MARGRÉT ÖRNÓLFSDÓTTIR

0

magga 1

Margrét Örnólfsdóttir hefur svo sannarlega komið víða við í listinni en hún er rithöfundur, handritshöfundur og tónlistarkona svo fátt sé nefnt. Margrét var meðlimur í goðsagnakenndu hljómsveitinni Sykurmolunum, skrifaði bækurnar um Aþenu og var að ljúka við handritið að nýju sjónvarpsþáttaröðinni Föngum sem verða sýndir á RÚV 2016. Margrét kom í viðtal hjá Albumm og sagði hún okkur frá brjáluðu partýi í háloftunum með hljómsveitinni U2, hvað henni finnst skemmtilegast og leiðinlegast að gera og hvað er framundan.


Þú hefur snert á mörgum hliðum listarinnar t.d. tónlist og ritlist, hvað er það við listina sem heillar þig og ætlaðir þú þér alltaf að feta þessa braut í lífinu?

Ég man ekki eftir mér öðruvísi en á kafi í einhverju listastússi. Ég byrjaði að læra á píanó 6 ára og var mjög heilluð af tónlist frá unga aldri, ég teiknaði og málaði og föndraði mikið (er reyndar ennþá föndurfíkill!). Svo lék ég talsvert mikið líka þar sem ég er leikarabarn, steig fyrst á svið í Þjóðleikhúsinu 7 ára og var að leika eitthvað af og til fram á unglingsár. Ég hef oft reynt að láta mér detta eitthvað annað í hug, prófað að máta mig inn í hlutverk … lögfræðings eða atvinnubílstjóra eða geislafræðings, en líklega er það eina ólistræna, ef hægt er að kalla eitthvað það, sem ég hefði hugsanlega getað gert að vera leynilögreglumaður. En þetta er auðvitað tóm ímyndun í mér, sem handritshöfundur upplifi ég að ég sé að stunda eitthvað svipað og ég ímynda mér að leynilögreglumenn geri. Annars er listsköpun bara eins og hver önnur vinna, það þarf að halda sér að verki og koma sér upp tækni og verklagi sem skilar afköstum og árangri. Þetta er bölvað puð stundum en eftir því sem maður öðlast meiri reynslu og nær betri tökum á því sem maður er að gera fer maður að njóta þess á nýjan hátt, svolítið eins og með ástarsambönd – þegar maður kemst yfir ástríðubrjálæðið í upphafi tekur við tímabilið sem sker úr um hvort þetta er komið til að vera eða ekki, hvort maður getur höndlað það. En fyrst og fremst finnst mér bara gaman að vinna. Mér finnst meira að segja gaman að vinna “leiðinleg” verk.

Við höfum staðið okkur hræðilega illa á kvikmyndasviðinu hvað barnamyndir varðar en betur í bókaútgáfu, þó þar sé kannski meira magn en gæði.

„Við höfum staðið okkur hræðilega illa á kvikmyndasviðinu hvað barnamyndir varðar en betur í bókaútgáfu, þó þar sé kannski meira magn en gæði.“ – Magga

Þú hefur samið tónlist, skrifað handrit og bækur hvað af þessu finnst þér skemmtilegast að gera og og áttu þér uppáhalds verkefni sem þú hefur gert?

Núna finnst mér skemmtilegast að skrifa leikið sjónvarpsefni, það er svo mikil stemning í kringum það og framþróun sem gaman er að vera partur af. Ef ég horfi til baka þá held ég að það að semja tónlist fyrir leikhús sé kannski það ánægjulegasta sem ég hef gert. Ég held líka að styrkleikar mínir liggi helst á þessum tveimur sviðum. Ég hef skrifað bækur og það er mjög gaman en því miður svo hræðilega lítið upp úr því að hafa að maður verður að hafa efni á því, vera tilbúinn að tapa á því í raun og veru. En fyrir utan launin er algjör lúxus að skrifa skáldsögur, það er svona fimm sinnum auðveldara heldur en að skrifa kvikmyndahandrit, maður getur hreinlega skrifað það sem manni dettur í hug á þann hátt sem manni dettur í hug, án þess að vera sligaður af hinu stranga formi og lögmálum sem maður er alltaf að glíma við í handritsskrifum. Ég á engin uppáhaldsverk, nema kannski það sem ég er rétt búin að láta frá mér, sjónvarpsþáttaröðina Fanga, það er svo gaman að klára eitthvað sem maður hefur verið lengi að þróa. En þegar ég hef lokið verki þá er það fljótt að fara út úr kerfinu hjá mér, ég myndi aldrei lesa bækurnar mínar eða horfa á bíó og sjónvarp sem ég hef skrifað, eða hlusta á tónlistina mína, ótilneydd!

