„Okkur langaði að bralla eitthvað saman“

0

Lárus, Jóhannes og Einar á góðri stundu!

12 Tónar fagnar í dag tuttugu ára afmæli sínu og óhætt er að segja að margt skemmtilegt hefur gerst á þessum árum! Lárus Jóhannesson og Jóhannes Ágústsson opnuðu verslunina árið 1998 þar sem áherslan var á nýja og spennandi tónlist sem ekki hafði fengist áður!

Það er alltaf notalegt að kíkja á Lalla, Jóhannes og Einar, sötra góðan kaffibolla og spjalla um tónlist! Albumm náði tali af Lárusi og svaraði hann nokkrum spurningum um þessi merku tímamót!


Hvenær var 12 Tónar stofnuð og hvernig kom það til?

Við Jóhannes Ágústsson vorum búnir að þekkjast síðan við vorum strákar í skákinni, Jói var á þessum tíma verslunarstjóri Japis og ég var stór viðskiptavinur. Okkur langaði að bralla eitthvað saman, höfðum hlustað og pælt í músik síðan við mundum eftir okkur. Árið 1998 opnuðum við verslunina þar sem áherslan var á nýja og spennandi tónlist sem ekki hafði fengist áður, góða aðstöðu til að hlusta, sérlagað kaffi og vandaða þjónustu í alla staði. Tónleikar og myndlistasýningar voru einnig reglulegir viðburðir.

Hvað er tólf tónar og hvernig skilgreinir þú starfsemi ykkar?

Nafnið er bæði almennt og vísar líka í 12 tóna kerfið í klassískri tónlist sem ruddi sér rúms sérstaklega eftir seinni heimstyrjöldina, þar erum við að segja; tónskáld þarf ekki að liggja í gröfinni í 300 ár til að fá viðurkenningu, sem sagt áhersla á það sem er gerast í dag. Frekar langsótt ég veit, en svona hugsum við þetta.

Fyrir tíu árum síðan!

 

12 Tónar er ekki einungis verslun heldur einnig plötuútgáfa. Hvernig kom það ævintýri til?

Það stóð alltaf til að fara í útgáfu, við hugsuðum þetta þannig hagnaðurinn af versluninni færi í útgáfuna, þannig að ef þú kaupir plötu hjá okkur þá ertu að styðja við tónlistarlífið í landinu.  Fyrsta platan kom út árið 2003, Krákan með Eivöru Pálsdóttur. Þó við höfum unnið með mörgum af þekktustu listamönnum þjóðarinnar þá hefur áherslan alltaf verið á að styðja við þá sem eru að stíga sín fyrstu skref, nefni sem dæmi Samaris, Mugison, Ólöfu Arnalds, Víking Heiðar Ólafsson, Daníel Bjarnason, Hildi Guðnadóttur, Rökkurró og Jóhann Jóhannsson.

Tónlistargúrúinn Einar að störfum!

Bjóstu við að vera enn starfandi eftur tuttugu ár og hvað er leyndarmálið að velgengninni?

Hef svo sem ekki hugsað mikið um það en já ætli ég hafi ekki vonast til að þetta yrði ævistarfið, það þekkja ekki margir Lalla en Lalla í 12 Tónum þekkja vonandi fleiri. Leyndarmálið er að halda sínu striki vera útsjónarsamur og minna sjálfan sig reglulega á að það sem þú ert að gera skiptir máli.

Hvað er framundan hjá þér og tólf tónum og eitthvað að lokum?

Höldum áfram að kynna íslenska tónlist, þróum vörumerki okkar áfram inná nýjar brautir og vonandi höldum við áfram að gefa út frammúrskarandi tónlist þó að þar sé við ramman reip að draga þessa daga. Þó við séum farnir að grána í vöngum þá slær hjartað nálægt grasrótinni, unga fólkið í dag er að gera frábæra hluti, það væri gaman að geta miðlað eitthvað af reynslunni og hjálpað til.

Skrifaðu ummæli