„MARKMIÐIÐ ER AÐ EFLA REYKJAVÍK ENN FREKAR SEM TÓNLISTARBORG“

0

María Rut Reynisdóttir hefur svo sannarlega komið víða við á viðburðarríkum ferli en hún var nýlega ráðin sem verkefnastjóri Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur. Þetta áhugaverða verkefni er til þriggja ára og markmiðið er að efla Reykjavík enn frekar sem tónlistarborg!

Albumm.is náði tali af Maríu og svaraði hún nokkrum spurningum um þetta nýja verkefni og starf.


Bjóstu við að vera ráðin í starfið eða kom það þér kannski skemmtilega á óvart og af hverju ákvaðstu að sækja um?

Ég ákvað mjög skyndilega að sækja um starfið eða rétt áður en tímafrestur rann út. Ég hafði séð starfið auglýst en var sjálf í spennandi starfi sem umboðsmaður og ekki á þeim buxunum að skipta um starf. En eitthvað kallaði á mig og því ákvað ég að það sakaði ekki að henda inn umsókn og sjá hvað myndi gerast. Ég átti alveg eins von á því að hreppa starfið en vissi auðvitað ekki hverjir aðrir sóttu um það svo ég hafði ekkert við að miða. En ég er mjög ánægð með ráðninguna og það er bara gaman að breyta til.

Hvernig verkefni er Tón­list­ar­borg­ Reykja­víkur­ og hvert er þitt starfssvið?

Áður en ég var ráðin til starfa hafði starfshópur um Tónlistarborgina Reykjavík verið að störfum og sá hópur vann skýrslu þar sem settar eru fram tillögur og ákveðin forgangsverkefni sem eru:

Stuðningur við Nýsköpun, Vinnurými tónlistarfólks, Tónlistarklasi, Skólahljómsveitir borgarinnar, Harpa tónlistarhús og Kynning íslenskrar tónlistar.

Þessi skýrsla verður mitt leiðarljós í þeirri vinnu sem framundan er en annars er verkefnið skilgreint sem þróunarverkefni og því er það nokkuð opið og mitt hlutverk að skilgreina það og móta enn frekar. Sem verkefnastjóri Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur er ég að vissu leyti fjöltengið sjálft við greinina í borginna. Ég gegni ráðgjafar- og samhæfingarhlutverki, sinni upplýsingaöflun, miðlun og greiningarvinnu.

Þú ert nú enginn nýgræðingur þegar kemur að tónlist en þú hefur meðal annars starfað sem umboðasmaður og varst um tíma fram­kvæmda­stjóri Íslensku tón­list­ar­verðlaun­anna svo sumt sé nefnt. Telurðu að þín fyrri reynsla muni koma að góðum notum í nýja starfinu?

Já án efa. Ég hef einmitt starfað sem umboðsmaður og framkvæmdastjóri Íslensku tónlistarverðlaunanna og svo starfaði ég fyrir Iceland Airwaves og tónlistarveituna og frumkvöðlafyrirtækið Gogoyoko.com og var ráðstefnustjóri You Are In Control auk þess sem ég hef komið að hinum ýmsu viðburðum í gegnum árin. Ég hef því komið víða við í tónlistargeiranum og kynnst honum frá ýmsum hliðum. Það á auðvitað eftir að gagnast mér vel í þessu starfi.

Til hvað margra ára er þetta áhugaverða verkefni og hvert er markmiðið með því?

Tónlistarborgin Reykjavík er þróunarverkefni til þriggja ára en markmiðið er að efla Reykjavík enn frekar sem tónlistarborg með því að koma á fót öflugu stuðningskerfi og skapa hagstæð skilyrði fyrir gróskumikið tónlistarlíf um alla borg.

Er mikil tilhlökkun að takast á við nýja starfið og hvenær hefst það?

Já ég er mjög spennt. Þetta er nýtt starf og það verður gaman að fá tækifæri til að þróa það næstu árin og efla Reykjavík sem tónlistarborg.

Til hamingju með nýja starfið og eitthvað að lokum?

Takk! Ég hvet bara alla sem hafa áhuga á verkefninu og luma á hugmyndum sem gætu fallið undir það til að setja sig í samband við mig. Einnig hvet ég áhugasama til að kynna sér skýrslu starfshóps um Tónlisarborgina Reykjavík sem er að finna á vef Reykjavíkurborgar.

Reykjavik.is/tonlistarborgin-reykjavik

Skrifaðu ummæli