MAGNÚS JÓNSSON

0

maggi 3

Magnús Jónsson er leikari og tónlistarmaður sem hefur komið víða við á viðburðaríkum ferli. Maggi var meðlimur hljómsveitarinnar Gus Gus, lék eitt aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttunum Rétti og nýjasta tónlistarverkefnið hanns Michalowich er komið á flug svo fátt sé nefnt. Maggi er viðmælandi vikunnar á Albumm.is og sagði hann okkur frá tónlistinni og leiklistinni, hvað er skemmtilegasta hlutverkið hingað til og nýja verkefninu Michalowich svo fátt sé nefnt.


Hvenær byrjaðir þú að grúska í tónlist og hvernig kom sá áhugi til?

Ég var alltaf að flauta melódíur frá því ég man eftir mér. Þetta var allskonar í raun. Stundum var maður hrifinn af laglínu sem kveikti í manni og maður fór að improvisera í kring um hana eða leggja hana á minnið og leika sér með hana, oftast eitthvað á ensku því það var svo svalt. Ég söng tildæmis alltaf „Æ sjappó síró” í stað „I shot the Sheriff.” Átta, níu ára læri ég á píanó í tvö ár og svo fæ ég mér hljómborð á unglingsárum og byrja í hljómsveit upp úr því. Þetta hefur alltaf verið viðloðandi einhvernveginn hjá mér. Ég féll snemma fyrir Queen og sérstaklega Freddy Mercury. David Bowie fylgdi svo aðeins seinna og þessir tveir höfðu afgerandi áhrif á mig sem listamann og hafa enn, sem lagasmiðir og performerar.

maggi 6

Ljósmynd: Joe Shutter (www.joeshutter.com)

Þú hefur verið í fjölmörgum tónlistarverkefnum og hljómsveitum eins og t.d. Silfurtónar, Gus Gus og það nýjasta Michalowich. Er eitthvað eitt sem stendur uppúr á ferlinum og hvað er það sem drífur þig áfram?

Allt er reynsla. Öll þessi bönd hafa hjálpað mér að þroskast þangað sem ég er í dag, hver hljómsveit á sinn hátt. Þó hefur einkennt þetta allt leikarinn í mér held ég, að bregða mér í hlutverk til að flytja tónlistina. Alltaf reynt að taka mig Magga Jóns úr samhengi og tjaldað mér sem öðrum útgáfum af mér.

maggi 5

Ljósmynd: Joe Shutter (www.joeshutter.com)

Á dögunum kom út lagið „I Wish“ með Michalowich (Magnús Jónsson) hvað getur þú sagt mér um lagið og er von á meira frá Michalowich?

„I Wish“ er annað lagið með Michalowich. Það fyrra var „I NeverReally Missed You“ sem kom út síðasta haust. Það lag kom út sem sýndarveruleikamyndband. Mæli með að fólk skoði slóðina ineverreallymissedyou.com og leika sér með lagið í sýndarheiminum. Ég er að reyna að búa til plötu já, en er eitthvað í mótþróa við CD platformið eða albúmið einhvernveginn. Langar eiginlega að gefa bara út lag og lag, en ekki heila plötu eins og er. Það kemur þó í ljós á næstu mánuðum hvað ég geri. Ég á reyndar efni á um fimm sex plötur en þetta eru allt mjög ólík lög og týpur sem ég er að leika mér með svo ég veit ekki hvað verður með það. Ég gaf út undir nafninu Blake í nokkur ár, eina stóra plötu og nokkra singla. Eins er BB&BLAKE í hléi eins og er og maður veit aldrei hvað verður úr því í framtíðinni. Michalowich var í upphafi hugsaður sem sýndarveruleika verkefni frekar en hljómsveit. Það gæti þó breyst.

Þú ert einnig leikari. Hvenær og hvernig kviknaði áhuginn fyrir því og hvort togar meira í þig, tónlistin eða leiklistin?

