MARGRÉT ARNARDÓTTIR

0

DSC_1057

Tónlistarkonan Margrét Arnardóttir er margt til lista lagt en hún hefur vakið talsverða athygli að undanförnu fyrir harmonikuleik sinn. Margrét er ein af spaðadrottningunum hanns Bubba, hefur spilað lög eftir Edit Piaf og er að kenna stelpum að rokka. Margrét er viðmælandi Albumm.is þessa vikuna og sagði hún okkur frá hvenær hún byrjaði að semja tónlist, hvernig hún fékk áhuga á Harmonikuleik og nýafstöðnum bandaríkjatúr svo fátt sé nefnt.


Hvenær byrjaði þinn tónlistaráhugi, hvenær byrjaðir þú að semja tónlist og hvernig kom það til?

Tónlistaráhuginn byrjaði mjög snemma, það var mikil tónlist á heimilinu, pabbi spilar á harmoniku og bróðir minn á gítar auk þess sem það var hljómborð á heimilinu sem ég gat alls ekki látið í friði. Ég samdi svolítið sem barn og skrifaði ljóð en þetta fór allt á hilluna sem og einbeittur tónlistaráhugi í svolítinn tíma. Ég er bara nýlega farin að semja og skrifa aftur en það er þá oftar svo að lögin komi óvænt til mín.

DSC_1008

Ljósmynd: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Hvernig kom til að þú lærðir á Harmoniku og hvernig kviknaði áhuginn á því?

Pabbi var formaður Harmonikufélags Reykjavíkur á þessum tíma og greyið maðurinn mátti ekki taka upp hljóðfærið án þess að ég væri farin að skottast í kring um hann og bíða þess að fá leyfi til að ýta á takkana (ég á tildæmis mjög skemmtilega mynd af mér fjögurra ára gamalli að reyna að lyfta harmonikunni sem var svipað stór og ég). Blessunarlega spottuðu foreldar mínir áhugann og ég fékk harmoniku (sem passaði á mig) í jólagjöf þegar ég var sjö ára og byrjaði í tímum í framhaldi af því.

Þegar hugsað er um harmóniku hugsar maður ekki um Popp, rokk eða dægurtónlist en þú spilar ekki hefðbundna harmonikutónlist. Hvernig kom til að þú fórst að spila þessa tónlist?

Þrátt fyrir að hafa hætt í tímum á unglingsárunum lagði ég hljóðfærið takmarkað frá mér, nikkan hefur alltaf veitt mér mikilvæga hugarró og útrás. Þá fór ég einfaldlega að velja lög sem mér finnst skemmtileg sjálf og spekúleraði mikið hvernig ég gæti komið þeim frá mér á minn hátt, enda alger sóun í því að kenna sig bara við eina tónlistarstefnu sem er kennd við hljóðfærið. Mér finnst líka gaman að spila hið hefðbundna og mun nú ekki alveg fría mig frá því, en mér finnst samt skemmtilegast að prófa mörkin, máta nikkuna í allskonar búninga. Ég spilaði tildæmis á nýjustu plötu Heimis Rappara sem kom út nú um daginn, George Orwell, og nikkan hljómar bara fantavel í rappinu.

Þú ert í talsvert mörgum verkefnum og má þar t.d. nefna Spaðadrottningarnar hanns Bubba, komið fram með Prins Póló og spilað lög eftir Edith Piaf á tónlekum svo fátt sé nefnt, er eitthvað eitt verkefni sem stendur uppúr og ef svo er af hverju það?

