MIKIÐ HARK FYLGIR ÞVÍ AÐ VERA TÓNLISTARKONA Í STÓRBORG

0

Tónlistarkonan Ösp Eldjárn eða einfaldlega Ösp er afar iðin við tónlistarsköpun sína en hún býr og starfar í London. Ösp kemur fram á Reykjavík Folk Festival sem fram fer á Kex Hostel næstkomandi helgi og mun hún spila lög sem hún hefur samið síðastliðin sjö ár.

Ösp segir að mikið hark fylgir því að vera tónlistarkona í stórborg og fjölbreytileikinn er aðal lykillinn! jazzsöngkona, stúdíó „sessjón” söngkona og tónlistarkennari er brot af því sem Ösp tekur sér fyrir hendur og óhætt er að segja að margt er um að vera hjá þessari hæfileikaríku konu!

Albumm.is náði tali af Ösp og svaraði hún nokkrum skemmtilegum spurningum um Reykjavík Folk Festival, lífið í London og að sjálfsögðu um tónlistina!

Hvernig mundir þú lýsa tónlistinni þinni?

Þetta er alltaf snúin spurning. Á ensku mundi ég lýsa henni sem „cinematic, nordic folk” en Tobba frænka segir að þetta sé draumkennd tónlist, full af fegurð og þrá. Sel það ekki dýrara en ég keypti það!

Þú ert búsett í London, hvernig er að starfa við tónlist í slíkri stórborg?

Það er klárlega mikið hark, en það er alveg gerlegt sérstaklega ef þú ert opin fyrir fjölbreytilegri vinnu. Ég t.d. vinn bæði sem jazzsöngkona, stúdíó „sessjón” söngkona og sem söngkona og lagahöfundur með eigið efni. Svo er ég tónlistarkennari þar sem ég sérhæfi mig í að leiða tónlistar tíma með börnum undir þriggja ára og foreldrum þeirra. Þetta getur verið strögl og þessu fylgir talsverður óstöðuleiki, en það er klárlega gerlegt.

Þú kemur fram á Reykjavík Folk Festival í ár, við hverju má fólk búast?

Þetta eru lög og textar sem ég hef samið á síðustu 7 árum, mest megnis á meðan ég hef búið í London svo innihald laganna er svolítið í takt við það. Tekist er á við heimþrá, leit af tilgangi (þörtís-krísan sko), ást, ástarsorg og sögur af fólki. Bróðir minn, Örn Eldjárn, mun koma fram með mér og skapa eins og honum einum er lagið, fallegan hljómheim í kringum lögin mín. Tónlistin mín er persónuleg og fremur melankólísk, þrátt fyrir að ég sé almennt séð glöð manneskja, þannig að fólk verður að geyma dansskóna þangað til síðar. Kannski mun ég einhverntímann semja stuðlag. Kannski.

Eitthvað að lokum?

Ég er að fara að gefa út plötu! Hún mun koma út síðar í mánuðinum og ég er hrikalega spennt að deila henni með ykkur!

Skrifaðu ummæli