MYNDLISTARSÝNING OG TÓNLEIKAR UM HVÍTASUNNUHELGINA Í HAVARÍ

0

Það verður sitthvað um að vera í Havarí um hvítasunnuna. Listahátíðin Sumar í Havarí verður sett laugardaginn 3. júní með því að opna myndlistarsýningu með verkum Söru Riel. Í kjölfarið stígur President Bongo á svið og leikur fyrir gesti. Sunnudaginn 4. júní ætlar svo hljómsveitin DIMMA að heiðra okkur með nærveru sinni.

Dimma

Dimma hefur skipað sér í flokk allra vinsælustu hljómsveita landsins á síðustu árum. Sveitin hefur komið fram á hundruðum tónleika út um allt land og gefið út fjölmargar plötur og mynddiska. Tónleikar Dimmu hafa verið sendir út í sjónvarpi og útvarpi og sveitin hefur verið tilnefnd til fjölda verðlauna. DIMMA vann „Flytjandi ársins” á Hlustendaverðlaununum 2016 og hlaut Krókinn – sem er sérstök viðurkenning RÚV fyrir lifandi flutning á árinu 2014.

Sara Riel nam myndlist í Reykjavík og í Berlín og vinnur á mörkum veggjalistar og hefðbundinnar myndlistar með viðfangsefni vísinda, náttúru og samfélagslegra málefna. Hún hefur sýnt í öllum helstu galleríum og sýningarsölum hér á landi og tekið þátt í og sett upp eigin sýningar víða um heim, í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum. Það er gríðarlegur fengur að fá verk þessara mikilsvirtu listakonu í Havarí en sýningin stendur þangað til í september.

President Bongo

President Bongo eða Forsetinn er einn fremsti og afkastamesti tilraunalistamaður þjóðarinnar og vinnur á mörkum tónlistar, hönnunar, ljósmyndunar og frjálsra sviðslita. Stebbi er einn af stofnmeðlimum Gus Gus og lék með sveitinni um víða veröld allt frá því á tíunda áratug síðustu aldar þar til fyrir skemmstu er hann sagði skilið við sveitina til að einbeita sér að eigin verkum og sjómennsku.

Miðasala á viðburðina er á tix.is og við dyrnar. Nánari upplýsingar á havari.is.

Skrifaðu ummæli