MENNTASKÓLAHÚMORINN ORÐINN AÐ GÁFUMANNAPÖNKI 32 ÁRUM SÍÐAR

0

Mosi frændi reynir við heimsmet. Ljósmynd/Jón Örn Bergsson

Mosi frændi gefur út sína fyrstu stúdíóplötu í september á þessu ári, 32 árum eftir að hljómsveitin var stofnuð. Líklega er um heimsmet að ræða því ekki er vitað til þess að önnur hljómsveit hafi sent frá sér fyrstu breiðskífuna þetta löngu eftir stofnun. Til þess að klára verkefnið byrjar hópfjármögnun í gegnum Karolinafund þann 1. Ágúst.

Mosi frændi var stofnaður 1985 í MH og hefur öðlast þann sess að sumir kalla hana goðsagnakennda; neðanjarðarhljómsveit sem m.a. kom laginu „Katla kalda“ á vinsældalista án aðkomu útgáfufyrirtækja. Hljómsveitin féll ekki í kramið hjá sumum tónlistarspekúlöntum sem töluðu um menntaskólahúmor á fyrsta stigi rotnunar. Smáskífan með lögunum „Katla kalda“ og „Ástin sigrar“ naut mikilla vinsælda og var valin besta smáskífa íslenskrar rokksögu í netkönnun árið 2009.

Strákarnir í Mosa frænda í kringum 1988 á Hlemmi

Nú er menntaskólahúmorinn orðinn að fyrsta flokks gáfumannapönki og eftir öll þessi ár er Mosi frændi loksins að gefa út sína fyrstu stúdíóplötu. Skífan kemur út í lok september en til að ljúka við fjármögnun verður efnt til söfnunar á Karolinafund frá og með 1. ágúst. Þar verður hægt að kaupa eintak af plötunni í forsölu bæði á rafrænu og áþreifanlegu formi, tryggja sér miða á útgáfutónleika á Hard Rock Café 30. september og jafnvel komast yfir sjaldséða forngripi af Mosaminjasafninu.

Mikil fjölbreytni einkennir lögin ellefu sem prýða plötuna, enda eru þau samin á löngu tímabili, þau elstu frá fyrstu árum sveitarinnar en það yngsta frá 2016. Curver Thoroddsen sér um upptökur og hljóðblöndun og skapar með snilligáfu sinni eftirminnilegan hljóðheim utan um tónsmíðar mosans.

Ýmsir gestir koma fram með Mosa frænda á plötunni: Þráinn Árni Baldvinsson spilar hraðasta gítarsóló sem sögur fara af, Hemúllinn birtist óvænt í einu lagi, Hjalti Stefán Kristjánsson leikur á þverflautu og syngur bakrödd og kornungur harmonikkuleikari, Guðlaug Helga Björnsdóttir leikur listir sínar.

www.mosifraendi.com

Skrifaðu ummæli