„MYNDAVÉLIN VARÐ STRAX STÓR HLUTI AF MÉR“

0

Ljósmynd: Ásgeir Pétursson.

Þórsteinn Sigurðsson er einn helsti ljósmyndari landsins en ljósmyndir hans hafa vakið verðskuldaða athygli að undanförnu! Þórsteinn gengur iðulega undir nafninu Xdeathrow en fyrir skömmu hélt hann sýninguna Juvenile Bliss sem hefur verið að fá vægast sagt frábærar viðtökur.

Þórsteinn segir að ljósmyndaáhuginn hafi byrjað í kringum 2005 – 2006 út frá vinnu sem hann fékk hjá Hans Petersen. Einnig var kappinn í mjög skapandi umhverfi á þessum árum en flestir vinir hans voru að teikna mikið og stunduðu graffiti.


Hvenær byrjaðir þú að hafa áhuga á ljósmyndun og hvernig kom það til?

Ég byrjaði að mynda í kringum 2005-2006. Ég sótti um vinnu hjá Hans Petersen og fékk vinnu þar í kjölfarið við að selja filmur og myndavélar. Í því umhverfi varð ég forvitinn um ljósmyndun og fór að mynda mikið á einnota vélar. Ég var einnig í mjög skapandi umhverfi á þessum árum. Flestir vinir mínir voru að teikna mikið á þessum tíma og stunduðu graffiti. Ég fann mig strax með myndavélinni (líklega vegna þess að ég var svo ótrúlega ó sleipur með brúsann).  Myndavélin varð strax stór hluti af mér. Ljósmyndun varð þráhyggja mjög fljótt.

Hver var þín fyrsta myndavél?

Fyrsta myndavélin sem ég keypti mér var Canon 350D, 8MP vél með 50mm plastlinsu.

Hvað telur þú að góð ljósmynd þurfi að innihalda og hvaðan sækir þú innblástur í þína listsköpun?

Ég er miklu meira að horfa á hvað er bak við myndirnar heldur en bara einhverja eina mynd. Ég er hrifinn af listamönnum sem vinna eftir konseptum og fylgja því eftir á faglegan hátt. Það er akkúrat það sem er erfitt. Það er frekar auðvelt að fara út og taka eina flotta mynd, það geta allir gert það. En að vinna heilsteyptar seríur og eða verkefni gefur þessu meira gildi. Það tekur langan tíma að komast þangað og er eitthvað sem ég er alltaf að vinna að hjá sjálfum mér og horfi mikið á hjá öðrum listamönnum. En annars þarf góð portrait t.d. að hafa góða myndbyggingu og sál sama hvernig það er útskýrt. En svo er þetta líka bara smekksatriði eins og allt annað.

Á dögunum hélst þú ljósmyndasýninguna Juvenile Bliss, var hún lengi í vinnslu og hvernig var að setja sig inn í heim þeirra sem príða myndirnar?

Juvenile Bliss er samsafn af myndum frá 2006-2017. Blanda af tveimur kynslóðum sem eiga margt sameiginlegt. Þá aðallega það að báðir hóparnir lifa í „jaðar.“ Sýningin sjálf var um það bil mánuð í vinnslu en það tók meira en áratug að vinna þetta verkefni. Juvenile Bliss er ongoing project og eitthvað sem ég þarf ekkert að hugsa mikið um vegna þess að þetta er mjög mikið bara framlenging af sjálfum mér. Þetta er mjög áreynslulaust og myndirnar safnast bara upp í rólegheitum. Þurfti aðeins að vinna meira fyrir seinni hópnum vegna aldurs þeirra en annars var þetta allt bara mjög smooth. Ég hlakka til að kynnast þriðju kynslóð Juvenile Bliss.

Þú varst að leikstýra þínu fyrsta tónlistarmyndbandi, er það eitthvað sem þú ætlar að gera meira af?

Já, Það var mjög mikill sigur fyrir mig persónulega að leikstýra tónlistarmyndbandi og ég lærði mjög mikið af því. Leikstjórn á svona löguðu á mjög mikið skylt við ljósmyndun en á sama tíma allt annað dæmi. Líka frábært að vinna með Les Fréres Stefson og Young Karin og öllum þeim sem komu að verkefninu.

Ég hef reyndar aðeins unnið með vídeó síðustu ár og mun án efa halda því áfram, hreyfimyndir er skemmtilegur miðill. Heimildarmyndir og vídeóverk o.fl. er eitthvað sem ég hugsa mikið um og skoða.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Ég er að gera fjögur plötucover, með fjórum mismunandi og ólíkum tónlistarmönnum. Allt mjög spennandi og skemmtileg verkefni. Er líka að byggja skúlptúr í vinnustofu hjá Hrafnkeli Sigurðsyni myndlistarmanni. Svo eru Xdeathrow / Bobbi Breiðholt stuttermabolir væntanlegir næstu vikur.

Hér má sjá myndbandið eftir Þórstein Sigurðsson/Xdeathrow:

Xdeathrow.com

Skrifaðu ummæli