„Lásum okkur aldrei til heldur prófuðum okkur bara áfram”

0

Einar og Eiður í góðum gír á Kaffibarnum. Ljósmynd: Brynjar Snær.

Einar Snorri og Eiður Snorri mynda ljós og kvikmynda tvíeykið Snorri Bros en þeir voru að senda frá sér bókina Barflies 2. Bókin er einskonar framhald af fyrri bókinni en bækurnar skarta ljósmyndir af barflugum Kaffibarsins. Kaffibarinn opnaði árið 1993 og dróg strax að sér aðal spírur bæjarins, tónlistarfólk, leikara og listafólk! Snorri Bros er án efa farsælasta ljós og kvikmynda tvíeyki íslands en þeir hafa svo sannarlega komið víða við á viðburðarríkum ferli.

Albumm.is náði tali af Einari og Eið og svöruðu þeir nokkrum spurningum um hvernog þetta byrjaði allt saman, innblásturinn og auðvitað bókina svo sumt sé nefnt.

 

Hvenær byrjuðu þið að hafa áhuga á ljósmyndun og hvernig kom það til?

Árið 1989 þegar við byrjuðum að fikta við að taka myndir, fyrst ég [Einar Snorri] að taka myndir af Eið þar sem hann var búin að vera að fyrirsætast með Módel 79 og svona.  Fórum svo saman í litla myrkraherbergið sem við settum upp í kjallaranum hjá mér. Það var frekar skrautlegt þar sem við lásum okkur aldrei neitt til um hvernig skal gera heldur prófuðum okkur bara áfram með í hvaða röð við settum pappírin í framköllunarvökvana.  Útkoman var mjög grúví. Eiður fékk þá framúrstefnulegar hugmyndir með hvernig mætti blanda ljósmyndum saman á sama pappírinn og fékk hugmynd sem við seldum svo Fálkanum til að auglýsa fjallahjól. Fyrsta ljósmyndin sem Eiður tók og setti saman var þá byrt sem heilsíðuauglýsing í Mogganum.

Hvað er það við ljósmyndun / kvikmyndagerð sem heillar ykkur og hvað veitir ykkur innblástur?

Að frysta augnablikið og taka út fyrir tíma og rúm með því að smella mynd.  Svo er svo gaman að vinna með ljós. Búa til stemmningu og fanga hana, og krydda með því hvernig við lýsum myndefnið.  Og svo nota fleyri element eins og reyk, vind, förðun, búninga, skart og skraut og endalaust annað gaman. Innblástur kemur úr öllum áttum, eins og t.d. náttúrinni, draumum, bíómyndum, tónlist, myndlist og þegar maður lyggur í baði og hugsar ekkert, þá koma oft hugmyndir flögrandi inn á eigin spítum.

Nú hafið þið unnið með og myndað mikið af stærstu stjörnum heims. Hvernig æxlaðist það allt saman og hver er eftirminnilegasta takan ykkar?

 Við byrjuðum strax heima á Íslandi að taka oft myndir af tónlistarfólki og hljómsveitum.  Svo þegar við fluttumst til New York 1995 þá byrjuðum við fljótlega að mynda fyrir tónlistablaðið SPIN þar sem við urðum seinna einir af aðalljósmyndurum blaðsins.  Tókum því mikið af myndum af heimsfrægu tónlistarfólki og böndum, og í framhaldi tókum við myndir fyrir hljómplötufyrirtækin og önnur tímarit eins og Interview Magazine, Details og Rolling Stone.  Ein eftirmynnilegasta takan var fyrir SPIN af hljómsveitinni Green Day. Þeir eru alveg geggjaðir gaurar og til í allt. Við fórum heim til söngvarans Billie Joe í Oakland. Við enduðum með þá í baðkerinu í öllum fötunum.

Barflies 2 var að koma út. Hvernig kom til að þið ákváðuð að gera Barflies 2 og hver var hugmyndin af fyrstu bókinni?

Þau Svanur og Guðný á Kaffibarnum höfðu samband við okkur með hugmyndina að taka fleiri myndir í sama stíl og gefa út nýja bók í tilefni 25 ára afmæli barsins.  Við vorum meira en lítið til í slaginn. Hugmyndin af fyrstu myndunum sem komu út í bók 1 var að taka myndir af fyrstu fastagestum Kb og búa til blaðaauglýsingar til að auglýsa hinn nýja bar.  Tókum bara um 15 í fyrstu tökunni sem við notuðum í aulýsingarnar. Eftir það slógum við til og hringdum í alla þá sem við vorum með síman hjá í filofax‘unum okkar. Flestir þeirra sem voru heima og pikkuðu upp símann komu í tökuna. Þau sem voru ekki heima misstu af henni.

Hvernig munduð þið lísa Barflies verkefninu í einni setningu?

Einar: Ást

Eiður: Virðing

Ef þið gætuð farið á djammið með einni persónu (lífs eða liðinn) hver yrði fyrir valinu og afhverju hann/hún?

Nikola Tesla, til að brainstorma saman yfir einum köldum.

Hvað er framundan hjá ykkur og eitthvað að lokum?

Framundan er bara áframhaldandi vinna við það sem við elskum, að leikstýra og mynda, þá aðalega a erlendri grundu en við erum komnir með mikla heimþrá og ætlum þvi einnig að að setja upp myndasmiðju hér heima þar sem við munum framleiða og leikstýra auglýsingum, heimildarþáttum, myndböndum og hvað eina sem dettur inn frá fyrirtækjum og fólki hér heima. Erum svo að þróa græjuna okkar “Snorricam” og hyggjumst setja á markað á næsta ári.  Svo er planið að gera okkar fyrstu bíómynd “Ultrasound” eftir sögu félaga okkars Chuck Cors um næstu jól ef allt gengur að óskum. Hægt er að hafa samband við okkur hér: talktous@snorribros.com

Snorribros.com

Snorri Bros á Instagram

Skrifaðu ummæli