NYKUR MEÐ ÚTGÁFUTÓNLEIKA Á NOKKRUM VEL VÖLDUM STÖÐUM

0

Nykur

Rokksveitin Nykur er nýbúin að gefa út aðra plötu sína, Nykur II og ætlar að halda nokkra útgáfutónleika í kjölfarið. Fyrstu tónleikarnir verða á Gauknum, Reykjavík – fimmtudagskvöldið 31. mars n.k. og hefjast um kl. 22.00.

Nykur varð til sumarið 2013 og gaf fljótt út sína fyrstu plötu það ár, samnefnda sveitinni. Frumraunin fékk prýðis viðtökur og var líka gerður góður rómur að tónleikum hennar í kjölfarið. Bandið spilar kraftmikið sígilt rokk, frumsamin lög með grimmum gítarriffum, ofin saman við ágengar laglínur sem innihalda bitastæða texta á okkar ylhýra.

Eins og áður segir ætlar sveitin að halda fleiri útgáfutónleika og verður Græni hatturinn á Akureyri heimsóttur daginn eftir  föstudagskvöldið 1. apríl og Rauðka, Siglufirði laugardagskvöldið 2. apríl.

Nykur plötucover

Hljómsveitina skipa eintómir snillingar en vel valinn maður er í hverju horni og má þar nefna Davíð Þór Hlinason (Dos Pilas) söngur og gítar, Guðmundur Jónsson (Sálin hans Jóns míns) gítar og bakraddir, Kristján B. Heiðarsson (Dark Harvest) trommur og bakraddir og Jón Svanur Sveinsson (Númer Núll) bassi og bakraddir.

Til gamans má svo geta þess að Nykur verður á Eistnaflugi, Neskaupstað 6.-9. júlí.

Hljómsveitin leggur allt undir á tónleikum sínum og má því búast við hörku stuði og tónleikagestir ættu svo sannarlega ekki verða fyrir vonbrigðum, enda ein flottasta rokkhljómsveit Íslands hér á ferðinni!

Hægt er að nálgast miða á Gauknum við hurð, Græna Hattinum á Akureyri, Eymundsson og á Miði.is

Comments are closed.