NORÐANPAUNK ER FJÖLSKYLDUSAMKOMA ÍSLENSKT JAÐARSAMFÉLAG

0
world narcosis ljósmynd ónn dagur bjarnason

World Narcosis

Norðanpaunk er þriggja daga tónlistarhátíð sem haldin verður í þriðja skiptið í ár um Verslunarmannahelgina á Laugarbakka, smábæ í um það bil tveggja tíma fjarlægð norður af Reykjavík. Á Norðanpaunki kemur fram rjóminn af íslenskri grasrót sem ýmist berar sálu sína eða hellir úr skálum reiði sinnar í gegnum míkrafóna og háværa magnara. Það má sjá sótsvartan þungamálm á borð við MISÞYRMINGU og SINMARA, hljóðgervla-drifna óbylgju KÆLUNNAR MIKLU og ANTIMONY, partírokk frá CHURCHHOUSE CREEPERS og GLORYRIDE, ákaft þungapönk DAUÐYFLANNA og FORGARÐS HELVÍTIS og níðþungt dauðarokk – URÐUN verandi fulltrúar gamla skólans en SEVERED þess nýja – svo örfá dæmi séu tekin.

norðanpaunk

Einnig munu nokkrar erlendar hljómsveitir heimsækja landið, þar ber helst að nefna MARTYRDÖD – sænska svartkröst hljómsveit hverrar frægðarsól hefur risið hærra og hraðar með hverri plötunni undanfarin ár og GNAW THEIR TONGUES, sem spilar afar dimma og skítuga ambient-hávaðatónlist undir sterkum svartmálms áhrifum.

Stór kostur við staðsetningu hátíðarinnar er lítil fjarlægð milli tónleikastaðar og tjaldsvæðis, sem þýðir að það er yfirleitt lítið mál að skreppa frá til að grípa sér bita og bjór án þess að þurfa að missa af nýju uppáhalds hljómsveitinni sinni – en þær gætu orðið þónokkrar.

Döpur á Norðanpaunk 2015

Hljómsveitin Döpur á Norðanpaunk 2015

Á bakvið hátíðina er nokkuð stór – og æ stækkandi – hópur líkt-þenkjandi fólks sem á það eitt sameiginlegt að hafa verið viðriðið hinar ýmsustu jaðarsenur, hvort sem er á sviði tónlistar, myndlistar eða aktívisma og DIY (gerðuþaðsjálfur)-menningu almennt.

NORÐANPAUNK er samvinnuverkefni milli allra sem að hátíðinni koma. Það á við um tónleikahaldara jafnt sem hljómsveitir – og aðra gesti engu síður. Það felur meðal annars í sér að virkja gesti hátíðarinnar sem þátttakendur í listsköpun jafnt sem umgengni og frágangi – og öllum þeim sem hafa hugmyndir um hvernig megi breyta og bæta hátíðina – eða vilja taka þátt í henni að einu eða öðru leyti er tekið með opnum örmum og hlýjum hug.

norðanpaunk 3

Við erum saman í þessu. Því fleiri sem leggja hönd á plóg, þeim mun betur gengur þetta allt saman fyrir sig. Miðað við fyrri ár þá bendir allt til þess að NORÐANPAUNK 2016 verði einhver allra besta fjölskyldusamkoma í manna minnum.

Upphitun fyrir hátíðina verður haldin á Gauknum fimmtudaginn 28. júlí þar sem fram koma MARTYRDÖD, COLD CELL, EXTENDED SUICIDE OG NORN. 500 krónur kostar inn, en tekið verður á móti frjálsum framlögum til styrktar áframhalds hátíðarinnar.

http://www.nordanpaunk.org/

Comments are closed.