Frægðin og allt sem því fylgir var í raun það sem ég átti erfiðast með að sætta mig við, mér hefur alltaf þótt fjaðrafok í kringum frægt fólk alveg sérlega asnaleg og óskiljanleg. Þess vegna hentar mér líka betur að vinna meira bak við tjöldin, í Sykurmolunum gat ég falið mig aðeins bak við hljómborðið, svo þetta slapp.

„Frægðin og allt sem því fylgir var í raun það sem ég átti erfiðast með að sætta mig við, mér hefur alltaf þótt fjaðrafok í kringum frægt fólk alveg sérlega asnaleg og óskiljanleg. Þess vegna hentar mér líka betur að vinna meira bak við tjöldin, í Sykurmolunum gat ég falið mig aðeins bak við hljómborðið, svo þetta slapp.“ – Magga

Þú hefur unnið talsvert mörg verkefni tengdum börnum t.d. bækurnar Aþena og að kvikmyndinni Regína, hvað er það við það form sem heillar þig?

Fólk heldur að ég hafi unnið sérstaklega mikið af barnaefni en líklega er það tölfræðilega lítill partur af öllu sem ég hef gert, þetta er hálfgerð míta. En mér finnst gaman að vinna efni fyrir börn, maður getur leyft sér alskonar sprell og vitleysu og líka gengið talsvert lengra með tilfinningasemi en þegar efnið er ætlað fyrir fullorðið fólk, jafnvel væmni ef vill. Ég hef mjög sterkar skoðanir á efni fyrir börn og finnst alltof lítið af góðu kvikmynda- og sjónvarpsefni og virkilega góðum barnabókum. Við höfum staðið okkur hræðilega illa á kvikmyndasviðinu hvað barnamyndir varðar en betur í bókaútgáfu, þó þar sé kannski meira magn en gæði. Annars finnst mér ekki stórkostlegur munur á því að vinna efni fyrir börn eða fullorðna, maður þarf að leggja alveg jafnmikla vinnu og vandvirkni og hjarta í öll verk.

aþena 2
Þú varst meðlimur í goðsagnakenndu hljómsveitinni Sykurmolunum, hvernig var að vera í heimsfrægri hljómsveit, ferðast útum allan heim og kom þessi velgengi þér á óvart?

Sykurmolarnir voru að byrja að slá í gegn í útlöndum þegar ég gekk til liðs við sveitina, vorið 1988, svo velgengnin kom ekki algerlega á óvart. En það gat hins vegar ekkert undirbúið okkur fyrir það þegar við fórum á fyrsta Bandaríkjatúrinn, þá um sumarið, og áttuðum okkur á því að þetta var á mun stærri skala en við höfðum fattað. Annars vorum í raun bara mjög góður vinahópur sem fékk þarna tækifæri til að gera það sem okkur fannst skemmtilegt, að búa til og spila tónlist út um allan heim. Frægðin og allt sem því fylgir var í raun það sem ég átti erfiðast með að sætta mig við, mér hefur alltaf þótt fjaðrafok í kringum frægt fólk alveg sérlega asnaleg og óskiljanleg. Þess vegna hentar mér líka betur að vinna meira bak við tjöldin, í Sykurmolunum gat ég falið mig aðeins bak við hljómborðið, svo þetta slapp.

„Um leið og flugvélin var komin í loftið brast á hið brjálaðasta partí með talsvert mikilli eiturlyfjaneyslu af öllu tagi og reykingum. Það var engin undankomuleið þarna svo við Örnólfur enduðum aftast hjá tveggja metra lífverðinum sem ferðaðist með U2.“ – Magga

Þú hefur spilaðir með fjölmörgum heimsfrægum hljómsveitum eins og U2 ofl, með hvaða hljómsveit var skemmtilegast að spila og áttu ekki eina góða rokksögu handa okkur?

