MR. SILLA

0

silla 2

Mr. Silla eða Sigurlaug Gísladóttir er tónlistarkona sem margir þekkja eflaust úr hljómsveitinni Múm. Silla var að senda frá sér sína fyrstu breiðskífu en lagið Breath hefur hljómað talsvert á öldum ljósvakans að undanförnu. Silla er viðmælandi vikunnar á Albumm.is og sagði hún okkur frá hvernig hún byrjaði í tónlist, nýju plötunni og eftirminnilegustu tónleikunum svo fátt sé nefnt.


Hvenær og hvernig byrjaði þinn tónlistaráhugi og fékkstu tónlistarlegt uppeldi?

Ég var endalaust syngjandi og hlustandi á vasadiskó sem barn og unglingur en pabbi spilaði mjög mikið á píanó þegar ég var yngri. Ég lærði að spila á píanó í svona korter einhvern tímann kringum tíu ára aldurinn en fór svo að syngja í unglingakór hallgrímskirkju þegar ég var þrettán ára. Það var svo í söngkeppni samfés sem ég steig mín fyrstu skref á sviði og eftir það var ekki aftur snúið.

Hvað er það við tónlist sem heillar þig og hvernig tónlist hlustar þú á heima hjá þér?

Ég myndi segja að möguleikarnir eru óendanlegir þegar það kemur að tónlist. Tónlist getur vakið upp allskyns tilfinningar en það er það sem heillar mig. Ég hlusta mest á vínyl heima hjá mér, eða í símanum mínum með heyrnartól ef ég er á flakki.

silla 4

Þú hefur spilað víðsvegar um heiminn og ferðast heilmikið, hvar er skemmtilegast að spila og hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir hingað til?

Mér finnst skemmtilegast að spila í Japan. Tókýó er ótrúlegur staður, svo líkur og svo ótrúlega ólíkur á sama tíma, svo er maturinn í Japan líka í miklu uppáhaldi. Það vill svo til að eftirminnilegustu tónleikarnir eru oft þeir erfiðustu. Ég verð að segja að tónleikar sem ég spilaði með Múm í Rússlandi séu með þeim eftirminnilegustu. Þetta eru stærstu tónleikar sem ég hef spilað á eða um tólf þúsund manns á útitónleikum, en vegna þess að einhver stóð sig ekki í að múta réttum aðila þá var hljóðið á sviðinu sama sem gagnslaust þannig við spiluðum heila tónleika blindandi. Mjög súrrealísk upplifun.

fyrsta sólóplatan þín var að koma út, er hún búin að vera lengi í vinnslu og hvernig er tilfinningin að vera orðin sóló?

Ég var svona sirka ár að vinna plötuna þó sum lögin séu nokkura ára gömul þá eru flest lögin frá árs tímabili. Fókuseruð vinna í stúdíói með Mike Lindsay tók svo rúma viku. Ég hef í raun alltaf verið að bralla eitthvað sóló og byrjaði minn tónlistarferil þannig svo það er svo sem ekki ný tilfinning að vera orðin sóló. Bara gaman alls konar.

Þú varst meðlimur í hljómsveitinni Múm er nýja platan í svipuðum dúr eða er þetta eitthvað allt annað?

Maður er náttúrulega aldrei alveg laus undan áhrifum frá hljómsveit sem maður hefur unnið með í hátt í 8 ár og vil það heldur ekki. Engu að síður myndi ég segja að þetta sé ekki sama tónlistarstefna ef má orða það svo.

Á að fylgja plötunni eftir með tónleikahaldi og hvernig er spilamennskunni háttað (​ein eða með band)?

Já við ætlum að reyna að spila bara sem mest en við spilum plötuna tvö á sviði. Ég og J. Tyler Ludwick. Við spilum bæði á ýmis hljóðfæri.

silla

Hefurðu einhverntíman fengið leið á tónlist og langað að gera eitthvað allt annað?

Já, það hafa alveg komið dagar sem maður nennir ekki alveg en ég held að þannig væri það með hvað sem ég tæki mér fyrir hendur. Í fullri hreinskilni líður mér samt eins og ég hafi ekkert val, svo ég hef í raun ekki hugsað um að gera eitthvað allt annað.

Hvaða plötu geturðu hlustað á aftur og aftur og hvað er það við þá plötu sem heillar þig?

Sú plata sem ég hef ekki getað sleppt nýlega og fæ ekki leið á eftir heilt ár í hlustun er nýja platan með Farao „Till It’s All Forgotten,“ mæli eindregið með henni. Það er pínu erfitt að útskýra hvað er frábært við hana. Bara allt eiginlega. Mjög góð lög, frábærlega útsett og flutt.

silla 3

Hvað er framundan hjá Mr Sillu?

Bara meiri músík! Semja meira, spila meira!

https://www.facebook.com/sillasilla

 

Comments are closed.