MÚLINN JAZZKLÚBBUR OG HLJÓMSVEITIN STOLIN STEF MEÐ TÓNLEIKA Í HÖRPU Í KVÖLD 9. NÓVEMBER

0
mulinn
Á næstu tónleikum haustdagskrár Múlans á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu, miðvikudaginn 9. nóvember, kemur fram hljómsveit Steingríms Teague, Stolin stef. Steingrímur er einn söngvara og textasmiða Moses Hightower, en samhliða því hefur hann átt sér langan og þvældan feril sem hljómborðsleikari með tónlistarfólki úr óteljandi áttum. Á vegferðinni hefur hann safnað í sarpinn uppáhaldslögum, og hér syngur hann og spilar lög úr fórum Dusty Springfield, Blossom Dearie, the Velvet Underground, Jóns Múla, Tómasar R. Einarssonar og the Dirty Projectors, svo fáir einir séu nefndir. Samferðarmenn hans á tónleikunum eru þeir Andri Ólafsson, Magnús Trygvason Eliassen og Guðmundur Pétursson, sem allir eiga það sameiginlegt að standa með annan fótinn í djassheimum og hinn í beljandi flaumi dægurtónlistarinnar.
 
Spennandi haustdagskrá Jazzklúbbsins Múlans heldur síðan áfram með til 7. desember sem fram fara miðvikudagskvöld á Björtuloftum, Hörpu. Flestir af helstu jazzleikurum þjóðarinnar ásamt nokkrum erlendum gestum koma fram í dagskrá haustsins, m.a. Tómas R Einarsson, Sigurður Flosason, Einar Scheving, Þorgrímur Jónsson, Ari Bragi Kárason, Kjartan Valdemarsson, Haukur Gröndal og Jóel Pálsson ásamt Peter Tinning og bandarísku goðsagnarinnar, bassaleikaranum Chuck Israels.

Múlinn er á sínu 20. starfsári en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg og Tónlistarsjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu.

Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu og er miðaverð kr. 2000, 1000 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu, harpa.is og tix.is

Comments are closed.