Vá, hvað þetta er erfið spurning. Allt þetta er svo skemmtilegt á sinn hátt. Það er yndislegt að spila Edith Piaf og sérstaklega með Brynhildi Guðjóns sem túlkar hana á alveg magnaðan máta. Tónleikarnir sem við héldum í Hörpu síðustu jól, daginn sem Piaf hefði orðið 100 ára er eitthvað sem við öll sem komum að þeim, getum verið virkilega stolt af enda var mikil vinna þar að baki. Að spila með Bubba er líka búið að vera ferlega skemmtilegt og ég hlakka til framhaldsins þar. Það er líka gaman að vinna með honum, ég datt svolítið óvart í þetta verkefni og samstarfið okkar og Adda 800 gekk svo vel að mér var troðið í öll lögin sem ég sló að sjálfsögðu ekki hendinni á móti. Eyrað mitt hefur líka alltaf verið sérstaklega opið fyrir hans notkun á harmonikunni í gegnum tíðina, bæði með Reyni Jónassyni og svo er meðhöndlun Guðmundar Ingólfssonar á nikkunni hreinlega dáleiðandi á köflum eins og í laginu Kona á þeirri gæðaplötu. Ég er líka sökker fyrir leikhúsunum og annað sem hefur staðið upp úr er þegar ég sá um lifandi tónlist í leiksýningu í Tjarnarbíói síðasta vor með leikhópnum Spindrift Theatre. Við umbreyttum leikhúsinu í undraland Lísu, þar sem áhorfendur gátu stigið í hennar spor og upplifað undraveröldina á hennar hátt. Mitt hlutverk var einhvers konar „elegant” hirðfífl drottningar þar sem ég spilaði dansandi um sviðið. Leikhúsin eru klárlega eitthvað sem ég vil komast sem oftast í tæri við og harmonikan er svo visual og dramatískt hljóðfæri að hún á fullt erindi þangað.

Hverjir hafa verið þínu helstu áhrifavaldar í gegnum tíðina og hvað veitir þér innblástur?

Yann Tiersen verður alltaf efstur á blaði þar. Það er alger unaður að bæði hlusta á og spila tónlistina hans, þetta eru gjarnan lög í einfaldari kantinum með stórt rými fyrir túlkun. Fleiri áhrifavaldar eru menn á borð við Marcin Wyrostek og Richard Galliano og svo má ekki gleyma mikilvægi bæði pabba og Karls Jónatanssonar í mínum þroska sem harmonikuleikara. Hvað varðar innblástur þá er það svo margt. Tónleikar, ljóð, heiti potturinn í Vesturbæjarlaug og bara fólk í öllum sínum fjölbreytileika. Reyndar fæ ég mestan innblástur þegar ég kemst í ró og er við það að sofna, þá virðast allskonar gáttir opnast í höfðinu. Ég gafst upp á að hafa minnisbók við rúmið og núna er „voice memos” mikilvægasta appið í símanum. Þar fá allskonar línur og hugmyndir að flæða inn og það er hálf kómískt að hlusta á það eftirá, þetta eru svona „geispandi hugmyndir” og vissulega mjög misgóðar. Þögnin getur reyndar líka verið sterk. Ég fæ mikinn innblástur af því að ferðast ein og virkjast mjög við þær aðstæður. Ég held líka ég hafi fundið orkustaðinn minn á slíku ferðalagi fyrir þremur árum. Súlurnar við Stöðvafjörð eru göldróttar, ég er viss um það.

DSC_1077

Ljósmynd: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Núna varstu að koma frá Bandaríkjunum, hvað varstu að gera þar? Ertu mikið að túra og á það vel við þig?

Ég var þar á vegum Stelpur Rokka! sem eru rokksumarbúðir fyrir stúlkur þar sem ég kenni á píanó og gítar auk þess að sinna fleiri verkefnum. Samtökin eru starfrækt í alls 70 löndum víðsvegar um heiminn og á ráðstefnunni er vettvangur fyrir okkur sem að búðunum koma fyrir upplýsingaflæði og að sækja hreint mögnuð námskeið, um tónlist og almenn mannréttindi. Þetta var virkilega inspírandi ferð í alla staði og ég er eiturspræk og klár í komandi verkefni. Og já, ég hef ferðast slatta með harmonikkuna bæði innanlands og erlendis og þykir það hrikalega gaman. Það eru forréttindi að geta nýtt tónlistina til að skoða landið og heiminn. Eftirminnilegt er þegar ég spilaði síðasta sumar á sýningu í Liechtenstein og hélt svo „óvart” harmonikkuball undir berum himni í Alpafjöllunum. Ég fór líka í sjálfboðaskipti í lítið sveitaþorp í Póllandi á vegum rokksumarbúðanna þar sem ég hélt utan um litla hljómsveit ásamt pólskum sjálfboðaliðum. Þar sem stelpurnar kunnu ferlega litla ensku fór kennslan og samskiptin í gegnum túlkun og tónlist, sem var alveg magnað. Jú svo má ekki gleyma ferðalaginu til Cannes síðasta vor með genginu í Hrútum, en þar spilaði ég í frumsýningarpartíinu og svo kokteilboðum á frönsku riveríunni. Það var alveg meiriháttar ævintýri, hátíðin, giggið að sjálfsögðu og að kynnast þessu æðislega fólki sem stendur á bak við myndina og er núna einfaldlega að rokka heiminn.

