MOSI FRÆNDI MEÐ ÚTGÁFUTÓNLEIKA Á GAUKNUM ÁSAMT DÚKKULÍSUNUM

0

Mosi frændi sendir frá sér sína fyrstu breiðskífu í vikunni, 32 árum eftir að hljómsveitin var stofnuð. Til að halda upp á atburðinn mun sveitin halda útgáfutónleika á Gauknum föstudaginn 29. september ásamt hinum óviðjafnanlegu Dúkkulísum.

Breiðskífan ber nafnið Óbreytt ástand, sem kallast m.a. á við það hvort þjóðin muni velja þann kost í komandi kosningum. Á plötunni er meðal annars að finna lögin Aulinn Atli (sjálfstætt framhald Kötlu köldu), Skítt með það (framlag Mosa frænda í Eurovision 2015), gamli pönkslagarinn Ó Reykjavík (í sjómannavalsútgáfu) og Útrásarvíkingurinn snýr aftur (HAM fátæka mannsins). Curver er upptökustjóri og galdrameistari plötunnar, en honum tekst að gæða hana sterkum heildarsvip þótt lögin séu í raun mjög fjölbreytt og ólík innbyrðis.

Mosi frændi var stofnaður í MH árið 1985 og sló eftirminnilega í gegn með lögunum Katla kalda og Ástin sigrar, en þau komu út á smáskífu sem valin hefur verið sú besta í íslenskri rokksögu.

Meðlimir Mosa frænda segjast aldrei hafa verið betri og lofa áhorfendum stórkostlegri upplifun á tónleikunum. Miðasala fer fram á tix.is

Skrifaðu ummæli