MUCK SEMUR VIÐ PROSTETHIC RECORDS

0

379218_10151499784602792_1372945306_n

Muck semur við Prostethic Records. Stærsta frétt sem að íslenska þungarokkssenan hefur heyrt í mannaminnum.


Allt frá stofnun óhljóðaindiepönksveitarinar Muck hafa meðlimir hennar verið þekktir fyrir óþrjótandi elju- og  vinnusemi sína og hafa þeir spilað tónleika og tekið þátt í listgjörningum af slíku kappi að halda mætti að þeir væru á botnlausum listamannslaunum. Stanslaust spilerí þeirra hefur oft jaðrað við markaðsofmettun og hafa þeir einnig stundað útlandið grimmt í óseðjandi hvöt sinni til að koma list sinni og ástríðu á framfæri við hvert það eyra sem að meta kann tónlistarlegt offors og yfirgengilega sviðsframkomu.

Afrakstur erfiðisins hefur þó oft á tíðum verið rýr og hljómsveitin ekki verið að hljóta verðskuldaða uppskera. En vegir Satans eru órannsakanlegir og eftir örstutta og mjög kostulega atburðarás tölvupóstssamskipta, féll Muck á dögunum í skaut plötusamning við stærsta þungarokksútgáfufyrirtæki sem að Íslensk hljómsveit hefur nokkurntíman verið orðuð við- Prostethic Records.

Samningurinn hljóðar upp á alþjóðlega útgáfu og dreifingu á einni plötu af fullri lengd með ákvæði um tvær til viðbótar ef að sölutölur og sýnileiki hljómsveitarinnar í kjölfar frumburðarinns gefa tilefni til. Útgáfufyrirtæki þetta er víðfrægt í þungarokksheiminum og þykir meðlimum sveitarinar það mikill heiður að hljóta þann gæðastimpil sem að samningur við álíka risa hefur í för með sér.

Þessi fyrsta plata ungmennana fyrir Prostethic Records, sem nefnist “Your Joyous Future”, var tekin upp í frekar stuttu lævsesjóni fyrir rétt rúmu ári síðan, en samningurinn sem að kom í kjölfarið, þótt að boðin hefði verið á svipstundu, hafði í för með sér talsvert langt ferli samningsgerðar og hnýtingu ýmsa lausra enda sem að fylgja óhjákvæmilega svona löguðu.

Platan kemur út alþjóðlega í Febrúar næstkomandi og fylgir henni að öllum líkindum Evróputúr sem upphitunarband í Mars og Apríl, en strákarnir ætla sér að herja grimmt á Evrópumarkað með sumrinu. Án þess að neinar fastskorðaðar ákvarðanir hafi ennþá verið teknar um framhaldið þykir hljómsveitinni líklegt að þeir flytjist búferlum erlendis til að auðvelda þeim takmark sitt, sem er að geta lifað á tónlistinni, og kemur þá helst Berlín til greina. Bandaríkjamarkaður þykir einnig spennandi þar sem að kaninn hefur ættið tekið vel í Muck á ferðum þeirra vestur um haf, enda sé hann þeirra krád, enn mikil stofnkostnaður á þeim markaði gæti þó reynst þrándur í götu.

Það stefnir allt í að 2015 verði ár Mucksins, þannig að fylgist vel með og verið viss um að mæta tímanlega á alla Mucktónleika í framtíðinni, því hús munu fyllast fljótt.

 

Comments are closed.