NÝTT DREIFINGARFYRIRTÆKI ÍSLENSKRAR JAÐARTÓNLISTAR

0

MYRKFÆLNI er dreifingarfyrirtæki íslenskrar jaðartónlistar, stofnað af Sólveigu Matthildi og Kinnat Sóley.

MYRKFÆLNI leggur sig alla fram við að koma íslenskum tónlistarmönnum sem falla í skugga Atlantshafsins yfir á meginlöndin.

Þrátt fyrir stuðninginn sem íslensku tónlistarfólki er veittur, finnst okkur enn vanta brúnna á milli jaðarsenunnar á Íslandi og jaðarsenunnar úti í heimi. Til þess að styrkja framsókn íslensku jaðartónlistarsenunnar stendur MYRKFÆLNI fyrir útgáfu samnefnds tónlistarblaðs á ensku, sem og dreifingu um allan heim í þeim tilgangi að kynna jaðartónlistarsenuna á Íslandi.

Vef- og samfélagsmiðlar hafa ákveðin yfirburð í dreifingu og kynningu á tónlist en prentmiðlar hafa enn mikilvægi í jaðartónlistarsenum um allan heim, meðal annars í framleiðslu tónleikaplakata, dreifiblöðum (e. flyer) og heimatilbúnum aðdáendatímarita (e. fan zine). Tímaritið MYRKFÆLNI starfar því fyrst og fremst sem prentmiðill en teygir anga sína einnig til vefsins.

Fyrsta tölublað MYRKFÆLNI kemur út í 1000 eintökum en af þeim verða 250 eintökum dreift til 50 borga um allan heim í gegnum tengslanet okkar. Einnig verður tímaritið til sölu á Bandcamp síðu MYRKFÆLNI og á tónleikum og tónlistarhátíðum víðs vegar um heiminn.

Megin áherslan í MYRKFÆLNI 1 verður umfjöllun um íslensku jaðarútgáfufyrirtækin í samstarfi við okkur. Þar verða almennar upplýsingar um fyrirtækin, nýjar, komandi og jafnvel eldri útgáfur fyrirtækjanna og fleiri kynningarefni. Í tímaritinu verða einnig viðtöl við listamenn, sögur frá tónlistarmönnum á tónleikaferðalögum, umsagnir um plötur, tónleika, tónlistarhátíðir og almennar vangaveltur um tónlist. Með hverju tölublaði verður gerð safnplata með nýrri íslenskri jaðartónlist sem tengist efni tölublaðsins.

Sólveig Matthildur er tónlistarkona (Kælan Mikla, Sólveig Matthildur) og meðeigandi jaðarútgáfu- og atburðafyrirtækisins Hið myrka man. Eftir að hafa verið hluti af íslensku tónlistarsenunni bæði sem tónlistarkona og atburðastjórnandi hefur hún fundið fyrir þörfinni fyrir tengingu á milli íslensku jaðartónlistarsenunnar hérlendis og erlendis. Kinnat Sóley er grafískur hönnuður, nátengd tónlistarsenunni í gegnum hönnun fyrir hljómveitir og útgáfufyrirtæki, ásamt því að fara á tónleikaferðalög og sjá um markaðsetningu og sölu af tónlistartengdum varningi.

Til þess að fjármagna fyrstu útgáfu MYRKFÆLNI höfum við ákveðið að stofna Karolinafund síðu. Allur ágóði þessarar söfnunar rennur beint til prent- og dreifingarkostnaðar á MYRKFÆLNI 1 og í staðin fá styrktaraðilar að forpanta eintak af tímaritinu og auglýsa í blaðinu.

Skrifaðu ummæli