LJÓSMYNDARINN GAUI H. OG KONTINUUM FLYTJAVERKEFNIÐ „KYRR“ Á MENNINGARNÓTT

0

Gaui H

Á Menningarnótt munu ljósmyndarinn og listamaðurinn Gaui H. og hljómsveitin Kontinuum flytja samvinnuverkefni sitt sem ber heitið „Kyrr.“ Um er að ræða tónleika í bland við magnþrungið myndbandslistaverk.

Kontinuum mun flytja tónlist nýjustu plötu sinnar Kyrr í heild sinni samhliða 45 mínútna löngu myndbandsverki sem myndar samfelldan söguþráð í gegnum alla plötuna. Verður þetta einnig í fyrsta sinn sem Kontinuum flytur plötuna í heild sinni opinberlega. Ekkert var til sparað við gerð verksins. Tökur fóru fram víða um land, en þó að mestu meðfram suðurströndinni og á Reykjanesi.

kONTINUUM

Kontinuum

Fjöldi leikara og förðunarfræðinga vann með Gaua og setti sinn svip á verkið. Mikill tími fór í tökur og þurftu leikarar að leggja á sig mikið erfiði, oft við erfiðar aðstæður.

Myndbandsverkinu verður varpað á framhlið Hótel Kvos og mun hljómsveitin spila undir á sviði sem verður sett upp við hlið hótelsins.

Gaui H. hefur unnið að ýmsum verkefnum undanfarin ár. Hann hefur tekið ljósmyndir fyrir 1903 Magazine, ReykjavíkLife.is og einnig myndir á Eistnaflugi 2016 sem munu birtast í breska þungarokkstímaritinu Terrorizer. Þá hefur Gaui einnig tekið ljósmyndir og myndbönd fyrir verkefnið „The Breath of Iceland“ sem og ýmis verkefni fyrir fyrirtæki og vörumerki s.s. Adidas og Zo-on.

Hljómsveitin Kontinuum sendi frá sér plötuna Kyrr í apríl 2015 og hlaut hún góðar viðtökur, bæði hér á landi og víða erlendis. Eitt af lögum plötunnar, „Í huldusal,“ var gefið út sem smáskífa árið áður og var eitt mest spilaða lag X-ins árið 2014. Hljómsveitin hafði áður sent frá sér plötuna Earth Blood Magic, árið 2012. Kontinuum vinnur nú að sinni þriðju breiðskífu sem verður gefin út af útgáfufyrirtækinu Season of Mist á næsta ári.

Viðburðurinn verður haldinn fyrir utan Hótel Kvosina og byrjar stundvíslega kl. 22:00

Comments are closed.