Já, bíðum nú við, þetta er orðið svo svakalega langt síðan! Það var auðvitað hálfóraunverulegt að vera á túr með U2 en jafnframt auðveldasta tónleikaferðalag sem við fórum á. Við þurftum ekki að spila nema hálftíma sett 3-4 sinnum í viku, vorum svo bara að bora í nefið á milli. Ég man eftir einum skemmtilegum tónleikum þar sem hitt upphitunarbandið, Public Enemy, fékk ekki að spila, þeir höfðu gert eitthvað af sér í viðkomandi fylki og voru í leikbanni. Þá kom inn frábær hljómsveit sem hét Disposable Heroes of Hyphopricy og við enduðum uppi á sviði með þeim, reyndar ekki að spila heldur bara að flippa og hiphoppa. Ég gæti sagt ykkur söguna af því þegar U2, sem ferðuðust á milli tónleikastaða í einkaþotu á meðan við vorum með rútu, buðu okkur að fljúga með frá Las Vegas til LA. Ég þáði boðið enda með Örnólf son minn 6 mánaða og nennti ekki alveg að skrölta alla nóttina í rútunni. Um leið og flugvélin var komin í loftið brast á hið brjálaðasta partí með talsvert mikilli eiturlyfjaneyslu af öllu tagi og reykingum. Það var engin undankomuleið þarna svo við Örnólfur enduðum aftast hjá tveggja metra lífverðinum sem ferðaðist með U2. Það fór vel á með okkur og engum varð meint af. En þetta er svona lýsandi fyrir mitt rokklíferni, ég var iðulega annað hvort ólétt eða með barn á brjósti á þessum túrum. Gæti líka sagt ykkur frá því þegar hljóðmaðurinn okkar gekk inn á mig á klósettinu baksviðs þar sem ég var að reyna að mjólka mig rétt fyrir gigg, en sumir eru svo viðkvæmir fyrir brjóstamjólk að ég er ekkert að misbjóða þeim.

Geturðu nefnt fimm Íslenskar hljómplötur sem hafa verið í uppáhaldi hjá þér í gegnum tíðina og hvað er það sem heillar þig við þessar plötur?

1. Íslensk þjóðlög í flutningi Engel Lund, eða Göggu Lund eins og hún var alltaf kölluð. Þetta eru valin lög úr safni séra Bjarna Þorsteinssonar sem Gagga flutti við undirleik Ferdinands Rauter sem gerði alveg frábærar útsetningar af þessum lögum. Síðar notaði Þursaflokkurinn mikið af þessum lögum á sínar plötur og ég gæti alveg líka nefnt plötur með þeim.
2. Götuskór með Spilverki þjóðanna. Ég var algjört fan, þessi hljómsveit bara hitti mig beint í hjartastað, mér fannst þau öll frábær og lagasmíðarnar og textarnir, flutningurinn, bara allt var eins og það hefði verið samið sérstaklega fyrir mig. Siggi Bjóla var samt í uppáhaldi og lagið „Fyrstur Á Fætur.“
3. Sumar Á Sýrlandi með Stuðmönnum. Ég man ennþá eftir því þegar ég fékk þessa plötu í afmælisgjöf, hef líklega verið 8 ára. Lög Stuðmanna segja svo miklar sögur og það er svo fjölbreytt stemning í þeim, svo fylgdi náttúrlega þetta frábæra myndskreytta albúm.
4. Nú Er Ég Klæddur Og Kominn Á Ról með Megasi. Þetta er líklega besta barnaplata sem komið hefur út á Íslandi. Frábærar útsetningar og flutningur Megasar … bara eins og hann er. Ég hlustaði á þetta fram og aftur sem barn, en ég hlustaði reyndar líka á allar plöturnar hans Megasar og þær voru ekki beint ætlaðar börnum.
5. Ég ætla að svindla og nefna hér tvær plötur sem Smekkleysa gaf út, annars vegar með söng Einars Kristjánssonar óperusöngvara, tvöfaldur geisladiskur af söng þessa frábæra afa hans Einars Arnar og hins vegar var það plata með upptökum af Elsu Sigfúss. Bæði Einar og Elsa voru stórstjörnur, aðallega í Danmörku. Það er eitthvað svo dásamlegt við gamlar upptökur af röddum sem eru löngu þagnaðar. Eins og sést af þessum lista þá er ég frekar gamaldags.

magga 3

„Ég er með nokkur verk í vinnslu, bæði kvikmynda- og sjónvarpshandrit og útvarpsleikrit. Þetta er á ýmsum stigum hjá mér allt frá því að vera á algjöru frumstigi og upp í að eiga bara eftir lokasnúning og snurfus.“ – Magga

Hvað er það leiðinlegasta og skemmtilegasta sem þú gerir?

