nú var þúsundasti þátturinn af Rokklandi í loftinu fyrir skömmu, hvernig var sú tilfinning, bjóstu einhverntímann við því að þú yrðir þetta lengi í útvarpi og hvað þá að ná þætti nr. þúsund?

Nei, ég hef aldrei búist við einu eða neinu en ég er gríðarlega þakklátur fyrir að hafa fengið að starfa við útvarp öll þessi ár. Ég hef reynt að vanda mig alla tíð og það er eiginlega það eina sem maður getur gert. Það er dagskrárstjóri Rásar 2 á hverjum tíma sem ákveður hvað eigi að vera á dagskrá á hverjum tíma og Rokkland hefur lifað a.m.k. 6 dagskrárstjóra. Það hefur enginn þáttur lifað svona lengi á Rás 2 og þeir eru ekki margir í útvarpi á Íslandi.

Áttu þér þinn uppáhalds Rokkland þátt og ef svo er af hverju hann?

Það eru nokkrir sem koma upp í hugann. Ég fór til Liverpool á Bítlaslóðir með félögum úr FTT fyrir nokkrum árum og gerði þátt sem var nokkuð vel heppnaður. Ég fór með sama félagsskap til Nashville, Memphis og New Orleans – (að rótum rytmans) síðasta haust og gerði eftir það tvo þætti sem voru ágætir. Og svo gerði ég þrjá þætti um David Bowie eftir að hann lést í upphafi árs sem ég er nokkuð ánægður með – það má sækja þetta allt í hlaðvarp RÚV.

olipalli-10

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Hvað er framundan hjá Óla Palla?

Það er nú eitt og annað. Ég vona að ég fái að halda áfram í Rokklandinu og að sinna öðrum verkum hjá RÚV. Ég sé t.d. um allar tónleikaupptökur Rásar 2 auk þess að vera líka í Popplandi og sjá um vikulegan tónleikaþátt sem heitir Konsert og er á fimmtudagskvöldum. Ég er líka að gera upp rúmlega 100 ára gamalt hús á Akranesi, er að vinna að sjónvarpsþætti um Ameríkuferðina síðasta haust þar sem Elvis var t.d. heimsóttur. Ég vona að það verði framhald á Stúdíó A og svo er ég með heimildamynd um tónlist í höfðinu og fleiri sjónvarpshugmyndir. Ég er líka meðlimur í Fjallabræðrum sem er ótrúlega skemmtilegur félagsskapur og við ætlum að taka upp plötu á árinu þannig að það er nóg að gera. Ég á líka konu og 3 börn og varð afi í fyrra.

Comments are closed.