„Mér finnst geggjað að fylgjast með fólki sem þorir að fylgja kreisí trendum“

0

Ólafur Hannesson byrjaði að hafa áhuga á ljósmyndun um sextán ára aldur en hann tekur myndir undir nafninu Nozenah. Ólafur tekur myndir af götutísku en hann segir að standa á réttum stað er það sem gerir góða mynd!

Albumm tók púlsinn á Ólafi og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum.


Hvenær byrjaður þú að hafa áhuga á ljósmyndun og hvernig kom það til?

Ég byrjaði að hafa áhuga á ljósmyndun í kringum 16 ára aldur, mér langaði alltaf að tjá mig með einhverri sköpun en afi og amma gáfu mér fyrstu myndavélina mína og eftir það varð ég nokkuð húkt.

Hverskonar myndavél notar þú og hvað er það sem þarf til að taka góða mynd?

Ég nota canon eos 5dsr. Til þess að ná góðri mynd þarf að standa á réttum stað.

Þú tekur götutísku ljósmyndir undir nafninu Nozenah, hvenær hófst það verkefni og hvernig kom það til?

Þetta verkefni hófst síðasta sumar, ég var sjálfur að mynda mikið á götunni og ég hef alltaf verið mjög heillaður af götuljósmyndun. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tísku og mig langaði að sameina þetta.

Hvað er það við tískuna sem heillar þig og hvað er það sem þú leitar að fyrir þína ljósmyndasköpun?

Tíska er náttúrulega bara list, mér finnst geggjað að fylgjast með fólki sem þorir að fylgja kreisí trendum, fólk sem tjáir sig í gegnum fötin. Þetta er erfið spurning en það er eitthvað við tískuna sem mér langar að vera hluti af. Ég er ennþá að leita af því sem ég er að leita af, þetta er endalaust að þróast hjá mér.

Hverjir eru þínir áhrifavaldar og eitthvað að lokum?

Mínir áhrifavaldar eru klárlega fólk eins og schott schuman, tommy ton, adam katz, julien boudet, Silja magg, Kári sverris, Aníta eldjárn, trendnet fólkið en ég gæti talið upp endalaust!

Hægt er að fylgjast með Nozenah á Instagram.

Skrifaðu ummæli