DSC_1016

Ljósmynd: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á og hvað gerir góða tónleika að þínu mati?

Eftirminnilegustu tónleikarnir… aftur er það erfitt að segja, en jú, ætli það sé ekki þegar ég spilaði með Daniel Johnston í Fríkirkjunni árið 2013 en Svavar Knútur sá um hljómsveitastjórnina þar. Daniel er magnaður karakter með svo fallega og hálfgert barnslæga einlægni í lögunum sínum. Þetta voru síðustu tónleikar hans eftir eins og hálfs árs reisu og við vorum svo heppin að fá örstutt rennsli með honum rétt áður en tónleikarnir hófust. Hann stýrði þessu algerlega sjálfur og það var algert happ og glapp hvort maður fengi sólóin sín og fleira, við vorum bara með opin eyru og eltum. Hann var þreyttur greyið maðurinn en þetta var alveg hreint mögnuð stund og tónleikarnir heppnuðust virkilega vel. Það er erfitt að setja upp formúluna að góðum tónleikum, þetta er samspil svo margra þátta. Sjarmi og nærvera í tónlistinni finnst mér reyndar ferlega mikilvægt, ég vil finna að flytjandinn hafi eitthvað að segja og vilji einlægt koma því til mín sem áhorfanda. Það þarf ekki endilega risastórt svið og áhorfendaskara, stundum eru litlir tónleikar í heimahúsi meira sjarmerandi. Það er eitthvað við nálægðina sem heillar mig og mér finnst sjálfri skemmtilegast að skila efninu frá mér þannig, í nánd. Að vera með svona sögustund, og reyna að snerta fólkið með minni eigin framsögn á efninu. Ef flytjandinn skilur ekki söguna á bak við textann, laglínuna, þá þykir mér stór gloppa í heildinni.

DSC_1086

Ljósmynd: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Hefur þú einhverntímann fengið leið á tónlist og langað að gera eitthvað allt annað?

Ekki beint að ég hafi fengið leið á tónlistinni, hún hefur alltaf verið mikilvægur partur af mínu lífi á einn eða annan hátt. En ég fór eiginlega öfuga leið að þessu. Ég var komin langt áleiðis í allt öðru verkefni þegar ég fór að finna að sú stefna í lífinu var ekki samkvæm minni innstu sannfæringu, sem er jú að fá að sinna tónlistinni af heilum hug. Það er einfaldlega sárt að hafa ekki tíma fyrir sköpunina þegar hún beinlínis öskrar á mann. Í framhaldinu stokkaði ég lífinu upp á nýtt, fékk ég mér vinnustofu og hér er ég ennþá og finn daglega að ég var að gera eitthvað rétt.

Hvaða fimm plötur hafa haft áhrif á þig sem tónlistarmann og getur alltaf skellt á fóninn?

1 Amestoy Trio: Le fil.

2 Yann Tiersen: Amelie soundtrack

3 Tin Hat Trio: Book of silk

4 Sóley: We sink

5 Bubbi: Kona.

DSC_1119

Ljósmynd: Hafsteinn Viðar Ársælsson

Hvað er framundan hjá þér?

Það er ferlega margt spennandi framundan. Á laugardaginn munum við Brynhildur Guðjóns og Birgir Braga koma fram með brot úr Piaf prógramminu á styrktartónleikum í Salnum í Kópavogi og það er alltaf tilhlökkunarefni að spila með þeim. Bubbaævintýrið er enn í gangi og sömuleiðis eru tónleikar með stækkaðri hljómsveit Prins Póló á aðgerðarplaninu, það er svo gaman að fá að koma fram með þeim. Folkbandið Sunnyside Road, er sömuleiðis með stór plön fyrir sumarið, upptökur og allskonar gleði sem ég hlakka til að fylgja eftir, og svo verða rokksumarbúðirnar á sínum stað. Ég er einnig með tónlist fyrir tvö leikrit í bígerð sem planað er að setja upp 2017 og það er hellingur meira í kortunum en einhversstaðar þarf að hætta að blaðra og gera meira, ekki satt?

Hér er hægt að sjá myndband frá Hlustendaverðlaununum 2016, en þar spilar Margrét á nikkuna í laginu Spaðadrottningarnar með Bubba:


www.facebook.com/margretarnar
www.facebook.com/sunnysideroad
www.facebook.com/balkanbandidraki
https://heimirrappari.bandcamp.com/releases

Comments are closed.