LEIKSTJÓRI, MYNDBAND ÁRSINS OG NÝÚTKOMIN PLATA

0

Tónlistarmaðurinn Balbert Alvin eða Baldvin Albertsson eins og hann heitir réttu nafni sendi fyrir skömmu frá sér plötuna, Þetta er allt þitt. Kappinn ólst upp hjá tónelskandi foreldrum og eftir að hafa heyrt lagið Peaches með hljómsveitinni The Presidents of the United states of America var ekki aftur snúið!

Baldvin er ekki bara tónlistarmaður heldur er hann einnig leikstjóri og starfar hann sem slíkur hjá framleiðslufyrirtækinu Tjarnargötunni. Hann vann til verðlauna á Íslensku Tónlistarverðlaununum fyrir myndband ársins en það var við lagið Mars með hljómsveitinni One Week Wonder!

Albumm.is náði tali af kappanum og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum um nýútkomna plötu og myndband ársins svo fátt sé nefnt!

Hvenær byrjaðir þú að semja tónlist og af hverju?

Ég hafði aldrei spáð í að búa til tónlist, ég ólst upp með tónelskandi foreldrum en hafði aldrei sýnt hljóðfærum neinn sérstakan áhuga. Svo einn daginn heyrði ég lag í útvarpinu, með hljómsveit sem hét The Presidents of the United states of America, lagið hét Peaches og eftir það, þá langaði mig að fara búa til tónlist. Ég hugsaði bara með mér, „hey, ég get þetta.” Það var ákveðið að senda mig á gítarnámskeið hjá GÍS. Hinsvegar missti ég áhugann nánast strax og einbeitti mér meira af því að búa til sarg og skrítin sánd með magnaranum fremur en að læra hljómaganginn. Stuttu seinna kynntist ég Impulse tracker, sem var gamaldags Ms-Dos forrit. Svona, langafi Ableton live og byrjaði að fikta og læra, þá byrjaði ég formlega að garfa í elektróníkinni og hætti fljótlega að hlusta á The Presidents of the United States.

Hvernig tónlist semur þú og hvaðan færðu innblástur?

Tónlistin sem ég geri í dag finnst mér réttilega vera samansafn af allri tónlist sem hefur haft áhrif á mig í gegnum tíðina. Ég hef aldrei litið á mig sem hljóðfæraleikara og því eru laglínurnar mínar tiltölulega einfaldar en hljóðheimurinn minn er stór. Útsetningarnar mínar eru kaflaskiptar og óútreiknanlegar, því oft þegar ég er að semja tónlistina mína þá geri ég mörg demo af hverju lagi og prufa allskyns útsetningar. Svo set ég margar útsetningar á símann minn og hlusta yfir þær í amstri dagsins. Leyfi öllu að þróast og þar af leiðandi er oft innblástur minn eitthvað sem er fyrir framan mig sem ég sé ekki fyrr en ég er akkúrat í réttu hugarástandi og gríp tækifærið.

Þú varst að senda frá þér plötu, var hún lengi í vinnslu og hvernig mundir þú lýsa plötunni?

Platan mín heitir „Þetta er allt þitt,” sem er mín leið til þess að sætta mig við  þá staðreynd að ég á plötuna ekki lengur. Hún er sloppin úr prísund og er núna í boði fyrir hvern þann sem vill heyra verkið. Platan hefði ef til vill aldrei komið út ef það væri ekki fyrir Einar Vilberg, upptökustjóra plötunnar sem hvatti mig áfram og tók upp allt verkið, hljóðblandaði og masteraði. Hann er  mjög hæfileikaríkur og góður vinur, svo spilaði hann einnig á gítar fyrir mig í þremur lögum og meira að segja var með eina bakrödd. Svo fékk ég einnig Óskar Þór , Zetuna til þess að spila á trommur í tveimur af lögunum og Stefán Vilberg spilaði á bassa í sömu  lögum. Við tókum upp plötuna í Studio Hljóðverk hjá Einari og gáfum okkur nægan tíma í hlustun og mix. Byrjuðum í febrúar 2016 og vorum búnir að öllu í ágúst sama ár. Verkið kom svo út 1. janúar seinastliðinn og er nú fáanlegt á Spotify, Soundcloud og til sölu á Bandcamp svona fyrir þá sem vilja niðurhal.