Þetta hefur alltaf verið mjög samofið hjá mér einhvernveginn og erfitt að gera upp á milli. Ég er ekki einn af þeim sem halda sig við eitt listform heldur verð ég að kanna fleiri svið listarinnar stöðugt. Myndlist er farin að toga mjög í mig líka og finn að hún gefur skemmtilegan vinkil á allt hitt sem ég er að gera.

Hvernig hlutverk finnst þér skemmtilegast að leika og hvað er minnisstæðasta hlutverkið hingað til?

Það var ótrúlega gaman að leika Frank N Furter í Rocky Horror og það sama má segja um Master of Ceremony í Kabarett líka. Bæði eru þetta stór og mikil sönghlutverk og risastórir karakterar báðir tveir og alltaf í mikilli tengingu við áhorfendur og ég fann mig mjög vel í þessum uppfærslum.

maggi 4

Ljósmynd: Joe Shutter (www.joeshutter.com)

Hefur tónlistin hjálpað þér í leiklistinni eða öfugt, ef svo er hvernig þá?

Ég veit ekki með hjálpað mér. Hvort um sig innspirar annað. Mér finnst gott að reyna setja mig í spor einhverjar týpu til að geta spurt mig öðruvísi spurninga en ég myndi annars spyrja um lífið. Að geta notað það í músik er frelsi sem er nauðsynlegt fyrir mig.

Hvernig var að slá í gegn með hljómsveitinni Gus Gus og túra útum allan heim, kom þessi velgengni þér á óvart og var þetta ekki hrikalega gaman?

Þetta var annað eða þriðja meikið frá Íslandi held ég. Fyrst komu Sykurmolarnir svo Björk og svo Gus Gus. Jú auðvitað rigndi upp í nefið á manni fyrstu vikurnar og maður var stór kall á barnum. Þetta var mjög skemmtilegt tímabil. Við vorum eins og erlent fótboltalið þar sem allir liðsmenn þekktust ekki mikið áður en það gekk í liðið. Svo voru settar upp leikfléttur og annað sem var gaman að taka þátt í smá tíma en svo langaði mann að fara að skoða annað, enda frekar heimakær maður og fann mig ekki í þessum túrum mikið.

Þú rekur Leiktækniskólann ásamt Þorsteini Bachman hvað er það, hvað ertu að gera þar og hvernig kom þetta alltsaman til?

Leiktækniskólinn er í formi námskeiðahalds þar sem við kennum grunnundirstöðurnar í tækni sem er kennd við rússneska leikarann Michael Chekhov. Ég hafði kynnt mér þessa tækni fyrir sex sjö árum og varð algjörlega heillaður af henni og það sama má í raun segja um Steina líka. Við ákváðum í kjölfarið að opna skólann og kenna þetta og byggja hann að einhverjum hluta á leiklistarskóla Helga Skúla sem við Steini vorum í áður en við fórum í leiklistarskóla Íslands.

maggi 1

Ljósmynd: Joe Shutter (www.joeshutter.com)

Getur þú nefnt mér fimm plötur sem hafa fylgt þér sem lengst og hvað er það við þær sem heilla þig?

Hunky Dory – D. Bowie. Þetta var fyrsta Bowie platan mín og á alltaf sinn stað í hjartanu mínu.

Scary Monsters D. Bowie. Síðasta flotta platan hans fannst mér. Eftir að Lets Dance kom út hætti ég að hlusta á hann að mestu.

A Night at the Opera – Queen – Eitthvað ótrúlega flott við lagasmíðarnar á þessarri plötu.

Wish you were here – Pink Floyd – Þessa plötu hlustaði ég á non stop þegar hún kom út.

Curtis – Curtis Mayfield. Þarf ég að segja meira?

Hvað er framundan hjá Magga Jóns?

Í raun áfram það sama. Halda áfram að gera list. Ég fer að verða kominn með málverk í sýningu svo það styttist í það. Svo er Michalowich í fullum gangi líka og nýtt lag mun sjá sólarljós innan tíðar. Eins er ég með handrit að bíómynd í smíðum sem mig langar mikið til að koma í framkvæmd á næstunn, kenna í skólanum og svo bara lífið mar!

Comments are closed.