Notaleg jólastemning og jazz tónar

0

Í kvöld fimmtudaginn 13. desember verða notalegir jólatónleikar með jazz ívafi haldnir í Kexverksmiðjunni í kjallara Kex Hostels. Þar munu Inga Birna Friðjónsdóttir og Hildur Helga Kristinsdóttir koma fram ásamt þriggja manna hljómsveit en hana skipa Ásgeir Ásgeirsson á gítar, Ingvi Rafn Björgvinsson bassaleikari og Óskar Kjartansson á trommu

Inga Birna hefur verið við nám í Complete Vocal Stúdíó á Íslandi og hefur síðan vorið 2015 hægt og rólega fetað sig áfram í söng og lagasmíðum en á næsta ári er væntanleg hennar fyrsta plata. Inga Birna nýtur sín ekki síður í tónleikahaldi en hún hélt sína eigin jólatónleika á Sólon árið 2017 í tilefni 30 ára afmælis síns. Heppnuðust þeir tónleikar með eindæmum vel og því tilvalið að endurtaka leikinn í ár og leyfa fleirum að njóta með í þetta sinn.

Hildur Helga er uppalin í Vesturbæ Reykjavíkur og leiðir þeirra Ingu lágu saman í námi hjá Complete Vocal Stúdíó á Íslandi. Hildur hefur enn fremur lokið VI. stigi í jazzsöng frá Tónlistarskóla FÍH og lagði stund á klassískan píanóleik í Tónlistarskólanum í Reykjavík og Tónmenntaskóla Reykjavíkur á sínum yngri árum. Hún hefur alltaf verið músíkölsk og m.a. haldið nokkra jazztónleika við góðar undirtektir.

Þær stöllur ásamt hljómsveit hlakka til að leyfa gestum og gangandi að njóta notalegrar jólastemningar með sér.

Tónleikarnir hefjast kl 21:00 og er miðaverð aðeins 2.500kr við hurð.

Skrifaðu ummæli