„Liam Gallagher talar ekki við okkur lengur” – SHAKES taka yfir heiminn!

0

Ljósmynd: Thelma Björk.

Logi Marr og Frank Raven skipa hljómsveitina SHAKES en í dag sendir sveitin frá sér glænýtt lag og myndband sem ber heitið „Loaded To Get Loaded.” Shakes-liðar eru á blússandi siglingu um þessar mundir en fyrir ekki svo löngu skrifaði sveitin undir samning við bresku plötuútgáfuna Shove it up your cult records. Drengirnir eru á fullu þessa dagana en Shakes kemur fram á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves sem fram fer 7. – 10. október næstkomandi. Shakes heldur svo út í hinn stóta heim og fer í tónleikaferð um Bretland!

Albumm.is náði tali af Loga og Frank og svöruðu þeir nokkrum skemmtilegum spurningum!


Hvað pantið þið ykkur þegar þið dettið inn á barinn og hvað er besta rokk lag allra tíma?

SHAKES drekka eingöngu Kóngavatn (kampavín í koníak), annars labba þeir út. Loaded to get loaded er án nokkurs vafa besta rokk lag allra tíma og ef það væri möguleiki væri það meitlað í marmara.

Hvort munduð þið vilja fara á djammið með Keith Richards eða Liam Gallagher?

Við verðum að segja Keith af því að Liam talar ekki við okkur lengur.

Hvað er eftirminnilegasta atvikið sem sveitin hefur lent í?

Við munum lítið eftir síðustu mánuðum en myndirnar frá Tokyo túrnum gefa sterklega til kynna að þar hafi verið stuð fyrir alla nema Liam!

Ljósmynd: Thelma Björk.

Nýtt lag og myndband og allt að gerast, eruð þið ekki ánægðir með afraksturinn?

Værum við annars að gefa þetta út ?

Er lagið um eitthvað sérstakt og er það búið að vera lengi í vinnslu?

Lagið var samið í annarlegu ástandi sem soundtrack fyrir bíómynd sem aldrei verður gefin út. Það var tekið upp hér heima af Leó Inga og í höfuðstöðvum Shoveitupyourcult studios í Leeds. Við létum síðan lagið í hendurnar á Arnari Leaves sem hljóðblandaði meistaraverkið og svo fór það í master til Howie Weinberg, sem masteraði meðal annars Nevermind og fokking Grace.

Hvað er framundan hjá SHAKES og eitthvað að lokum?

SHAKES mun heiðra Íslendinga á Airwaves í ár og svo förum við eins hratt og við getum til Bretlands á túr í beinu framhaldi. Smá að lokum bara, Vök..nenniði plís að hætta!

Shakesband.co.uk

Instagram

Skrifaðu ummæli