MOSES HIGHTOWER HALDA TÓNLEIKA Á HÚRRA 1. JÚNÍ

0

Moses Hightower á Granda

Moses Hightower blæs til tónleika á Húrra þann 1. júní. Fereykið sækadelíu- og sálarskotna hefur sent frá sér tvær breiðskífur við almennan fögnuð tónlistarunnenda, auk einnar rímixplötu sem eingöngu kom út á vínyl. Nú er þriðja platan í ofninum og því má búast við að heyra nokkrar framandi og splunkunýjar tónsmíðar á tónleikunum, í bland við lummur á borð við „Stutt skref“, „Sjáum hvað setur“ og „Háa C.“

Mosesliðar búa út um hvippinn og hvappinn, og eru duglegir við að spila með öðrum listamönnum víðsvegar um heiminn, og því ekki hvenær sem er sem hægt er að sjá þá á Íslandi. Hefð hefur þó skapast fyrir að halda veglega tónleika á Húrra þegar færi gefst. Hljómsveitin leggur mikið uppúr lifandi flutningi, og hlakkar gríðarlega til að fá að spreyta sig á nýjum og gömlum lögum fyrir tónleikagesti. Á undangengnum tónleikum komust allfærri að en vildu, þannig að mögulega er óvitlaust að tryggja sér miða tímanlega. Ekki verður selt við hurð ef miðar klárast í forsölu.

Húsið opnar kl. 20:00, húllumhæið hefst klukkustund síðar. Miða má nálgast á Tix.is.

Tvö nýjustu lög sveitarinnar „Snefill“ og „Feikn:“

Comments are closed.