Mér finnst hundleiðinlegt að standa í alskyns praktískum málum eins og bókhaldi og skattamálum. En þetta er líka breytilegt, stundum finnst mér óbærilega leiðinlegt að elda mat en stundum nýt ég þess. Það skemmtilegasta fer líka eftir aðstæðum hverju sinni, stundum er það vinnan og stundum er það að spila lönguvitleysu við yngsta barnið mitt, eða að kjafta við vini mína. Eða bara að glápa á sjónvarpið. Lífið er frekar skemmtilegt ef maður nennir því.

Þú og Ragnar Bragason skrifið handritið að nýrri sjónvarpsþáttarröð sem nefnist „Fangar,“ hvað geturðu sagt mér um þessa þætti og hafa þeir verið lengi í vinnslu?

Fangar er 6 þátta dramasería sem verður sýnd á RÚV veturinn 2016. Sagan gerist að stærstum hluta í kvennafangelsinu í Kópavogi og segir frá ungri konu sem er dæmd til afplánunar eftir ofbeldisglæp. Þær Unnur Ösp og Nína Dögg fengu þessa hugmynd fyrir 7 árum síðan og hafa drifið þetta áfram frá upphafi. Við Raggi skrifuðum handritin í nánu samstarfi við þær en eiginleg handritsskrif og þróun hafa tekið ca. 3 ár. Nú er allt á fullu í undirbúningi fyrir tökur sem verða næsta vor og sumar.

magg

Sjónvarpsþáttaröðin Fangar verður sýnd á RÚV veturinn 2016. Handrit skrifa Margrét Örnólfsdóttir og Ragnar Bragason sem einnig leikstýrir, en þáttaröðin er byggð á hugmynd Unnar Aspar Stefánsdóttur og Nínu Dögg Filippusdóttur. Framleiðendur eru Davíð Óskar Ólafsson og Árni Filippusson fyrir Mystery Productions. Ljósmynd: Mystery

Er handritið að Föngum skáldskapur eða er það byggt á raunverulegum atburðum og tekur ekkert á að skrifa svona handrit?

Það er auðvitað heilmikil rannsóknavinna sem þarf að fara fram til að koma svona sögu til skila á sem heiðarlegastan hátt. Við notum fyrirmyndir og margt er innblásið af raunverulegum atburðum og frásögnum en þetta eru ekki heimildaþættir og því algjör skáldskapur. Það er talsvert krefjandi að taka fyrir efni sem gengur talsvert nærri fólki en við höfum allan tímann verið mjög meðvituð um hverju við vildum ná fram og hvað við vildum forðast. Þannig vona ég að þegar þetta kemur fyrir sjónir almennings að fólk fái nokkuð raunsæja og óvænta mynd af kvenföngum, það að heimsækja kvennafangelsið breytti til að mynda mínum hugmyndum um staðinn heilmikið.

Hvað er framundan hjá þér?

Ég er með nokkur verk í vinnslu, bæði kvikmynda- og sjónvarpshandrit og útvarpsleikrit. Þetta er á ýmsum stigum hjá mér allt frá því að vera á algjöru frumstigi og upp í að eiga bara eftir lokasnúning og snurfus. Svo er ég að kenna handritsskrif í Kvikmyndaskóla Íslands, sem er ný reynsla fyrir mig og mjög skemmtilegt. Ég er líka formaður Félags leikskálda og handritshöfunda sem fyllir upp í dauða tímann hjá mér (sem enginn er) og rúmlega það. Nú svo eru að koma jól og eins mikið og ég berst á móti því þá missi ég mig alltaf í eitthvert fullkomlega tilgangslaust jólaföndur svona upp úr mánaðarmótum nóvember/desember, ætli ég reyni ekki að búa til englabossa úr mandarínuberki í ár?

Comments are closed.