MUNÚÐARFULLT RAFPOPP OG SAMSETTIR SVUNTUÞEYSAR Á KEX

0

Á Sæmundi í Sparifötunum á KEX Hostel í kvöld, 12. apríl, verður boðið uppá fríkeypis tónleika með nokkrum af áhugaverðari raftónlistaratriðum Reykjavíkur.

Púlsvídd er nýtt verkefni þeirra Gunnars Torfa Jóhannssonar og Davíðs Hólm Júlíussonar. Báðir hafa þeir krukkað sína raftónlist til fjölda ára, Gunnar sem xYlic og Davíð sem DAVEETH.

Púlsvídd spilar sýrukennd og hægfljótandi teknó sem þeir  félagarnir framkalla með samsettum svuntuþeysar (e. Modular Synthesizer).

 

PASHN er nýtt íslenskt rafpoppdúó sem stofnað var af þeim Ragnheiði Veigarsdóttur og Ásu Bjartmarz fyrir nokkru og hafa þær verið að vekja umtal fyrir metnaðarfulla tónlist sína.   PASHN tóku þátt í Músíktilraunum við gott orðspor nýverið.    Hjálparsveinn Ásu og Ragnheiðar er Guðni Einarsson sem þekktur er fyrir störf sín í Hljóðheimum og með hljómsveitum á borð við EAST OF MY YOUTH og TRPTYCH.

Án er eins manns verkefni hins knáa Elvars Smára Júlíussonar. Elvar stundar nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands og hefur verið að gefa út tónlist undir nafninu Án undanfarið.  Í byrjun ársins sendi hann frá sér sína fyrstu skífu og er það þröngskífan „Ljóstillífun“ sem gefin er út af Möller Records. Án sækir innblástur í djass- og síðrokk sem og í íslensku raftónlistarsenuna sem er í miklum blóma.

Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 20:00 og er frítt inn.

 

Skrifaðu ummæli