LOKAHRINGURINN Í LISTMESSU Í EKKISENS Í DAG

0
Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir

Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir

Sunnudaginn 6. mars hélt myndlistarkonan Katrín Inga fyrstu Listmessu af þremur í Ekkisens, sýninga- og viðburðarými á Bergstaðastræti 25B. Messan var endurtekin 9. mars en í dag er lokaathöfnin. Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir er ört rísandi myndlistarstjarna sem býr og starfar í Reykjavík. Hún reynir yfirleitt að fella gildi listarinnar um leið og hún eykur vægi hennar með verkum sínum sem hún kemur til skila með einlægum hætti. Katrín telur listina geta bjargað heiminum og vera hina einu von um betra líf. Hún hefur m.a. tilbeðið listina í formi sjálfsfróunar í gjörningarverki sem var tileinkað Nýlistasafninu og unnið þónokkuð með fyrirbærin list og trúarbrögð í verkum sínum.

artmess_teaser

Á listmessum fer Katrín Inga í hlutverk prests og framkvæmir athöfn sem minnir um margt á hefðbundna messu. Áhorfendur safnast saman tímanlega í rýminu og  Katrín Inga gengur inn í öfugum málaraslopp og rauð málning sem drýpur niður af rassinum blasir við gestum messunnar meðan hún tekur sér stöðu á eins konar altari. Að auki klæðist hún gylltum ramma, sem hún hefur hengt utan um hálsinn á sér svo hann rammar inn afturenda hennar. Katrín fer með predikanir, þar sem kristilegum hugtökum hefur verið skipt út fyrir myndlistarhugtök. Listmessan veitir okkur tækifæri til þess að tilbiðja listina í sinni hreinustu mynd, farið er með Listvorið og sungnir sálmar um listina.

artmass

„Ó list, ó list, ó liiiist“ er upphafstefið að sálmi sem sunginn er í messunni. Athöfninni lýkur svo með klukknahljómi „LIST – LIST – LIST“ – List veri með yður.

Listmessan varpar m.a. ljósi á þá huggun sem trúarbrögð veita einstaklingum og þjóðfélagshópum, en einnig dadaískan fáránleikann sem í athöfnum þeirra fylgja.

Herlegheitin byrja stundvíslega kl 15:00 í dag!

Comments are closed.