Í músík Anda ganga eldri hefðir í endurnýjun lífdaga

0

Andi semur og framleiðir danstónlist sem er undir áhrifum hinna ýmsu stefna og strauma raftónlistar. Ber helst að nefna ítalskt diskó eða „Italo Disco“, sem náði hápunkti sínum um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Í músík Anda ganga eldri hefðir í endurnýjun lífdaga – hún í senn framsækin og rómantísk, blanda sem ef til vill mætti kalla Íslandó diskó. 

Ljósmyndin sem prýðir umslag plötunnar var tekin í Sundhöll Hafnarfjarðar af Sigurði Möller Sívertsen og Heimi Gesti Valdimarssyni. Viktor Weisshapel Vilhjálmsson sá um grafík og uppsetningu.

Þann 11. Júlí kemur út önnur breiðskífa Anda og heitir hún „Allt í einu“. Lögin eru átta talsins. Platan kemur út í takmörkuðu upplagi eða í aðeins 500 eintökum á 12” vínyl. Í kjölfarið mun svo plötunni verða dreift stafrænt á allar helstu streymisveitur. Allt í einu kemur út á vegum hins nýstofnaða listahóps Skýlið. Andi hefur undanfarið getið sér gott orð í grasrót íslensk raftónlistarlífs og vakti mikla lukku fyrr á árinu á tónlistarhátíðinni Háskar sem haldin var í Iðnó.

Útgáfunni verður svo fagnað í versluninni Lucky Records föstudaginn 13 júlí. Fögnuðurinn mun standa yfir frá kl 16:00 – 18:00 og platan verður að sjálfsögðu á sérstöku tilboðsverði ásamt léttum veigum og uppákomum.

Andi var að senda frá sér brakandi ferskt lag af komandi plötu en það ber heitið „Á Döfinni.“ Endilega blastið þessu og leyfið ljúfum melódískum diskó andanum að fylla rýmið.

Skrifaðu ummæli