LHÍ OG HÍ KYNNA SÍNA FYRSTU RÁÐSTEFNU UM DÆGURTÓNLISTARFRÆÐI

0

RÁÐSTEFNA

Listaháskóli Íslands og Háskóli Íslands kynna með stolti fyrstu íslensku ráðstefnuna um dægurtónlistarfræði.  Fer hún fram í báðum skólum, föstudaginn 22. apríl, 2016.

Innlendir sem erlendir fræðimenn halda tölur á ráðstefnunni en lykilerindið er í höndum Dr. Nick Prior, deildarstjóra félagsvísindasviðs Háskólans í Edinborg (sem er það tíunda besta í heimi). Dr. Prior er einn mikilhæfasti dægurtónlistarfræðingur samtímans en rannsóknir hans á tengslum menningar, dægurtónlistar og tækniframfara hafa vakið heimsathygli á undanförnum árum.

Dr. Nick Prior

Þau Þorbjörg Daphne Hall, lektor við LHÍ, Dr. Viðar Halldórsson, Dr. Davíð Ólafsson og Arnar Eggert Thoroddsen, aðjúnkt við HÍ, eru fulltrúar Fróns á meðan þær Dr. Áine Mangaoang og Emily Baker, doktorsnemi, koma frá háskólanum í Liverpool. Ráðstefnu lýkur með pallborði og opnum umræðum og þar tekur Dr. Páll Ragnar Pálsson, tónskáld, tónlistarfræðingur, gítarleikari Maus og kennari við LHÍ þátt ásamt fyrirlesurum.

Dagskrá - Dægurtónlistarráðstefna 2016

Ráðstefnan er haldin til að styðja við sýnilegan vöxt í dægurtónlistarfræðum hérlendis. T.a.m. var námskeiðið „Félagsfræði dægurmenningar“ haldið í fyrsta skipti í HÍ síðasta vor og námskeiðið „Menningarfræði dægurtónlistar á tuttugustu öld“ var haldið nú í vor. Síðasta haust fór námskeiðið „Popp- og rokktónlist í fræðilegu ljósi“ fram í Endurmenntun og væntanlegir útskriftarnemar, veri þeir í LHÍ eða HÍ, eru í auknum mæli farnir að skrifa um dægurtónlistartengd efni.

Ráðstefnan fer fram á ensku og er aðgangur ókeypis. Lærðir sem leikir eru hvattir til að mæta og kynna sér þessi zizzlandi, bubblandi, sjóðandi fræði.

Comments are closed.