Oft var von en nú er nauðsyn – Guli hanskinn sinnir þörfinni

0

Oft var þörf en nú er nauðsyn. Í upphafi árs eru margir sorgmæddir og þurfa að taka til hendinni í tilverunni sinni. Guli hanskinn sinnir þörfinni og kynnir með stolti Leður nýja plötu með rokksveitinni kattþrifnu Dr. Spock. Platan kemur út á vínyl og á alnetinu 16. febrúar nk.

Dr. Spock eru löngu landsfrægir fyrir hágæða rokktónlist. Sveitin býður enda upp á  allsherjar veislu fyrir auga, eyru og maga. Tónlistin á nýju plötunni bregður ekki út af vananum heldur bætir í. Framsækið furðurokk Dr. Spock tekur á sig nýjan og hraðari blæ, eins konar leðurklædda hraðsækni sem kveður við nýjan en þó kunnuglegan tón.

Lagið Smyglar smjöri sem komið er í spilun vekur spurningar en umfram allt gleði. Veitir ekki af.  Íslenska þjóðin á Dr. Spock svo sannarlega skilin. Hápunktur hins spánýja og leðurklædda raunveruleika verða útgáfutónleikar á Húrra á útgáfudaginn 16. febrúar nk. Dr. Spock er með allra skemmtilegustu tónleikasveitum og verður ekkert sparað og öllu til tjaldað á Húrra þetta kvöld.

Miðasala er hafin á tix.is en þar má einnig tryggja sér vínylinn á sérstökum kostakjörum. Húrra er að vanda opið frá kl. 17 en dagskrá hefst kl. 21:00 og mun Dj Matti sjá um að hita upp gesti þangað til að Dr. Spock stígur á svið.  Stundvísir gestir fá glaðning frá glaðning á barnum. Leðurklæddir gestir fá alveg sérstakan glaðning.

Skrifaðu ummæli