Mike úr Ratatat með nýja plötu: „Fólk má búast við geimskipi fyrir utan gluggann hjá sér”

0

Tónlistarmaðurinn Mike Stroud sem allir þekkja úr bandarísku hljómsveitinni Ratatat er kominn með glænýtt verkefni á kreik sem ber heitið Kunzite. Mike og tónlistarmaðurinn Agustin skipa þetta mjög svo skemmtilega dúó en margir þekkja Agustin úr hljómsveitinni White Flight. Fyrsta platan þeirra, Birds Don´t Fly kemur út í dag og er hún vægast sagt tær snilld!

Mike er mikill íslandsvinur en hann segist elska bæði land og þjóð og er Vesturbæjarlaug og Dimmuborgir í miklu uppáhaldi! Albumm.is náði tali af kappanum og svaraði hann nokkrum spurningum um plötuna, áhrifavalda sína og Ísland svo sumt sé nefnt!


Hvenær byrjaðir þú að grúska í þessari tónlist og hvernig kom það til?

Ég og Agustin kynntumst á tónleikaferðalagi árið 2001 og náðum strax mjög vel saman en byrjuðum ekki að vinna saman fyrr en mörgum árum seinna. Nokkrum árum áður en við hittumst gerði hann plötu undir nafninu White Flight, sem ég elskaði en við í Ratatat gerðum nokkur lög með honum í kringum 2008. Agustin og Evan úr Ratatat fóru svo að vinna saman undir nafninu Abuela en svo sá ég hann ekkert fyrr en á  Coachella tónlistarhátíðinni árið 2015. Við héngum saman eftir tónleikana mína, skiptumst á tónlist og það varð kveikjan að þessu öllu saman! Þetta byrjaði mjög rólega, senda demó okkar á milli en það fór alltaf að verða meira og meira. Mest öll platan var send okkar á milli þar sem Agustin býr í Kauai og ég í upstate New York.

Hverjir voru þínir fyrstu áhrifavaldar og hverskonar tónlist ertu að hlusta á um þessar mundir?

Þegar ég var í gagnfræðiskóla var uppáhalds hljómsveitin mín Blur, ég var sko heltekinn af henni! Ég lærði hvern einasta texta og lærði að spila hvert einasta lag á gítar. Á plötuumslögum Blur mátti finna hvern einasta texta og gítarnótur þannig við ákváðum að gera það líka. Einnig var hljómsveitin Pavement í miklu uppáhaldi, algjör 90´s geðveiki. Seinna var ég dreginn inn í klassískra tónlist eins og t.d.Kinks, Zombies, Beatles, Bowie, Stones, Zeppelin og fleira. Í dag hlusta ég á allt! Það sem hefur staðið upp úr á seinustu árum að mínu mati er Lee Moses, William Onyeabor, Lee Scratch Perry, Pete Drake, Les Paul & Mary Ford, Link Wray, Tomita, Alessi Brothers, Wendy Rene, Nino Rota. Ég nýt þess mest að hlusta á vínyl plötur, elska að hlusta á plötur í gegn og skoða plötuumslögin í leiðinni.

Þú spilar á allskonar hljóðfæri, hvað er þitt uppáhalds hljóðfæri og afhverju það?

Ég reyni að fikta við eins mörg hljóðfæri og ég kemst í. Mér finnst lang skemmtilegast að spila á trommur. Að spila á trommur er mjög líkamlegt svo er auðvitað bara góð tilfinning að berja á hluti! En það er kanski eðlilegast fyrir mig að spila á gítar. Þegar ég er að taka upp lag prófa ég mjög marga mismunandi hluti, Trommur, gítar og syngja. Mér líður samt best með gítarinn, þá líður mér eins og ég viti hvað ég er að gera. Agustin er klikkaðslega góður á Andean quena flautur en hann gaf mér svoleiðis fyrir um ári síðan. Ég hef ekki enn náð neinu hljóði út úr þessu og það er að gera mig brjálaðann!

Nú er platan að koma út. Hvað Hafið þið verið að vinna að henni lengi og geturðu lýst ferlinu í þrem orðum?

Við byrjuðum fyrir alvöru að vinna að þessarri plötu fyrir um tveim árum síðan. Þrjú orð sem lýsa vinnuferlinu eru: Frelsandi, Skapandi og drepfyndið!

Hvernig mundir þú lýsa plötunni og er hún frábrugðin fyrri verkum?

Það var enginn söngur hjá Ratatat þannig þar er strax kominn stór munur. Fólk sem hefur hlustað á okkar fyrr verk mun klárlega heyra einhverja samlíkingu en kanski meira í hljómnum frekar en tónlistarsköpuninni. Þessi lög eru miklu poppaðri en okkar fyrri verk en hljómurinn okkar skín í gegn. Allar hugmyndir á þessarri plötu eru mjög hráar en í Ratatat eru öll smáatriði hugsuð til hins ýtrasta!

Hvenær kemur platan út og við hverju má fólk búast?

Platan kemur út á rafrænu formi í dag 2. Mars og svo kemur hún í verslanir nokkrum vikum seinna! Ef fólk spilar plötuna í gegn má það búast við að sjá U.F.O (geimskip) fyrir utan gluggann hjá sér!

Þú ert tíður gestur á Íslandi. Líkar þér við land og þjóð og hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?

Ég elska Ísland! Þessi staður er göldróttur og ég kem til Íslands allavega einu sinni á ári. Það er margt í uppáhaldi en ég elska að fara í sundlaugarnar og gufuböðin, sérstaklega í Vesturbæjarlaug. Ég elska einnig að fara út fyrir Reykjavík en Dimmuborgir eru í mjög miklu uppáhaldi. Einnig var ég mjög heppinn að ná að djamma á skemmtistaðnum Sirkus, það er erfitt að toppa þann stað sko! Agustin og fjölskyldan hans komu eitt sinn með okkur til Íslands og við fórum saman upp á Dynjanda og til Ísafjarðar, þau elskuðu Fjöruhúsið!

Hvenær eigum við Íslendingarnir von á því að sjá ykkur á tónleikum og einhver loka orð?

Við elskum báðir að vera í hljóðverinu að semja og taka upp þannig á næstu mánuðum ætlum við að reyna að klára plötu númer tvö. Þegar það er klárt ætlum við að setja saman band og skella okkur í ferðalag. Svo þegar allt er klárt verður Ísland klárlega meðal fyrstu stöðunum sem við spilum á. Ég vona að allir eigi eftir að líka við plötuna! Ég er kominn til Íslands og ætla að vera hér í nokkra daga, vona að ég hitti ykkur öll!

Hér fyrir neðan má hlýða á plötuna í heild sinni:

Kunzitemusic.com

Instagram

Skrifaðu ummæli