MEGAS SYNGUR ÓSÓMALJÓÐ ÞORVALDAR ÞORSTEINSSONAR

0

Mengi Records gefur út plötuna Megas syngur Ósómaljóð Þorvaldar Þorsteinssonar ásamt Skúla Sverrissyni og Ósæmilegri hljómsveit 15. desember 2017. Að því tilefni verða haldnir útgáfutónleikar í Gamla Bíói mánudaginn 18. Desember kl 20:00. Hljómsveitin Madonna + Child hita upp.

Eitt fyrsta verk Þorvaldar Þorsteinssonar eftir andlát sitt var að kynna tvo vini sína, þá Megas og Skúla Sverrisson. En það var Skúli sem sá um tónlistarhluta útfarar Þorvaldar sem fram fór í Hallgrímskirkju. Hann bað Megas um að syngja við athöfnina og átti von á að fyrir valinu yrði lag úr eigin höfundarverki sem Þorvaldur hafði svo mikið dálæti á. Megas ákvað hins vegar að syngja lag og texta eftir Þorvald sjálfan, Manni endist varla æfin. Samstarfið í Hallgrímskirkju varð til þess að upptaka frá námsárum Þorvaldar í Maastricht nefnd Ósómaljóð var skoðuð nánar. Þrátt fyrir frumstæð upptökuskilyrði og hráa framsetningu var ljóst að hér væru á ferð gimsteinar sem vert væri að gefa nánari gaum. Í sameiningu skrifuðu þeir Megas og Skúli lögin niður eftir upptökunum, útsettu þau og unnu áfram í samvinnu við hljóðfæraleikara og söngvara í anda Þorvaldar. Gera fyrst, hugsa svo.

Megas hafði samið tónlistina í leikriti Þorvaldar Lífið – Notkunarreglur m.a. Lengi skal manninn reyna sem náði nokkrum vinsældum. Það sem Megas vissi ekki þá var að Þorvaldur hefði sjálfur samið lag við textann. Því þótti við hæfi að meðal Ósómaljóðanna á þessari hljómplötu væri eigin flutningur Þorvaldur á laginu sem eins konar signatúr hans.

Stór þáttur af listsköpun Þorvaldar Þorsteinssonar var helgaður því að finna frjókornið í hverjum manni og aðstoða við ræktun þess. Hann er þekktur fyrir skrif sín, myndlist og sem lærifaðir en tónlistarþátturinn hefur ekki birst áður. Þessi hljómplata er sjálfstætt verk unnið áfram af öðrum listamönnum innblásnum af leikgleði Þorvaldar og anda.

Madonna + Child eru tvær grímuklæddar verur umluktar dulúð og dularfullum sögum. Þær birtust einn daginn hér og enginn veit hvaðan eða hvernig þær bar að garði. Madonna + Child flytja myrkar vögguvísur um dauðann og alla hluti dimma og drungarlega, umkringdar galdrakanínum.

Þeir sem þora að stíga inn í heim djöflasystranna eiga sjaldan afturkvæmt. Nýlega kom út fyrsta plata Madonna + Child á vegum grasrótarútgáfunnar Lady Boy Records og seldist hún upp á örskömmum tíma. Madonna + Child bjóða ykkur velkomin í sinn draumkennda veruleika.

Hægt er að nálgast miða á midi.is

Skrifaðu ummæli