MATÓMA Á HAUSTTÓNLEIKUM MÚLANS

0

mulinn-3

Á næstu tónleikum haustdagskrár Múlans á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu, í kvöld miðvikudaginn 26. október kemur fram tríóið Matóma. Tríóið skipa þeir Ómar Guðjónsson gítarleikari, Tómas R. Einarsson kontrabassaleikari og Magnús Tryggvason Elíassen trommuleikari. Þeir hyggjast spila klassísk lög eftir höfunda úr ýmsum stílum djassins. Ómar og Magnús starfa saman í ADHD flokknum og Tómas og Ómar gáfu út diskinn Bræðralag á síðasta ári. Sveifla, latínutónlist, fönk.

Spennandi haustdagskrá Jazzklúbbsins Múlans heldur síðan áfram með 11 tónleikum til 7. desember sem fram fara flest miðvikudagskvöld á Björtuloftum, Hörpu. Flestir af helstu jazzleikurum þjóðarinnar ásamt nokkrum erlendum gestum koma fram í dagskrá haustsins, m.a. Tómas R. Einarsson, Sigurður Flosason, Einar Scheving, Þorgrímur Jónsson, Ari Bragi Kárason, Kjartan Valdemarsson, Haukur Gröndal og Jóel Pálsson ásamt Peter Tinning og bandarísku goðsagnarinnar, bassaleikaranum Chuck Israels.

Múlinn er á sínu tuttugasta starfsári en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg og Tónlistarsjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu.

Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu og er miðaverð kr. 2000, 1000 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu, harpa.is og tix.is

Comments are closed.