„MÉR ÞYKIR ÞESSI KARLLÆGI HEIMUR SVO YFIRÞYRMANDI“

0

Sóley

Sóley Stefánsdóttir eða einfaldlega Sóley er ein flottasta tónlistarkona landsins en hún hefur sko sannarlega komið víða við á viðburðarríkum ferli. Sóley er um þessar mundir stödd erlendis að leggja lokahönd á glænýja breiðskífu sem lítur dagsins ljós von bráðar!

Fyrir löngu fékk Sóley þá hugmynd að vera með tónlistarnámskeið fyrir konur og stelpur og er það nú að verða að veruleika. Henni finnst þessi karllægi heimur svo yfirþyrmandi en hugmyndina kom er hún horfði á myndina The Falling eftir Carol Morley. Þar eru leikararnir einungis konur fyrir utan einn strák.

Áætlað er að námskeiðin byrji snemma á nýju ári og það er á hreinu að þau eigi eftir að slá í gegn! Námskeiðin verða nánar tilkynnt síðar.

Albumm.is náði tali af Sóley og svaraði hún nokkrum skemmtilegum spurningum um námskeiðin og konur í tónlist.

Hvernig varð sú hugmynd til að byrja með tónlistarnámskeið fyrir stelpur/konur?

Hugmyndin á sér langan aðdraganda en ég hef aldrei vitað hvernig ég eigi að nálgast hana. Mér þykir þessi karllægi heimur svo yfirþyrmandi. Ég fattaði það um daginn þegar ég horfði á myndina The Falling eftir Carol Morley og í henni léku einungis konur fyrir utan einn strák. Allt í einu fann ég fyrir allt annarri orku heldur en ég er vön þegar ég horfi á myndir sem eru með körlum í flestum hlutverkum. Ég væri allavega til í að sjá fleiri góðar og listrænar kvikmyndir með konum í aðallhlutverki og leikstjórn afþví þá fáum við allt annað sjónarhorn á listsköpun. Svo er ég alveg viss um að það eru fleiri konur en ég sem leita í fyrirmyndir frá okkar kyni. Mínar kvenfyrirmyndir eru allavega ástæðan fyrir því að ég byrjaði í tónlist.

soley-mynd-ingibjorg-birgisdottir

Sóley. Ljósmynd/Ingibjörg Birgisdóttir

Hvernig var þetta þegar þú varst að byrja í tónlistinni, voru margar stelpur að gera tónlist?

Góð spurning. Ekki miðað við daginn í dag. Ég man að þegar ég tók þátt í músíktilraununum 2005 með hljómsveitinni Barbarellu (sælla minninga!) þá voru ekki margar stelpur að taka þátt þannig við getum verið glöð með það að stelpum hefur fjölgað svakalega í tónlistarsenunni á Íslandi og útum allan heim.

Verður lögð áhersla á einhverja sérstaka tónlistarstefnu á námskeiðinu eða er allt leyfilegt?

Ég er rosa spennt fyrir því að leyfa öllum að koma með sitt og leyfa þeim að ráða hvað þær vilja gera. Ef þær eiga tölvu get ég sýnt þeim á GarageBand, ég get líka tekið upp ef þær eiga einhver frumsamin lög, hjálpað þeim með texta og tónsmíðar, kennt þeim á logic og sýnt þeim svona beisik handtökin í litlu heimastúdíói. Ég er með smá stúdíó í skúrnum mínum, mjög einfalt og beisik setup og það væri gaman að sýna þeim hvað þetta er auðvelt. Svona DIY stemning.

Sóley

Karlmenn hafa alltaf verið í meirihluta þegar það kemur að tónlistarsköpun, af hverju heldurðu að það sé?

Vá ég nenni ekki að byrja að reyna að svara þessu haha! Horfum bara fram á veginn og verum vakandi fyrir öllum þessum trylltu tónlistarkonum útum allan heim. Ég sá til dæmis ógrynni af flottum tónlistarkonum á Iceland Airwaves núna síðast.

Hvar fara námskeiðin fram, hvenær byrja þau og hvar getur fólk skráð sig?

Þau munu fara fram í skúrnum mínum, ég bý miðsvæðis. Ég stefni á að hafa þau í febrúar/mars.

Eitthvað að lokum?

niii bara áfram allskonar!

https://twitter.com/soleysoleysoley

http://soleysoley.is/

Skrifaðu ummæli