NÝ PLATA ÁSGEIRS KOMIN ÚT Á HEIMSVÍSU

0

Tónlistarmaðurinn Ásgeir sendir frá sér í dag sína aðra breiðskífu, Afterglow. Ásgeir og hans teymi sjá sjálf um að gefa plötuna út hér heima en Records Records sér um dreifingu. Plötunnar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu víða um heim en tæp fimm ár eru liðin síðan hans fyrsta plata Dýrð í dauðaþögn kom út hér á landi.

Ásgeir er staddur í Frakklandi við kynningu á plötunni og heldur þaðan til Danmerkur þar sem tónleikaferð hans um Evrópu hefst í Árósum og Kaupmannahöfn um helgina. Uppselt er á nær alla tónleika Ásgeirs í Evrópu í maí. Ásgeir tilkynnti á dögunum að hann muni spila í Roundhouse í London þann 16. október næstkomandi og Bataclan í París þann 12. október. Ásgeir kemur einnig fram á sérstökum tónleikum í Eldborg í Hörpu og í Hofi á Akureyri á Iceland Airwaves hátíðinni í nóvember.

Afterglow ber öll einkenni listamanns sem hefur þróast og dafnað og tekist á við hlutverk sitt sem alþjóðlegur listamaður en eins og alþjóð veit er Ásgeir frá litla þorpinu Laugarbakka og hafði varla stigið fæti til útlanda þegar hann gaf út „Dýrð í dauðaþögn“ haustið 2012. Það átti eftir að breytast og að sögn listamannsins hefur hann varla lengur yfirsýn yfir þau lönd sem hann hefur heimsótt. Áhrif heimshornaflakksins eru auðheyranleg á „Afterglow“ en þar gætir áhrifa frá tónlistarmönnum eins og James Blake og Bon Iver í bland við R&B tónlist og jafnvel sálar- og kirkjutónlist.

Á plötunni hverfur Ásgeir frá daðri sínu við þjóðlagatónlist sem var einkennandi fyrir „Dýrð í dauðaþögn“ og stingur sér í staðinn á bólakaf í melankólíska raftónlist í sínu hreinasta formi. Enn og aftur vinnur Ásgeir með föður sínum Einari Georgi Einarssyni sem á heiðurinn að nokkrum textum á plötunni en að auki koma þeir Þorsteinn Einarsson og Júlíus Aðalsteinn Róbertsson að textasmíði. Sem fyrr vinnur upptökustjórinn Guðmundur Kristinn Jónsson náið með Ásgeiri við gerð plötunnar.

https://www.asgeirmusic.com

Instagram

Twitter

Skrifaðu ummæli