MUNURINN Á SÖNGTEXTUM OG LJÓÐUM ER ENGINN OG HANN ER ALGJÖR

0

Benni Hemm Hemm. Ljósmynd/Ómar Örn Smith.

Tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm eða Benedikt H. Hermannsson eins og hann heitir réttu nafni  er margt til lista lagt en hann hefur sent frá sér fjölmargar plötur og komið víða við á viðburðarríkum tónlistarferli. Benni er ekki við eina fjölina kenndur en fyrir skömmu gaf hann út sína fyrstu ljóðabók Skordýr sem er einnig hljómplata.

Albumm.is náði tali af kappanum og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum um bókina.

Hvernig kom það til að þú skelltir í ljóðabók?

Ég var að leita að útgáfuformi fyrir lög sem ég var að vinna í og áttaði mig allt í einu á því að það sem ég var að vinna í var ekki plata heldur ljóðabók. Það kom mér sjálfum örugglega mest á óvart því það hefur aldrei hvarlað að mér að gefa út ljóðabók. Ég var bara allt í einu farinn að skrifa ljóð – og ljóð eiga heima í ljóðabók. Ég þurfti bara að hlýða þessu.

„Ég er nýgræðingur í ljóðunum og mér finnst gaman að vera á nýju sviði, kunna ekki reglurnar og vita ekki hvernig á að gera hlutina.“ – Benni Hemm Hemm

Er bókin búin að vera lengi í vinnslu?

Það eru sirka tíu mánuðir síðan ég lenti í þessari opinberun, að ég væri að skrifa ljóðabók. Þá gat ég farið að vinna markvisst með það. Fyrir þann tíma var ég búinn að skrifa fullt af þessu. Ég veit ekki hver heildartíminn er. Kannski tvö ár. Annars er tímaskynið ekki mjög sterkt hjá mér svo ég hef ekki hugmynd um þetta. Geri mitt besta bara til að giska á þetta.

Um hvað eru ljóðin og hvaðan færðu innblástur fyrir þeim?

Flest þessara ljóða verða til án þess að ég viti algjörlega hvað er í gangi eða um hvað þau eru. Þau verða til með minni hjálp en ég skil þau ekki fyrr en þau eru búin að vera til í svolítinn tíma. Þannig að þau eiga sitt sjálfstæða líf sem ég get reynt að skilja en mér finnst ég ekki eiga þau neitt sérstaklega mikið.

Ljósmynd/Ómar Örn Smith

Hver er munurinn á að semja söngtexta og að semja ljóð?

Þetta er góð spurning. Munurinn er enginn og hann er algjör. Veit ekki hvar línan er þarna á milli. Sumt er hægt að syngja, annað ekki. Sumt er ekki hægt að syngja ekki. Þetta er svo skrítið. Það eru textar sem eru músíkalskir sem er engan veginn hægt að syngja. Þetta svæði er nýtt fyrir mér og mér finnst það mjög spennandi, en ég er enginn sérfræðingur í þessu. Ég er nýgræðingur í ljóðunum og mér finnst gaman að vera á nýju sviði, kunna ekki reglurnar og vita ekki hvernig á að gera hlutina.

Hér fyrir neðan má hlusta á plötuna Skordýr í heild sinni

 

Comments are closed.