LEIFUR GUNNARSSON OG HLJÓMSVEIT SPILA Á MÚLANUM Í HÖRPU 18. NÓVEMBER

0

LEIFUR

Á næstu tónleikum haustdagskrár Jazzklúbbsins Múlans sem fara fram miðvikudaginn 18. nóvember á Björtuloftum, í Hörpu kemur fram hljómsveit bassaleikarans Leifs Gunnarssonar. Hann gaf á dögunum út sína fyrstu plötu sem ber nafnið „Húsið Sefur.“ Á tónleikum Múlanns fagnar hann einnig ásamt meðleikurum sínum útgáfu samnefndrar bókar sem inniheldur tónlist og útsetningar af öllum verkum plötunnar. Bókin og platan innihalda átta verk sem öll eru skrifuð við íslensk ljóð og sækir Leifur innblástur í heimþrá íslendings í Kaupmannahöfn. Verkin hafa verið í smíðum samhliða B.A. námi hans í Rytmisk musikkonservatorium og mætti lýsa tónlistinni sem lýrískum og melankólískum þjóðlagadjassi. Ásamt Leifi koma fram á tónleikunum: söngkonan Ingrid Örk Kjartansdóttir, Kjartan Valdemarsson sem leikur á píanó, Matthías Hemstock trommuleikari, Haukur Gröndal á saxófón og klarínett og Snorri Sigurðarson sem leikur á trompet og flugelhorn.
Spennandi haustdagskrá Jazzklúbbsins Múlans heldur síðan áfram með tónleikum sem fara fram flest miðvikudagskvöld til 16. desember á Björtulöftum, Hörpu. Múlinn er á sínu 19. starfsári en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg og Tónlistarsjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu.

Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu og er miðaverð kr. 2000, 1000 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu og tix.is

Comments are closed.