LÓA HJÁLMTÝSDÓTTIR

0

Lóa Hjálmtýsdóttir söngkona hljómsveitarinnar Fm Belfast og myndlistarkona er margt til lista lagt. Lóa kom í spjall hjá Albumm.is og sagði hún okkur frá Tónlistarferli sínum, teiknimyndasögunum og hvað er framundan svo fátt sé nefnt.

lóa 3

Hvenær byrjaðir þú að semja tónlist og hvernig kom það til?

Ég byrjaði að semja tónlist árið 2005, kærasti minn var þá í hljómsveitinni Hairdoctor og var alltaf að búa til nýja tónlist. Ég byrjaði á þessu í einhverju gríni en svo fór þetta að vinda upp á sig og núna tíu árum síðar er þetta vinnan mín. Söngurinn hefur verið mitt aðalhljóðfæri já, en ég var í hljómsveitinni Prins Póló fyrir nokkrum árum og spilaði á hljómborð þar. Það var allt öðruvísi en mjög skemmtilegt. Ég lærði á píanó þegar ég var krakki en hætti til þess að geta hangið hrækjandi fyrir utan sjoppu í Breiðholtinu.

Hvenær byrjaðir þú að syngja og hvernig uppgötvaðir þú þann hæfileika?

Mamma mín er í leikfélaginu Hugleik og ég lék í leikriti með henni þegar ég var barn og þurfti að syngja fyrir framan fólk. Ég á reyndar ekki minningu um að hafa uppgötvað hæfileika. Ég er að pæla í að hætta að svara þessari spurningu áður en ég fer að afsaka mig og segja eitthvað furðulegt.

lóa 6

Nú ert þú í hljómsveitinni Fm Belfast hvenær var það band stofnað og hvernig kom það til og er ekkert erfitt að vera eina stelpan í bandinu?

Bandið var formlega stofnað á Iceland Airwaves árið 2006. Við Árni Rúnar vorum búin að semja nokkur lög og flytja þau einu sinni en þarna slógust Árni Vil og Örvar í hópinn og þá varð hljómsveitin til. Fyrstu tónleikarnir voru á Pravda. Oftast finn ég ekki fyrir því að vera eina stelpan en stundum þegar við erum að ferðast þá gerir fólk á festivölum ráð fyrir að ég sé tour managerinn og strákarnir hljómsveitin. Svo kemur oft einhver þreyta í fólk eftir löng ferðalög en ég get alls ekki útskýrt nákvæmlega hvernig ég finn fyrir því að vera eina kvenkyns. Konum hefur fjölgað mjög mikið í þessum bransa á síðastliðnum tíu árum svo mér líður alls ekki eins og einhverri undantekningu.

Þú hefur túrað mikið út um allan heim hvað er skemmtilegasti staður sem þú hefur spilað á og á þetta túralíf vel við þig?

Mér fannst skemmtilegast í Japan en svo hef ég líka skemmt mér konunglega í Danmörku. Túralífið á ágætlega við mig en ég er líka í námi og að vinna önnur verkefni sem getur verið snúið þegar að ég er alltaf á ferðinni. Túralífið er reyndar erfiðara eftir að ég átti barn. Mig langar ekki jafn mikið að vera að heiman og vil helst bara ferðast stutt í einu.

lóa 4

Nú er Fm Belfast þekkt fyrir að vera mjög lífleg á sviði var það eitthvað sem þið lögðuð upp með frá byrjun eða kom það bara að sjálfu sér?

Við lögðum ekki upp með það frá byrjun. Fyrstu tónleikana stóð fólk kyrrt og glápti á okkur. Eitt kvöldið vorum við að spila fyrir erlenda nemendur í Háskóla Íslands. Þau dönsuðu eins og brjálæðingar og það var miklu skemmtilegra. Þá fórum við að breyta þessu í danspartý.

Hvað ertu að hlusta á þessa dagana og hvaðan færðu innblástur fyrir þína tónlistarsköpun og textagerð?

Núna er ég að hlusta á þýsk-ameríska hljómsveit sem heitir Fenster og svo keypti ég Bing Crosby plötu þar sem hann er að syngja einhverja slagara eftir aðra. Ég er hálfur dramaunglingur og hálf gardínufyllibytta þegar kemur að tónlistarvali.

Þú ert einnig myndlistarkona/teiknari og ert með Lóaboratoríum, hvað er það og geturðu sagt mér aðeins nánar frá því?

Ég lærði myndlist og myndskreytingar og vinn því sem teiknari, myndasögu- og handritshöfundur. Lóaboratoríum er samheiti yfir allt ruglið. Þessa dagana nota ég þetta nafn fyrir myndasögurnar sem birtast vikulega í Fréttatímanum og bókin sem kom út í fyrra hét þessu nafni. Þetta eru myndasögur um hitt og þetta. Hversdagsdrama og reiðistjórnun.

lóa 2

lóa 1

Þú hefur gert teiknimyndasögur, teiknaðir fyrir þættina hans Hugleiks Dagssonar og gefið út slatta af bókum. Er eitthvað verkefni sem stendur upp úr og ef svo er af hverju?

Mér fannst óvenjulega gaman að tala inn á Hullaþættina, það var með því skemmtilegasta sem ég hef gert. Ég tók líka þátt í að semja handritin að þáttunum, það kom mér á óvart hvað það var auðvelt. Ég hafði ekki áttað mig á því hvað myndasagan er náskyld handritinu.

Lestu sjálf mikið af teiknimyndasögum og hvað er það þá sem þú ert að lesa?

Já, ég tek tímabil þar sem ég les mikið. Ég er mikið fyrir sjálfsævisögulegar myndasögur og skrýtnar teikningar. Um daginn las ég bókina Benson’s Cuckoos sem er sakamálasaga með mjög hlægilega teiknuðum dýrum sem vinna á skrifstofu. Ég hló upphátt þegar ég opnaði bókina á bókasafninu og eftir lesturinn reyndi ég að sannfæra fólk í kringum mig að þetta væri skyldulesning.

lóa 5

Hvað er framundan hjá Lóu?

Framundan er að teikna nýja myndasögubók, útskrifast úr mastersnámi í Ritlist í háskólanum, spila á Þjóðhátíð, halda upp á þriggja ára afmæli sonar okkar og tíu ára sambandsafmæli okkar Árna. Svo langar mig að fara í heiladauða sólarlandaferð.

 

 

 

 

 

 

 

Comments are closed.