ÓGNVÆNLEG MÁLEFNI OG PERSÓNULEG BARÁTTA VIÐ LÍFIÐ OG HEIMINN

0

 

Tónlistarmaðurinn Krummi Björgvinsson hefur komið víða við á viðburðarríkum ferli en hann er svo sannarlega með mörg járn í eldinum! Krummi gerði garðinn frægann með hljómsveitinni Mínus en hann hefur komið að fjölda tónlistarverkefna í gegnum tíðina og má þar t.d nefna Esju og nú Legend.  

Hljómsveitin Legend sendi á dögunum frá sér glænýtt lag og myndband sem ber heitið „Midnight Champion” en það er tekið af væntanlegri plötu sveitarinnar. Eitt stærsta rokk tímarit heims Revolver Magazine frumsýndi myndbandið en platan kemur út 13.Október næstkomandi út um allan heim á vegum Artoffact Records og verður hún fáanleg á tvöföldum vínyl, kassettu og geisladisk.


Nýja Legend platan er að koma út, er hún búin að vera lengi í vinnslu og er hún frábrugðin fyrri plötunni?

Það tók okkur um það bil eitt ár að semja og taka upp plötuna. Við vorum auðvitað byrjaðir að koma með hugmyndir stuttu eftir að Fearless var endurútgefin um allann heim árið 2013 en við vorum á svo miklu ferðalagi að kynna þá plötu að við gátum aldrei tekið nógu langa pásu frá tónleikaferðalögum til að byrja á lagasmíðinni og upptökum. Árið 2106 fór í að einblína eingöngu að nýju plötunni og klára hana. Hún er frábrugðin fyrri plötu að því leytinu til að hljóðheimur og upptökuferli hefur þróast hjá okkur töluvert. Fyrsta platan okkar Fearless var gerð í gamla hljóðverinu hans Dóra og við vorum að finna hljóminn okkar á þeim tíma. Það má segja að við höfum fundið hljóminn okkar á Midnight Champion. Við höfum þróast meira útí post-metal með hljóðgervlum og trommuheilum. Við notuðumst við 7 strengja rafmagnsgítar, niður stilltann 5 strengja bassa og hamrandi live trommur yfir öll lögin á plötunni. Lögin voru samin á píanó, hljóðgervil og gítar. Þetta er framsækin rokk/metal plata með rafrænum hljóðum og forrituðum trommum sem fylgja live trommunum að meira eða minna leyti. Hún er einnig mun dimmari, þyngri og miklu meiri soundscapes. Textar fjalla um ógnvænleg málefni og persónulega baráttu við lífið og heiminn. Þarna er líka hægt að finna skáldskap til að færa fram heimspekilegar vangaveltur.

Hljómsveitin Legend sendir frá sér plötuna „Midnight Champion“ 13. Október.

Hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun og hvernig mundirðu skilgreina tónlist Legend?

Ég sæki innblástur úr ýmsum áttum. Stundum leitar maður sköpunina uppi en í flestum tilvikum kemur hún sjálfkrafa. Þegar ég fæ þörfina, sem er alltaf. Það getur verið tilfinning, veður, göngutúr, fallegt orð eða setning. Tónlistin okkar er þung og dramatísk með vott af dulúð.

Lagið og myndbandið Midnight Champion er ný komið út, um hvað er lagið og hver er hugmyndin á bakvið myndbandið?

Lagið og myndbandið fjallar um hvernig umhverfið spilar inn í drápshvötina okkar. Hvernig samfélag býr til morðingja með öllu þessu hatri, meinfýsi og illgirni í garð hvors annars. Hvernig langvarandi einelti getur brotist út í andstæðu sína þannig að eineltisfórnarlambið verður gerandi. Andúð og fordómar ala af sér uggvænlegar afleiðingar sem hafa ómæld áhrif á líf ótal einstaklinga.   

Við hverju má fólk búast á nýju plötunni og hvað er framundan hjá þér og sveitinni?

Það má búast við plötu sem ég er búinn að vera með í hausnum á mér í meira en fimmtán ár. Það segir þér kannski ekki mikið en það var allt lagt í þessa plötu. Engu sparað varðandi lagasmíði, textagerð, útsetningar, upptökur, hljóðblöndun og plötukápu. Það eru tónleikarferðalög framundan hjá sveitinni að kynna plötuna. Stífar æfingar, sköpunargleði og sjálfviljugur skilningur á hvor öðrum. Njóta og upplifa!

Hvað fær hjarta þitt til að tikka og eitthvað að lokum?

Vitund og skynjun fær mitt hjarta til að tikka. Að lokum vil ég biðja alla um að gera uppreisn gegn meðalmennsku. Ást og friður!

Skrifaðu ummæli