„Mér finnst ég eiga mikið inni sem lagasmiður“

0

Fyrir skömmu sendi tónlistarmaðurinn Magnús Gunnarsson frá sér plötuna No Place Like Home en hún inniheldur tíu frumsamin lög. Magnús er búsettur í Los Angeles en hann segir borgina veita sér nægan innblástur og hafa mörg lög orðið til úti í sólinni. Segja má að platan sé búin að vera í vinnslu frá árinu 2016 en þá var fyrsta lagið á plötunni samið. Nóg er um að vera hjá Magnúsi en hann er nú þegar byrjaður á nýrri plötu og semur tónlist fyrir bandaríska stuttmynd svo afar fátt sé nefnt.

Albumm náði tali af magnúsi en hann svaraði nokkrum skemmtilegum spurningum.


Þú varst að senda frá þér plötuna No Place Like Home, Er hún búin að vera lengi í vinnslu og hvernig mundir þú lýsa plötunni í einni setningu?

Fyrsta lagið á plötunni var samið árið 2016 en ég var hægt og rólega að taka upp og útfæra síðan 2017, þannig þetta er búið að vera svolítið ferli. Platan var meðal annars tekin upp í samvinnu við The Lab sem er indie producer/engineer fyrirtæki í L.A. og er í eigu Joel Numa, en hann er fjórfaldur Grammy verðlaunahafi sem hefur unnið með artistum eins og Pharrel, Enrique Iglesias, Shakiru, Lui Fonsi og fleiri stórum nöfnum. Arnar Guðjónsson hjálpaði mér líka mikið með að útfæra nokkur lög, eins og Summer Nights sem var gefið út í sumar og var á topplista Rásar 2 í nokkrar vikur. Lagið „No Place Like Home“ og „If Today Makes Tomorrow All Right“ fengu líka spilun á Bylgjunni, K100 og Rás 2.

Ef ég ætti að lýsa plötunni í einni setningu þá myndi ég kannski segja að hún væri „alternative rock“ sem er byggð á hljóðfærum og þá sérstaklega gítar, live trommum og kannski strengjum. Gerð plötunnar var mjög lærdómsrík og það eru margar góðar minningar sem ég tek frá vinnunni á bakvið hana.

Samdir þú og útfærðir lögin á plötunni?

Já ég samdi lögin, útfærði þau, söng og spilaði á flest hljóðfærin. Pabbi minn Gunnar Þór Finnbjörnsson á samt mestan hluta í laginu „If Today Makes Tomorrow All Right“, ég fékk það lánað og útfærði það. Svo voru nokkur lög samin í sameiningu með góðvini mínum Davíð Ármann. Ég fékk líka góða aðstoð frá Joel Numa og Arnari Guðjónssyni við útfærslu á nokkrum lögum.

Hvernig myndir þú lýsa tónlistarstíl þínum og hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Ætli tónlistarstíllinn minn eigi ekki rætur í mörg mismunandi „genres.“ Ég flakka á milli folk, country, pop, rock þannig að er eiginlega ekkert eitt genre sem ég er fastur í. Ég er samt meira að vinna með hljóðfæri og live trommur frekar en syntha á þessari plötu. Ég sæki mikinn innblástur í gegnum aðra tónlistarmenn og tónlist sem ég ólst upp við, eins og til dæmis Pink Floyd, Bítlana og fleiri gömul bönd. Líka bíómyndir og oft bara hugmyndir sem ég fæ í daglegu lífi. Ég hef til dæmis verið úti að keyra og fengið hugmynd, skrifað hana niður og svo þegar ég kem heim þá sem ég lag í kringum þessa hugmynd. Ég held að flestir sem semja tónlist tengi við þetta.

Lagið mitt “Give it a try” var til dæmis samið eftir að ég horfði á heimildarmynd um klifur á Netflix. Ég fékk ákveðna hugmynd um lag við að horfa á myndina, þannig beint eftir að hún kláraðist þá stökk ég inn í stúdíó, samdi lagið og tók það upp. Svo var lagið mitt “Bottle” til dæmis samið eftir að ég og aðrir kláruðum úr flöskunum okkar eftir skemmtun í bænum hérna í LA en í laginu segi ég “The bottle is almost empty” þannig maður veit aldrei hvaðan áhrifin koma.

Þú ert búsettur í Los Angeles, telur þú að borg englanna hafi einhver áhrif á tónlistarsköpun þína?

Hér er náttúrulega endalaust af tónleikum og flottum böndum að spila á hverju kvöldi. Það er líka margt af besta tónlistarfólki heims í LA þannig það er nóg um að vera og maður lærir helling af því að vera hérna.

Mér finnst líka mjög jákvætt að það skuli alltaf vera sól og gott veður, manni líður einhvernveginn alltaf vel. Ég hef til dæmis samið mörg lög sitjandi úti í sólinni, hugurinn reikar vel þegar maður er úti.

Á að fylgja plötunni eftir með tilheyrandi tónleikahaldi og á að halda tónleika á íslandi von bráðar?

Ég er búinn að spila á fullt af stöðum í Kaliforníu undanfarið og mun spila á fleiri stöðum á næstu mánuðum. Það væri gaman að spila á Íslandi á næsta ári og ég vona að ég geti gert það. Ég er líka í samvinnu með The Lab hérna úti og þeir munu væntanlega koma mér að á fleiri stöðum.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Framundan er að taka upp aðra plötu á næsta ári og spila meira live. Ég er líka að búa til tónlist fyrir stuttmynd sem verður gefin út 2019 og verður sýnd á kvikmyndahátíð sem heitir „LA Skins Fest“ sem er haldin í Chinese Theaters í Hollywood en þetta er í annað sinn sem ég bý til tónlist fyrir stuttmynd á þessari hátíð. Það væri líka gaman að gera meira af kvikmynda- og þáttatónlist, það er eitthvað sem ég sé alveg fyrir mér seinna meir.

Ég er líka að prófa mig áfram í „öðruvísi“ tónlist en ég gerði á albúminu mínu og hef hugsað mér að gefa út tónlist í samvinnu með öðrum líka. Mér finnst ég eiga mikið inni sem lagasmiður og ég held að þessi plata hafi verið ágætis byrjun.

Skrifaðu ummæli