„MYNDBANDIÐ ER ÓÐUR TIL RAVE TÍMABILSINS”

0

Ljósmynd: Einar Egilsson.

Hljómsveitin Blissful skaut nýlega tónlistarmyndband á Íslandi við lagið „Make It Better.” Haraldur Ari Stefánsson fer með aðalhlutverkið á móti Svölu í þessu draumkennda myndbandi undir leikstjórn Einars.

Svala og Einar ólust upp í reif senunni á Íslandi og er myndbandið óður til þessa stórkostlega tíma. Blissful mun spila sína fyrstu tónleika á Iceland Airwaves 2017.


Um hvað er „Make It Better” myndbandið og er það búið að vera lengi í vinnslu?

Við skutum myndbandið á Íslandi í sumar og fengum vin okkar og frábæran leikara Harald Ara Stefánsson til að leika í þessari litlu sögu.   Myndbandið er óður til reif tímabilsins sem við vorum bæði partur af þegar við vorum unglingar.  Þetta er smá ástarsaga… Ást á tónlistina, dansinn og lífsstílinn.  Þetta voru 2 dagar í tökum og síðan erum við búin að vera að klippa hérna í LA á milli þess að semja nýja tónlist.

Hvaðan sækið þið innblástur fyrir ykkar tónlistarsköpun og hvað teljið þið að hafi verið ykkar stærsti áhrifavaldur í gegnum tíðina?  

Vá mjög erfið spurning því það er svo margt.  Við sækjum innblástur úr bíómyndum og tónlist jafnmikið.  Prince, Prodigy, Dr.Dre, Blade Runner, Dune, Michael Jackson, Vangelis og Daft Punk. Bara þetta klassíska. En við gætum haldið áfram að telja upp bíómyndir og tónlistarmenn sem hafa haft gríðarleg áhrif á okkur.  En þegar við semjum okkar tónlist og sköpum okkar listræna heim þá kemur þetta bara ómeðvitað og gerist mjög náttúrulega og ýtum við hvort öðru að reyna að skapa eitthvað nýtt og sem er okkar.

Ljósmynd: Einar Egilsson.

Myndbandið er vægast sagt glæsilegt, hvað var aðdragandinn langur að sjálfum tökunum og er erfitt að vinna svona metnaðarfullt myndband?

Takk ! Aðdragandinn var mjög stuttur. Skrifuðum stutt handrit og fengum Hara í lið við okkur og annað frábært fólk til að hjálpa. Myndbandagerð reynir alltaf á eins og öll kvikmyndagerð. Aðallega reynir á mann sjálfan svo maður gangi sáttur frá tökustað og inní klippiherbergið. Alltaf jafn krefjandi og skemmtilegt.

Getið þið lýst laginu og myndbandinu í einni setningu:

Softcore vs. Hardcore.

Þið komið fram á Iceland Airwaves í byrjun Nóvember, við hverju má fólk búast?

Já við erum mega spennt að frumflytja live showið okkar loksins. Bara upplifun. Upplyftingu.

Eitthvað að lokum?  

Já elskið friðinn.

Blissfulcreative.com

Spotify

Itunes

Instagram

Skrifaðu ummæli