ÓLAFUR JÓNSSON FAGNAR ÚTGÁFU Á TÍMI TIL KOMINN Á JAZZHÁTÍÐ REYKJAVÍKUR

0

Saxófónleikarinn Ólafur Jónsson fagnar ásamt kvartetti sínum útgáfu á fyrsta geisladiski Ólafs á vegum Jazzhátíðar Reykjavíkur 10. ágúst n.k.. Geisladiskurinn sem ber titilinn Tími til kominn er með alls níu verk sem Ólafur hefur samið á undanförnum tuttugu árum þar sem blandað er saman ólíkum tónlistarstefnum á frumlegan máta. Ný íslensk jazztónlist sem bæði er frjáls en þó hefðbundin. Ásamt honum leika á geisladisknum og tónleikunum píanóleikarinn Eyþór Gunnarsson, bassaleikarinn Þorgrímur Jónsson og trommuleikarinn Scott McLemore.

„Gerð þessa disks hefur átt sér langan aðdraganda og má segja að hann sé búinn að vera að gerjast í undirmeðvitundinni í hartnær tuttugu ár, eða frá því að fyrstu lögin urðu til. Tuttugu ár er langur tími og hafa því lögin verið samin á nokkrum tímabilum og af margvíslegum tilefnum, t.d. til að fagna nýju lífi, minnast og kveðja ástvini, ásamt því að verða ýmiss konar minningarbrot liðinna ára. Ég vonast því til að hún gefi einlæga og persónulega sýn á mína nálgun við það listform sem jazztónlist er. Þar sem ég fagna fimmtugsafmæli síðar í mánuðinum, ákvað ég að ekki væri eftir neinu að bíða, enda er tími til kominn!”

Að tónleikum loknum gefst tónleikagestum kostur á að kaupa diskinn á sérstöku hátíðarverði. Tónleikarnir hefjast kl. 22:20 og fara fram í Norðurljósasal Hörpu. Hægt er að nálgast miða í miðasölu Hörpu eða á Tix.is

Saxófónleikarinn og tónskáldið Ólafur Jónsson hefur komið víða við á sínum tónlistarferli undanfarin 25 ár. Hann hefur tekið þátt í fjölmörgum og fjölbreyttum verkefnum og starfað með flestu af fremsta tónlistarfólki landsins. Frá árinu 1994 verið meðlimur í Stórsveit Reykjavíkur en sveitin hefur getið sér gott orð bæði innanlands og utan og gefið út fjölmarga geisladiska. Haldið fjölda tónleika í eigin nafni og í samstarfi við aðra. Leikið m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, bæði á tónleikum, beinum sjónvarpsútsendingum og á upptökum, leikið með Caput hópnum m.a. á tónleikum í Norrænahúsinu í nóvember 2013 þar sem verk tónskáldsins John Speight, Cantus V var frumflutt, en það var sérstaklega samið fyrir Ólaf. Tekið þátt í fjölmörgum leiksýningum atvinnuleikhúsanna, leikið inn á tæplega 30 hljómdiska þar sem margvíslegrar tónlistar gætir.

Skrifaðu ummæli