MUGISON, DIKTA OG EMMSJÉ GAUTI Á HAMMONDHÁTÍÐ 2017

0

Hammondhátíð Djúpavogs fer fram dagana 20.-23. apríl næstkomandi. Þetta er í 12. sinn sem hátíðin fer fram en hún var fyrst haldin árið 2006. Hátíðinni hefur síðan vaxið jafnt og þétt fiskur um hrygg og er nú orðin ein af elstu og stærstu tónlistarhátíðum sem fram fara á landsbyggðinni.

Meðal þeirra sem fram koma á hátíðinni í ár eru Emmsjé Gauti, Dikta, Mugison, Langi Seli & skugganir og Föstudagslögin. Tónleikar fimmtudags, föstudags og laugardags fara fram á Hótel Framtíð en lokatónleikarnir á sunnudeginum eru haldnir í Djúpavogskirkju. Dagskrána í heild má sjá hér að neðan.

Markmið Hammondhátíðar er að heiðra þetta magnaða hljóðfæri, Hammondorgelið, en eftir því sem aðstandendur komast næst er þetta eina hátíðin í heiminum sem tileinkuð er þessu hljóðfæri.

Listinn yfir þá tónlistarmenn og hljómsveitir sem komið hafa fram á hátíðinni í gegnum tíðina er orðinn langur og glæsilegur en síðustu ár hafa m.a. Hjálmar, Baggalútur, Megas, Magnús & Jóhann, Dúndurfréttir, Todmobile, Mono Town, Nýdönsk, Agent Fresco, Jónas Sig. & Ritvélar Framtíðarinnar, Bubbi & Dimma, Stuðmenn, Amabadama, Prins Póló og Valdimar komið fram.

Fjölmargir aðrir viðburðir fara fram á Djúpavogi þessa helgi en utandagskrá í heild sinni verður auglýst þegar nær dregur.

Miðasala á Hammondhátíð er hafin á www.midi.is.

Frekari upplýsingar um Hammondhátíð má finna á heimasíðu hátíðarinnar og Facebooksíðu hátíðarinnar.

Skrifaðu ummæli