MYLUR OG DÁLEIÐIR Á MEÐAN ÚR HENNI VELLUR SVALLEIKINN

0

Önnur plata Godchilla, Hypnopolis, er komin út á vegum plötuútgáfunnar Why Not? Og er hún fáanleg stafrænt og á tólf tommu vínylplötu en plötunni fylgir einnig veglegt plakat. Godchilla tekst einhvern veginn að hræra saman áhrifum úr ólíklegustu áttum í magnaðan seið sýrublandaðrar brimbrettadómsdagseðju. Hypnopolis mylur bæði og dáleiðir, meðan úr henni vellur svalleikinn.

Myndbönd við fjögur af tíu lögum plötunnar hafa komið út að undanförnu, unnin af ólíkum myndlistarmönnum, sem gefa má gaum á Godchilla.space/videos  Öll lög plötunnar munu að lokum eiga myndbandshliðstæðu og þó ekki öll muni rata á vefinn, munu þau öll koma út saman á myndbandsspólu síðar.

Ljósmynd: Christopher Cleland.

Hypnopolis er eins konar minnisvarði, svona „grotnandi hnitakerfi grárra ferhyrndra turna, sem í röðum mynda svipbrigðalausa borg er teygir sig endalaust í allar áttir” minnisvarði. Borg í hryllilegri hliðstæðri veröld þar sem í einhverju skúmaskoti eru allir ógeðfelldu og skrýtnu og mögnuðu og dularfullu hlutirnir sem fólki dreymir holdgervðir. Borg þar sem úthverfa-smáglæpa-dúkkur leita að næsta skotmarki, fólk dýfir sér til sunds í stafrænum stöðuvötnum, og þar sem maður gæti skellt sér á dástofu í stað sólbaðsstofu.

Hypnopolis er borg þar sem maður með plastblæti sprautar sig með bráðnu plasti í glæstri von um að verða einn daginn gína, þar sem fimmvíðir hlutir og óskiljanlega flöt kristalbrot grípa athygli vegfarenda, þar sem skúrkar í snákaskinnspeysum hafa tekið upp á því að skella sér á brimbretti á bráðnum gullöldum, og þar sem blóðþorsti skriðdýra-mótórhjólagengis kemur í veg fyrir að það hægi nokkurn tímann á sér. Tjörulyktandi útúrgubbaði drauga- og óhljóðagangurinn sem einkennir hljóðheim Godchilla hefur aldrei reynst jafn fallegur eða fullmótaður en á Hypnopolis

Why not? plötur! er nýstofnuð Reykvísk plötuútgáfa. Why not? er framlenging á sjálfi Ægis Sindra, þungapönkstrymbils (úr hljómsveitunum World Narcosis, Dead Herring og Logn, svo dæmi séu tekin), sem hefur staðið í plötuútgáfu fyrir eigin hljómsveitir um nokkurt skeið – og með nokkrar slíkar á leiðinni ákvað hann að teygja sig aðeins lengra og aðstoða nokkrar af sínum uppáhöldum úr íslensku neðanjarðarsenunni.

Flestar plötur Why not? munu koma út í vönduðum vínylútgáfum í þrjúhundruð eintökum. Why not? er með nokkrar útgáfur væntanlegar á næstu mánuðum, sem spanna ansi breitt svið, en dæmi af því sem koma skal má heyra hér

Útgáfutónleikar Godchilla fara fram á Ingólfstræti 20 fimmtudaginn 12. Október kl 19:00. Facebook viðburðinn má sjá hér

Hér fyrir neðan má hlýða á plötuna í heild sinni:

Skrifaðu ummæli