Þú starfar einnig sem leikstjóri og vannst til verðlauna á Íslensku Tónlistarverðalununum fyrir myndband ársins. Kom það þér á óvart og ertu búinn að starfa við það lengi?

Ég er í mjög skemmtilegri vinnu sem leikstjóri og starfa ég hjá Tjarnargötunni, framleiðslufyrirtæki. Hef verið þar síðan 2013 og er gasalega stoltur af öllu sem við höfum afrekað saman starfsmennirnir þar. Framleiðslan okkar er frekar fjölbreytt og gerum við mikið af t.d. auglýsingum en við tökum einnig að okkur tónlistarmyndbönd og tónlistartengda viðburði. Við höfum t.d. unnið með OMAM, Gauta, Agent Frescoe, Vök, Úlf Úlf og One Week Wonder. Við höfum einnig verið mikið í viðburðum líkt og  Sónar, Secret-Solstice, Airwaves og séð um Nordic Playlist  sem hefur farið víða um Evrópu, ásamt því að taka upp heilu tónleikana og fleira. Svo er náttúrulega mjög gaman að fá viðurkenningu fyrir störf sín og unnum við nú um daginn tónlistarmyndband ársins á Íslensku Tónlistarverðlaunum og erum við gífurlega stolt af því, enda kom það mjög á óvart þar sem samkeppnin var mjög hörð þetta árið. Pínu fyndið að segja frá en Balbert vörumerkið þróaðist eiginlega óvart  hjá Tjarnargötunni, Arnar Helgi, annar eigandi fyritækisins er svona „Brand manager-inn” minn og sér um skipulagningu tónleikaferða. Svo söng Skapti tökustjóri bakraddir inná plötuna. Plötukover og Lógó var svo hannað af þeim Krissa og Hólmes hjá Playmo, þeir sérhæfa sig í grafík og animation. Ég gaf þeim bara smá tíma til að spá og spekúlera, kikti svo á þá og þeir fullkláruðu hönnun og concept á 20 mínútum enda miklir fagmenn og fagurkerar.

Hvað er það sem gerir gott tónlistarmyndband?

Tónlistarmyndbönd í dag eru jafn mikilvæg og það var fyrir 10 árum, að vera hjá þekktum útgefanda að mínu mati. Maður hefur séð undanfarin ár tildæmis með tilkomu Youtube að margar hljómsveitir og listamenn hreinlega skjótast uppá yfirborðið ef það er gott tónlistarmyndband sem ryður veginn. Samkeppnin í dag í myndbandsgerð er náttúrulega geggjuð sem er frábært og sitt sýnist hverjum um hvað það er sem virkilega gerir gott tónlistarmyndband en að mínu mati er gott myndband eitthvað sem heldur hönd í hönd við lagið sjálft, því tilgangurinn er náttúrulega að skapa eitthvað fallegt fyrir augu áhorfandans svo að eyrun fái að njóta alls lagsins. Sem dæmi, One Week Wonder strákarnir eru miklir fagurkerar þegar kemur að sándinu og  hljóma mjög „analog” og lífrænir. Því ákvaðum við að nota það sem innblástur fyrir sjónrænu hliðina og gerðum við mikið af tæknibrellunum með áþreifanlegum hlutum(e.physical FX) en tildæmis geimskipið var gert í þrívídd enda algerir galdrakarlar sem vinna hjá okkur.

Ljósmynd: Marínó flóvent/Tjarnargatan.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Þessa dagana er ég að þróa og æfa mig fyrir lifandi flutning á verkum mínum og er búinn að skapa algert skrímsli sem ég ætla að draga með mér milli  tónleikastaða í náinni framtíð. Ég  gef svo út nýtt lag í apríl næstkomandi. Stefnan er svo almennt sett á að spila sem víðast og jafnvel að ég finni tima til að gera myndband fyrir tónlistina mína. Aldrei að vita.

 

Hægt er að hlusta á Balbert Alvin á Spotify.

Skrifaðu ummæli