MARTEINN SINDRI FRUMSÝNIR GLÆNÝTT MYNDBAND Á ALBUMM.IS

0

Marteinn Sindri frumsýnir í dag glænýtt myndband á Albumm.is við lagið „Spring Comes Late Sometimes” Á síðustu misserum hefur Marteinn Sindri verið að hasla sér völl sem lagasmiður og textahöfundur  en hann hóf að koma fram með eigið efni fyrir hálfu öðru ári síðan og hefur síðan þá komið fram á ýmsum tónleikum og tónlistarhátíðum á Íslandi og í Frakklandi.

„Lagasmíðar Marteins eru lágstemmdar og seiðandi, hann leitar m.a. í rætur þjóðlaga, sálmasöngs og þess sem Bretar kalla folk músík. Það má greina áhrif frá breska tónlistarmanninum Nick Drake sem fór sínar eigin leiðir í tónlist, en einnig heyrast áhrif frá bandarískum söngvaskáldum frá ýmsum tímum. Marteinn Sindri hefur persónulega rödd sem textasmiður, semur jöfnum höndum á ensku og íslensku og leitar víða fanga. Tónsmíðar hans eru einlægar og hann nýtur liðsinnis úrvals fólks við tónflutninginn.“Jónatan Garðarsson.

Í tilefni útgáfunnar á fyrstu smáskífu sinni, Spring Comes Late Sometimes, heldur Marteinn Sindri tónleika í Mengi, Óðinsgötu, miðvikudaginn 12. apríl ásamt Óttari Sæmundsen og Kristófer Rodriguez Svönusyni klukkan 21.00. Aðgangseyrir er 2.500 kr.

Albumm.is náði tali af Marteini og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum um lagið, myndbandið og framtíðina.

Er lagið búið að vera lengi í vinnslu og hvernig mundir þú lýsa tónlistinni þinni?

Lagið Spring Comes Late Sometimes er fyrsta smáskífan sem ég sendi frá mér undir eigin nafni, Marteinn Sindri. Undanfarin tvö ár hef ég unnið að eigin tónlist og komið fram á tónleikum hér heima og í Frakklandi – en síðastliðið ár hef ég verið að vinna að upptökum ásamt Bergi Þórissyni og Daníel Friðrik Böðvarssyni. Ég hyggst fyrst um sinn senda frá mér smáskífur á borð við þá sem nú kemur út. Ég held ég myndi lýsa tónlist minni sem frekar lágstemmdri og seiðandi – það er svona pælingin. Textarnir eru mér líka mikilvægir og eru kannski á einhvern undarlegan hátt persónulegir en líka almennir og opnir til ýmissa mismunandi túlkanna.

Þó ég semji bæði á ensku og íslensku þá á textinn í Spring Comes Late Sometimes í mjög meðvituðu samtali við íslenska ljóðahefð og þau veturljóð sem við eigum eins og Fagurt er í fjörðum, þar sem þessar ljóðlínur er að finna: „En þá veturinn að þeim tekur sveigja, veit ég enga verri sveit um veraldarreit.“ Á sama tíma er von í textanum svipuð þeirri sem Halldór Laxness yrkir um í Vögguljóð á Hörpu: „Fáir vissu að vorið beið og vorið kemur að hugga.“

Hvaðan færðu innblástur fyrir þína tónlistarsköpun og hverjir eru þínir helstu áhrifavaldar?

Ég sæki minn innblástur afar víða, ég er með langan bakgrunn í tónlistarnámi, bæði í klassískri tónlist og jazztónlist en auk þess hef ég lært heimspeki og hef alltaf haft mikinn áhuga á bókmenntum – öll þessi svið hafa tvímælalaust haft mikil áhrif á mína tónsköpun og textasmíði. Maður verður kannski svolítið að því sem maður hefur áhuga á.

Að því sögðu held ég að helstu áhrifavaldar mínir séu tónlistarmenn á borð við þá Nick Drake og Nick Cave, Leonard Cohen og Bill Callahan, þá hefur Bright Eyes rúllað hjá mér í áratug og síðustu árin eru það Johanna Newsom og Sam Amidon sem hafa verið í algjöru uppáhaldi. Tónlist þeirra allra hefur með einum eða öðrum hætti haft mikil áhrif, hvort sem það síðan heyrist eða heyrist ekki í minni músík.

Hver er hugmyndin á bakvið myndbandið?

Systir mín, Katrín Helena Jónsdóttir myndlistarkona er höfundur myndbandsins og segir að um sé að ræða mínimalíska útfærslu á þeim myndum sem dregnar eru upp í texta lagsins.

Var myndbandið lengi í vinnslu og var það erfitt í framkvæmd?

Katrín hefur um nokkra hríð gert tilraunir í kvikmyndamiðlinum en hún útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands síðastliðið vor. Myndbandið er afrakstur þessarar tilraunastarfsemi en þegar Katrín fór að vinna með upptöku lagsins birtist sú grafík sem prýðir myndbandið afar fljótt og passaði einhvern veginn fullkomlega.

Á að fylgja plötunni eftir með tilheyrandi tónleikahaldi?

Smáskífunni verður fylgt eftir með tónleikum í Mengi í kvöld klukkan 21. Með mér spila Óttar Sæmundsen kontrabassaleikari og Kristofer Rodriguez Svönuson slagverks- og trommuleikari. Í næstu viku, síðasta vetrardag 19. apríl, leik ég á Heima í Hafnarfirði. Þá eru frekari tónleikar fyrirhugaðir í maí og júní.

Myndbandið við lagið gerir listakonan og systir Marteins, Katrín Helena Jónsdóttir.

 

Skrifaðu ummæli