NÝTT LAG FRÁ TÓNLISTARMANNINUM RED BARNETT

0

20150417-214305-2 (1)

Lagið My Island er nýtt lag í spilun frá Red Barnett, en nú er rétt rúmur mánuður síðan frumsmíð Red Barnett „SHINE“ kom út. Lagið er kannski það pólitískasta á plötunni; fjallar um hversu skrýtið það er að við fáum lítið sem ekkert um það að segja þegar ráðamenn afsala þjóðareign til fárra útvaldra – og á vel við í ljósi nýjustu frétta. Í laginu leika Hannes Heimir Friðbjarnarson á trommur, Kjartan „Diddi“ Guðnason á slagverk og Kristín Lárusdóttir á selló ásamt Halla.

Haraldur, sem öllu jafna er kallaður Halli, er þúsundþjalasmiður í tónlist og hin síðari ár hefur hann verið í hringiðu margra af athyglisverðustu tónlistarviðburðum landsins, þótt hans hlutverk hafi á stundum verið talsvert falið. Hann útsetti tónlist Skálmaldar fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, en þeir tónleikar hlutu í síðasta mánuð Íslensku tónlistarverðlaunin sem viðburður ársins. Hann hefur auk þess útsett tónlist Gunnars Þórðarssonar, Pink Floyd og Páls Óskars fyrir Sinfó, svo fátt eitt sé nefnt.

Halli er lærður í klassískum tónsmíðum en er ekki einhamur í tónlist. Snemma vakti hann áhuga margra sem gítarleikari og helsti lagasmiður gruggsveitarinnar goðsagnakenndu Dead Sea Apple, sem freistaði gæfunnar í hinum stóra heimi. Hann er annar söngvara Manna ársins og tók nú nýverið við stöðu bassaleikara í hljómsveitinni Buff. Hann hefur síðustu misserin komið reglulega fram með Dúndurfréttum og Skálmöld sem hljómborðsleikari. Þá hefur Halli unnið með og útsett fyrir fjölda tónlistarmenn bæði íslenska og erlenda.

Platan Shine er frumsmíð Red Barnett og kom út þann 17.apríl sl.

Platan Shine fæst í Lucky Records, Smekkleysu, 12 tónum, Bókabúð Máls og menningar og í Eymundsson-búðum um land allt.

Comments are closed.